Nauðgunarmynd í Kaþólsku ljóði eftir Halldóru B. Björnsson
Kaþólskt ljóð er eftir Halldóru B. Björnsson (1907-1968) og birtist það í fyrstu ljóðabók hennar Ljóð árið 1949:
Kaþólskt ljóð
Hvort dreymdi þig,
eða var það veruleiki,
að værirðu dálítil hrísla
í skóginum þétta,
og fannst svo undur, undur
gaman að spretta?
Og gekk ekki dökkeygur drengur
um skóginn þinn,
drengur, sem blikandi hnífi
stofninn þinn lagði?
Þetta er efni í fallega
madonnumynd hann sagði.
En var ekki kallað á drenginn
og drengurinn hljóp?
Hvort dreymir þig enn,
eða var þetta dauðasyndin,
að rót þín var slitin,
en ófullgerð madonnumyndin?
Nauðgunarmyndin
Ilmur Dögg Gísladóttir hefur túlkað ljóð Halldóru sem nauðgunarmynd. Hríslan er táknmynd kvenleikans sem fær að vaxa óáreitt þar til drengurinn kemur og stöðvar vöxt hennar, leggur hníf í stofninn og „rót þín var slitin". Drengurinn lítur ekki á hrísluna sem lifandi veru heldur efni sem hann getur mótað eftir eigin vilja og gert að fallegri madonnumynd. Þá eru augu drengsins einnig táknræn. Ilmur Dögg segir orðið „dökkur" koma víða fyrir í ljóðum Halldóru og tengist þá gjarna þunglyndi og trega. Í Kaþólsku ljóði tengist orðið myrkraverki. Augun eru sem hyldýpi sem soga til sín hrísluna og á hún sér enga undankomuleið. „Drengurinn skilur við hrísluna hvorki sem tré né mynd, heldur á mörkum þess að vera. Þetta er nauðgunarmynd, þar sem bæði augun og hnífurinn gegna því hlutverki að fanga hrísluna og eyðileggja hana."
Heimild:
Ilmur Dögg Gísladóttir. (25. júní 2005). Aldingarður og gröf í moldu. Mbl.is. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1024865/
Skáld.is þakkar Guðrúnu Hannesdóttur skáldkonu fyrir að benda á ljóð Halldóru. Slíkar ábendingar eru ávallt vel þegnar.