SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir12. október 2018

Dagsverk eftir Nínu Tryggvadóttur

Nína Tryggvadóttir (1913-1968) hefur nú ratað í Skáldatalið. Nína er ein þekktasta listakona Íslendinga á síðastliðinni öld en hún er minna þekkt fyrir bækur sínar. Ásamt því að myndskreyta fjölda bóka orti hún ljóð og skrifaði barnabækur sem hún myndskreytti jafnan sjálf. Eftirfarandi ljóð heitir Dagsverk og birtist í ljóðabókinni Fimm ljóð sem kom út árið 1982. Eiginmaður Nínu, Al Copley, segir frá því í formála að bókinni að dóttir þeirra, Una Dora, hafi fundið handrit innan um teikningar Nínu á heimili þeirra í New York. Handritið hafði að geyma fimm ljóð ásamt svarthvítum dúkristumyndskreytingum, trúlega frá árunum 1948 eða 1949. Al Copley sýndi Haraldi J. Hamar handritið sem ákvað strax að gefa það út.

Dagsverk

Ég hef verið í Hafnarfirði

á sumardegi,

hraunið ilmaði

af þurrum fiski.

Ég sá fuglana spegla sig

í silkibláum sjónum,

menn og konur

með krosslagða fætur

í strætisvagni -

- Er þetta allt?

Til hvers? -

Ég tók niður liti

- rautt, gult og blátt -

og kallaði það dagsverk.

Myndin er fengin af síðu Listasafns Íslands.