SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn13. júní 2019

Ljóð dagsins

Ljóð dagsins er prósaljóð eftir Berglindi Gunnarsdóttur og er úr ljóðbók hennar Ekki einhöm sem kom út 2013

JOAN BAEZ

Eitt sumar vann ég sem næturvörður á Nýja Garði. Í herbergi vaktmannsins var geymt safn af hljómplötum og grammófónn. Þar á meðal var plata með Joan Baez sem ég hlustaði mikið á, einkum lagið All in green went my love riding.

Þegar allt hafði hljóðnað á hótelinu á þessum sumarnóttum þegar ég sat uppi ein og vakti, söng Baez fyrir mig þetta kvæði eftir e.e.cummings.

Ég hlustaði á hægan slátt lagsins sem stangaðist sérkennilega á við fleygiferð veiðimannsins og mjóhundana æðandi í slóð dádýrsins. Silfurstef píanósins undirstrikaði feigðina, hið grimma gjallarhorn, síðan dökk áferð knéfiðlunnar. Á tímanum eftir klukkan fjögur féll allt í dauðadá og það var eins og veröldin væri ekki til.

Áður en fuglarnir fóru að vakna aftur til lífsins og morgunsins. Ég hef stundum hugsað um þetta lag og reynt að finna plötuna en ekki tekist það.