SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 1. maí 2019

Áfram verkakonur!

Þessi mynd, framan á tölublaði Forvitinnar rauðrar, þótti lýsa ástandinu í samfélaginu árið 1973 og því miður gerir hún það enn, tæplega hálfri öld síðar. Það er því full þörf á að mæta í kröfugönguna í dag og styðja við baráttu verkakvenna!

Rauðsokkahreyfingin gaf út blaðið Forvitin rauð í einn áratug, árin 1972-1982. Blaðið varð til í kjölfar samnefnds útvarpsþáttar sem hreyfingin stóð fyrir. Áður höfðu Rauðsokkur látið að sér kveða í 1. maí göngunni árið 1970 en þá gengu þær fylktu liði niður Laugaveginn og báru á milli sín risastóra styttu af Lýsiströtu með borða strengdan yfir sig sem á stóð: ,,Manneskja - ekki markaðsvara." Og enn er full þörf á að halda því slagorði á lofti!

Einn helsti frumkvöðull Rauðsokkahreyfingarinnar var skáldkonan Vilborg Dagbjartsdóttir. Það fer vel á því að enda þessa brýningu á ljóði hennar um útivinnandi húsmóðurina sem sinnir öllu en fær aðeins bágt fyrir. Ljóðið birtist í Tímariti Máls og menningar árið

1995 en hætt er við að enn mæði býsna margt á mörgum konum í þjóðfélagi nútímans og þá ekki síst verkakonum!

 

 

 

Morgunsöngur útivinnandi húsmóður

(Gömul tugga)

Klukkan fimm:

Hann þarf að vera kominn út á flugvöll fyrir sex

réttir honum skyrtu

réttir honum sokka

réttir honum

réttir

viltu ekki húfu það getur verið kalt í Stokkhólmi

viltu ekki hanska stundum getur verið hráslagalegt í Kaupmannahöfn

viltu ekki fara í frakkann

viltu ekki

viltu

gleymdu ekki skilríkjum

gleymdu ekki handtöskunni

gleymdu ekki

gleymdu

 

Klukkan sjö:

Strákurinn þarf að vakna

taktu lýsið

borðaðu grautinn þinn

greiddu á þér lubbann

láttu ofan í töskuna

vertu nú ekki of seinn í skólann

vertu nú ekki

vertu nú

vertu

 

Klukkan átta:

Þá er að koma barninu í leikskólann

eina skeið svo barnið verði stórt

eina skeið fyrir ömmu sína

eina skeið fyrir mömmu

eina skeið

eina

 

Klukkan níu:

Hún á sjálf að vera komin í vinnuna

missir af strætó

missir af

missir

Verslunarstjórinn hneykslaður:

Þetta kvenfólk

það hefur ekkert tímaskyn

það hefur ekkert

EKKERT