SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir12. desember 2018

Barn vildi byggja eftir Arnfríði K. Jónatansdóttur

Arnfríður (Kristín) Jónatansdóttir fæddist 19. ágúst 1923 á Akureyri en ólst upp í Reykjavík frá sex ára aldri. Hún fékkst við nýjungar í ljóðagerð á sama tíma og hin svokölluðu „atómskáld“ og gaf út ljóðabókina Þröskuldur hússins er þjöl árið 1958, á hápunkti formbyltingarinnar í íslenskri ljóðagerð. Það nægði þó ekki til að hún væri talin með í hópi atómskáldanna og nafni hennar bregður aldrei fyrir í umræðu um formbyltingarskáldin. Ljóð hennar bera þó sömu einkenni og ljóð karlkyns formbyltingarskálda, svo sem lausbeislað form, samþjöppun í máli og frjálsleg og óheft tengsl myndmáls.

Arnfríður var á unglingsaldri þegar hún fór að fást við skáldskap og 22ja ára birti hún ljóðið „Barn vildi byggja“ í tímaritinu Emblu (1945). .

Frekari upplýsingar um Arnfríði má nálgast í Skáldatalinu.

Barn vildi byggja

Blóð hafði runnið,
og gráthljóð heyrðist í dögun.
Ég var barn.
Svo rann dagur með sól.
Þá glitruðu stráin og tárin.
Og ferð mín hófst.

„Vakir þú veröld?“
„Víst vaki ég,“ svaraði hún.
„Kallar þú mig til starfa með þér?“
„Ef þú ert fús á að berjast,
þá kom til mín, annars gæt þín.“

„Ó, veröld, ég á ekkert vopn, - -
því ég vildi ekki berjast.
En ég skyldi tína þér blóm af túni,
meðan þau eru döggvot
og glitra í morgunbirtunni.“
„Nei, farðu,“ sagði veröldin.

Ég gekk burt.
Þá mætti ég pípuhatti.
Hann kom á móti mér
í hlykkjum og rykkjum.
„Góðan dag,“ sagði ég.
„Hver ert þú?“ anzaði hann.
„Ég er kona, sem þú þekkir ekki.
Hvar er fólkið og börnin?“
Þá orgaði hann:
„Fífl, ég er allt“ – Það er ekkert til,
nema ég, fíflið þitt!“
Hann hófst á loft, skyggði á sólina.
Þá sá ég, að hann var padda
með stóra bitkróka, saddan kvið.

Leið mín lá yfir vegleysu.

Menn sögðu við mig:
„Heyrðir þú ekki hljóð í dögun?
Það voru börn, sem höfðu verið grætt.“
Ég hlustaði og leit í kringum mig.
Þá heyrði ég þennan grát – og
sá fólk falla í bardaganum.

Ég fór frá mönnunum
og fann túnið og blómin,
sem lyftu tárvotum kollum
móti sól.

Heim vil ég - - heim!
„Fífl“ - - - farðu heim!“

Heim - - - bað ég –
á bakvið mig kvað við ískrandi hlátur.
Pípuhatturinn var að hlæja.

Mig bar að dyrum,
það var letrað á þær „Heim“.
Skrítið hús með glugga á gafli.
„Er nokkur hér?“
„Bara við tvö, dordingull og ég,“
og rotta stakk snjáldrinu fram undan kassa,
hún sagði:
„Ég sé þú ert fífl, þú mátt vera í nótt.“
Dordingull sagði: „Já, þú ert fífl.
þú mátt vera í nótt.
Áður bjuggu hér stríðsmenn heimsveldis,
en nú spinn ég hér þræði mína,
þú mátt vera í nótt,
ef þú slítur þá ekki.“

Eftir þeginn næturgreiða
gekk ég út í nýjan morgun.

Það lék sér barn,
það vildi byggja,
sólin kyssti lítinn kollinn.
Sandurinn - - - Sandurinn rann
- - og rann gegnum greipar þess.
Það gat ekki byggt þetta hús.

„Veröld! - - Ó, veröld! - -
nú vil ég berjast,
en gefðu barninu stein í hús.“