SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir14. október 2018

Ferðaljóð eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur

Ljóð dagsins er eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur og birtist það í ljóðabókinni Á leið til Timbúktú: ferðaljóð sem kom út árið 1996. Frekari upplýsingar um Jóhönnu má nálgast í Skáldatalinu.

LÍBANON

Kalysnikov kynslóðin

ég hitti Jacques á kaffihúsi

sætur strákur liðlega tvítugur

„Við krakkarnir söfnuðum

líkamsleifum og

röðuðum þeim saman

stundum urðu þetta ágætis lík

við fengum nokkrar lírur fyrir

og gátum keypt brauð þegar vopnahlé var gert

annað veifið

þá þyrptust allir út á götur

settust á kaffihúsin

töluðu hástöfum saman

og í mesta bróðerni

enginn orðaði stríðið

við erum svoleiðis Líbanir

við látum eins og ekkert sé.“

þetta sagði Jacques

hann var fimm ára þegar allt fór í háaloft

í þessari sælu borg

París Miðaustulanda

gullmarkaðurinn heimsfrægur

allir svo hrifnir af Líbanon

svo siðfágað með öll frönsku áhrifin

þar bjuggu menn í sátt og samlyndi

hvað sem trúarbrögðum leið

sannkallað fyrirmyndarríki

glæsilegar villur og fín hótel

og banki í öðruhverju húsi

ferðamenn í hópum að skemmta sér

útsýni til gróinna fjalla

Jacques man þetta ekki

hann man ekki annað en stríð

„Það var hvunndagurinn,

þó við færum í þykjustuleik inn á milli

við vissum að skothríð og loftárásir byrjuðu fyrr en síðar

en núna

þegar friðurinn er til frambúðar

vantar mig festu

tilgang

ég eignaðist byssu tíu ára

skaut tvo

þeir voru að nauðga systur minni

þá skipti ég máli

núna

er ekkert að gera

nema vafra um með vinum mínum

það var enginn tími fyrir skóla eins og þú skilur

ég veit ekki af hverju þetta stríð var

enginn skýrði það út fyrir mér

og ég skil heldur ekki

friðinn

eða hvernig við eigum að lifa við hann

við vinirnir erum svalir

við gætum hugsað okkur að drepa menn

raða svo bútunum saman

og endurlifa bernskuna.“

Myndin er sótt á mbl.is.