SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir26. september 2018

„Þú varst fallegt ljóð“ - Skáldskapur Védísar Leifsdóttur

Þú varst ljúft hljómfall
yndislegur söngur
þú varst fallegt ljóð
sem fórst
áður en ég hafði lokið lestrinum.
(1984)

Þetta ljóð orti Védís Leifsdóttir aðeins 19 ára gömul en þá strax orðin býsna þroskað skáld. Skáldskapurinn sem eftir hana liggur er ekki mikill að vöxtum þar sem hún átti allt of skamma, en viðburðaríka, ævi. Védís byrjaði ung að yrkja en aðeins 17 ára gömul fær hún birta eftir sig grein í Tímariti Máls og menningar. Greinin ber yfirskriftina Ég + unglingaheimilið og fjallar Védís þar á einlægan hátt um upplifun sína af dvölinni á unglingaheimilinu og aðdraganda hennar. Frásögnin geymir þó nokkur ljóð sem vöktu talsverða athygli á ungskáldinu:

Þótt það sé snjór og slabb
þá er vor
þótt það sé frost og kuldi
þá er vor
þó að heimurinn sé stór og vondur
þá er vor
þó að fólk sé samanbitið og kuldalegt
þá er vor
þó að ástin sé lygi frá upphafi til enda
þá er vor
vorið er í tánum á mér, fingrunum, heilanum, líkamanum
ég er uppblásin af vori
hamingjusemi, hlýju og ást
af vori
tíma blekkingarinnar.
Draumaþvæla
er veturinn ekki kuldinn, illvonskan og þunglyndið
en vorið staðreynd sem úrsérgengið mannfólkið
hrækir bömmerum sínum á
í ímynduðum blómavalsi

Andaðu að þér ilmi lífsins
hann er úldinn og geltur
andaðu að þér ilmi blekkingarinnar
ilmi draumanna, vonarinnar, þrárinnar
andaðu að þér ímyndunarveikinni
láttu þig dreyma
lifðu þig inní draumana
trúðu á þá
láttu þá rætast
raunveruleikinn er drulla og bömmer
þú ert á bömmer
ég er á bömmer
en litla blómið sem ég varðveiti
er að springa út
teygir krónuna út úr líkama mínum
brosir og býður góðan daginn.

Védís lést úr alnæmi árið 1993, aðeins 27 ára gömul. Sama ár kom út ljóðabókin Tímaspor sem geymir úrval ljóða hennar frá 1981 og fram til ársins 1992. Kristrún Gunnarsdóttir valdi ljóðin og myndskreytti bókina. Sum ljóðanna draga upp heldur dökkar myndir af öldurhúsalífi borgarinnar:

Sukkuð andlit
skemmdar sálir
tómir hausar
gölluð hjörtu
liðið á Keisaranum
útúrdópað
með útrunninn skiptimiða
í síþurrum kverkunum
til að afvatna sig í næsta samviskukvalarkasti

Ekkert ljóða Védísar fjallar beinlínis um reynslu hennar af alnæmi en allt frá upphafi var dauðinn henni býsna hugstæður:

Í hvítri líkkistu kúri ég
með stóra rauða slaufu
er kastað af stað
um alheiminn flýg ég
nálgast stjörnurnar á ofsa hraða.
(1983)

Þrátt fyrir erfið veikindin var vonin þó aldrei langt undan:

Skrönglandi milli rúms og spítala
með ótta í huga
en von í hjarta.
(1992)

Frekari upplýsingar um Védísi Leifsdóttur má finna í Skáldatalinu.

Myndirnar eru úr fórum Daggar Árnadóttur og Elísabetar Jökulsdóttur.