Komið við á Staðastað eftir Kristínu R. Thorlacius
Kristín R. Thorlacius (1933-2018) hefur nú bæst við Skáldatalið og af því tilefni á hún ljóð dagsins. Ljóðið heitir Komið við á Staðastað en þar bjó Kristín lengst af ásamt eiginmanni sínum, sr. Rögnvaldi Finnbogasyni, og börnum.
Ljóð Kristínar birtist í ljóðabókinni Fley og fleiri árar sem Ljóðahópurinn Ísabrot gaf út árið 2002.
Komið við á Staðastað
Þá spyr
þessi kaldi dagur:
Hvers vegna ertu hér?
Hvað ertu að gera
á þessum stað
þar sem norðanvindurinn
blæs skeifum undan hestunum
og höfuðin af kúnum?
Hvaða erindi átt þú hingað?
Það er komið rof
í garðinn sem við hlóðum
tjörnin næstum horfin
og þarf að fara að mála þökin
Samt er ég komin hingað
einu sinni enn
En jökullinn gnæfir
í vestri
og Ljósufjöll í suðri
Þótt enn sé kalt
er kollan líka komin
í Gamla hólma
og krían í Kringlumýrina
og lambærnar skýla sér
undir kirkjugarðshleðslunni
Allt eins og var
Og ég veit hvers vegna
ég er hér
að ylja mér í norðannepjunni
það var oft svo gaman
hér léku krakkarnir mínir sér
og kannski bíður ástin mín
einmitt á þessum stað