SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn14. október 2018

Ósögð saga - Steinunn Ásmundsdóttir yrkir

Saga hennar var vörðuð hörmungum og fáir vildu kannast við hana, svona eftir á að hyggja. Í upphafi var hún elskuð en linnulaus þjáningin gerði fólkið grimmt og afskiptalaust. Langvinnar ógöngur virka fráhrindandi. Ríkidæmi hennar var hulið sjónum, vandlega geymt á afviknum stað hjartans þangað sem lausungin og læknadópið náðu ekki, hungrið og víman náðu ekki, fyrirlitning og fordæming náðu ekki; börnin þrjú sem hún fékk ekki að eiga en neitaði með hinstu kröftum að gefa. Þegar hún lá köld á líkbörum hugsaði ég að þetta hefði getað farið öðruvísi. Við jörðuðum þessa ógæfusömu systur okkar saman, ég og bróðir minn og þremur vikum síðar var hann einnig allur. (Úr ljóðabókinni Áratök tímans, 2018)

 

Ása Jóhanns