Dagshríðar spor
Árið 1938 kom út í Reykjavík fyrsta smásagnasafn Guðrúnar H. Finnsdóttur, skáldkonu sem búsett var í Winnipeg. Bókin heitir Hillingalönd, og er eina bókin sem Guðrún sá eftir sig í lifanda lífi. Í þessu safni eru fjórtán sögur sem flestar höfðu áður birst í Tímariti Þjóðræknisfélagsins eða Heimskringlu. Að Guðrúnu látinni gaf eiginmaður hennar, Gísli Jónssson, út smásagnasafnið Dagshríðar spor sem kom út á Akureyri 1946. Þar voru tólf sögur og var safni þessu vel tekið. Eftir lát Guðrúnar kom út í Winnipeg minningarrit um hana sem Gísli nefndi Ferðalok. Í þeirri bók eru birtir nokkrir fyrirlestrar og ræður Guðrúnar, auk erfiljóða og minningargreina um hana.
Í formála smásagnasafnsins Dagshríðar spor segir m.a.:
„Bókarhöfundur vildi aldrei láta kalla sig skáld eða rithöfund - hélt því ávalt fram að þessi hjáverk sín hefði hún gjört sér til hugarhægðar á andlegum tómstundum eða beinlínis fyrir ítrekaða þrábeiðni annara, og benti á, því síðar talda til sönnunar, hversu margar jólasögur hún hefði verið knúð til að skrifa. En þeir eru víst fáir, sem voru henni samdóma í þessu atriði; enda hygg eg það ekki ofmælt, að í þessum tveimur bókum hennar sé að finna margt af því allra besta, sem ritað hefur verið í lausu máli á íslensku hér vestan hafs, - nægir aðeins að benda á sögur eins og „Enginn lifir sjálfum sér“ og „Salt jarðar“, svo aðeins sé nefnd ein saga úr hvorri bók og með því er þó ekki verið að leggja þann dóm á, að það séu endilega bestu sögurnar“ (Gísli Jónsson, 1946).
Sögurnar tólf í safninu fjalla margar um Íslendinga vestanhafs og hina römmu taug sem tengir þá við föðurlandið, einkum frá sjónarhóli kvenna. Allar gerast sögurnar í Vesturheimi en fjalla þó mjög um Ísland, í eins konar tilraun til sátta og samruna ólíkra kynslóða og landa. Þetta kemur hvað skýrast fram í landslagslýsingum þar sem gamla landið myndhverfist í það nýja. Áhrifamikil mynd birtist í smásögunni „Traustir máttarviðir“ af unglingsstúlku kviksettri á kistubotni ásamt gulnuðum blöðum, sem má túlka á ýmsa vegu.
Heimildir:
Gísli Jónsson 1946. Stutt greinargerð. Dagshríðar spor. Tólf sögur
Helga Kress 2005: Um samband landslags, skáldskapar og þjóðernis í sögum Guðrúnar H. Finnsdóttur
Richard Beck 1949: Guðrún H. Finnsdóttir, skáldkona. Hlín, 31. árg. 1949
Mynd af bókarkápu er af vefnum bókin.is