Hættulegir heilar
Um leið og við óskum öllum konum til hamingju með kvenréttindadaginn birtum við hér samantekt á ljóðum nokkurra íslenskra skáldkvenna sem hæfa tilefninu.
Eitt karlmannsrif er ekki gott stöff í heila konu.
Eftir að Guð skapaði konuna beint
varð hún betri.
Síðan er ekkert fall til
bara sakleysi
þrátt fyrir hættulegan heilann.
Þannig yrkir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, rithöfundur, skáld og sagnfræðingur, sem nýverið hlaut Riddarrakross hinnar íslensku Fálkaorðu.
Ljóð hennar, „Betra stöff,“ kallast skemmtilega á við ljóð skáldkonunnar Ágústínu Jónsdóttur:
Adam var ekki lengi
í Paradís
en
nógu lengi til að
láta freistast.
Konan, freistingin og syndafallið – þetta hefur lengi verið samofið í ljóðum karla en við tökum undir með Þórunni, „Eitt karlmannsrif er ekki gott stöff í heila konu“.
Hér á eftir verða skoðuð nokkur ljóð sprottin úr hættulegum heilum íslenskra kvenna, ort á ólíkum tímum. Ljóðin gefa okkur innsýn inn í þau málefni sem brunnu á konum áður fyrr og brenna enn á konum í dag. Ort er um hlutskipti kvenna, togstreituna á milli skyldu og sköpunarþrár og um kvennasamstöðu og fórnir sem þarf að færa í hversdagslífinu. En margar hindranir eru á veginum eins og við heyrum af vísum Theodoru Thoroddsen:
Mitt var starfið hér í heim
heita og kalda daga
að skeina krakka og kemba þeim
og keppast við að staga.
Ég þráði að leika lausu við
sem lamb um grænan haga
en þeim eru ekki gefin grið,
sem götin eiga að staga.
Langaði mig að lesa blóm
um langa og bjarta daga,
en þörfin kvað með þrumuróm:
„Þér er nær að staga.“
Heimurinn átti harðan dóm
að hengja á mína snaga,
hvað ég væri kostatóm
og kjörin til að staga.
Komi hel með kutann sinn
og korti mína daga,
ég held það verði hlutur minn
í helvíti að staga.
Theodora talaði af reynslu, eignaðist 13 börn með honum Skúla sínum. Theodora var þó heppin, því hún hafði aðra konu á heimilinu til að hjálpa sér með barnaskarann, vinkona hennar, Guðbjörg Jafetsdóttir, bjó á heimilinu í áratugi og aðstoðaði við heimilisverk og barnauppeldi. Þess má geta að Sigurður Nordal kallaði þessar vísur Theodoru „óþolinmæðisorð“ og taldi fráleitt að hún væri að yrkja um eigin reynslu, vísurnar væru áreiðanlega ortar í orðastað annarra kvenna. Sjálf skrifaði Theodora í grein sem hún birti í Skírni árið 1913: „Því er svo varið með skáldagáfuna sem flest annað andlegt atgervi, að vér konur erum þar að jafnaði eftirbátar karlmannanna. Skal hér ósagt látið, hvort heldur það stafar að því, að heilinn í okkur sé léttari á voginni heldur en þeirra, eins og sumir staðhæfa, eða það á rót sína í margra alda andlegri og líkamlegri kúgun.“
Heimilisverkin eru konum drjúgt yrkisefni en Þórdís Richardsdóttir snýr skemmilega upp á þema, um leið og hún snýr upp á þekkta sögu í ljóði sínu „Ævintýramórall“.
Fyrir handan fjöllin sjö
búa dvergarnir sjö
bíða þín Mjallhvít
með sjö gráðuga munna
sjöfaldar kvartanir
ný gólf til að skúra
Er ekki betra
að láta skera úr sér hjartað
en grafa sig lifandi
bíðandi
eftir einhverjum kóngsyni
sem hefur líf þitt
í hendi sér uppfrá því
lifa hamingjusöm uppfrá því
í glerkistu
sofandi
svefni vanans
Reyndu heldur
reyndu heldur
reyndu heldur við
veiðimanninn
Örlög Mjallhvítar, Öskubusku, Þyrnirósar og Rauðhettu hafa verið íslenskum kvenskáldum hugleikin, en einnig má snúa út úr íslenskri sagnahefð. Það gerir Vilborg Dagbjartsdóttir gerir í ljóði sínu „Skassið á háskastund“:
Löðrungar og köpuryrði
allt er gleymt
ó kæri
hérna er fléttan
snúðu þér bogastreng
ég skal brýna búrhnífinn
og berjast líka
bæinn minn skulu þeir
aldrei brenna
bölvaðir
Eftir Vilborgu er líka ljóð sem lýsir morgunsöngur útivinnandi húsmóður:
Klukkan fimm:
Hann þar að vera kominn út á flugvöll fyrir sex
réttir honum skyrtu
réttir honum sokka
réttir honum
réttir
viltu ekki húfu það getur verið kalt í Stokkhólmi
viltu ekki hanska stundum getur verið hráslagalegt í Kaupmannahöfn
viltu ekki fara í frakkan
viltu ekki
viltu
gleymdu ekki skilríkum
gleymdu ekki handtöskunni
gleymdu ekki
gleymdu
Klukkan sjö:
Strákurinn þarf að vakna
taktu lýsið
borðaðu grautinn þinn
greiddu á þér lubbann
láttu ofan í töskuna
vertu nú ekki of seinn í skólann
vertu nú ekki
vertu nú
vertu
Klukkan átta:
Þá er að koma barninu í leikskólann
eina skeið svo barnið verði stórt
eina skeið fyrir ömmu sína
eina skeið fyrir mömmu
eina skeið
eina
Klukkan níu:
Hún á sjálf að vera komin í vinnuna
missir af strætó
missir af
missir
Verslunarstjórinn hneykslaður:
Þetta kvenfólk
það hefur ekkert tímaskyn
það hefur ekkert
EKKERT
Konur hafa ekkert tímaskyn, ályktar verslunarstjórinn hneykslaður og öðrum körlum finnast konur ekki eiga erindi inn á fundi þar sem þeir ráða ráðum sínum – og okkar... Um það yrkir Ólína Þorvarðardóttir í ljóðinu „Fóbía“.
Fullveðja kona
knýr á dyrnar
fýsir inngöngu
til fundar við menn.
Um lokaða gátt
berst lávær kliður.
Fastar hún knýr
en fær ekkert svar.
Karlarnir vilja konur kannski ekki inn á sína fundi, en hvað gerist að fundi loknum?
Kona
Þegar allt hefur verið sagt
þegar vandamál heimsins eru
vegin metin og útkljáð
þegar augu hafa mæst
og hendur verið þrýstar
í alvöru augnabliksins
- kemur alltaf einhver kona
að taka af borðinu
sópa gólfið og opna gluggana
til að hleypa vindlareyknum út.
Það bregst ekki.
Konur fá að þrífa að loknum fundi, eins og Ingibjörg Haraldsdóttir yrkir um í þessu ljóði sem ber einfaldlega titilinn „Kona“. Og Ingibjörg yrkir líka um móðurhlutverkið og þá togstreitu sem af því getur skapast, í ljóðinu „Barn á brjósti“.
Ég dái konur
sem halda vígreifar
útá hála brautina
horfa fram
í tíðina
– aldrei um öxl
og þola ekki seinagang
samtíðarinnar
Þannig hugsa ég
og Rósa Lúxembúrg
starir á mig af veggnum
þrjósk stolt og vitur
meðan dóttir mín drekkur
hugsanir mínar
með móðurmjólkinni
Í þessu ljóði dáist Ingibjörg Haraldsdóttir að baráttukonum og minnist pólsku uppreisnarkonunnar Rósu Lúxembúrg sem þurfti að gjalda fyrir baráttu sína með lífinu. Baráttan fyrir réttindum kvenna hefur vissulega kostað líf og enn er konur að færa slíkar fórnir, í löndum okkur fjær. Konur í lýðræðissamfélögum Vesturlanda þurfa sem betur fer ekki að fórna lífi sínu og limum fyrir réttindabaráttu.
Fórnir í þágu barna og heimilisins þekkja flestar konur og um það yrkir ungt ljóðskáld, Kristín Svava Tómasdóttir, sem yrkir til mömmu sinnar, ljóðið heitir „Mamma guð“.
fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel
og ég ráfa yfir Tjarnarbrúna með rauðvínsflösku í annarri
og sjálfseyðingarhvötina í augunum
móðurástin lætur skína í tennurnar á hælunum á mér
þú fórnaðir sjálfstæði þínu fyrir okkur
nú fórnum við þér fyrir sjálfstæði okkar
þú kemur alltaf út í mínus
nema í vögguljóðum manna sem aldrei þurftu að fórna sér
sem aldrei brostu í gegnum blóðugan kjaftinn eftir að hafa
fengið einn barbíbíl á‘ann
jólasveinninn ekki til og þú ekki almáttug og sjokkið maður
sjokkið að sjá þig gráta eftir heilan dag af öskrum og yfirgangi
skælandi eins og niðurbrotinn brúðusmiður með sverð eigin
sköpunarverks á milli rifjanna
við krossfestum þig sem kjaftæðið sjálft
takk fyrir komuna en nú erum við kúl
örlög þín martröð okkar óumflýjanlegu endalok og við
berjum höfðinu í vegginn
fast
kallaðu á mig mamma afneitaði guð
þegar þú finnur líkamsdauðann nálgast
og ég skal setja í þvottavél þér til heiðurs
drifhvít lök
og einn rauðan sokk
„Við krossfestum þig sem kjaftæðið sjálft“ yrkir unga konan til móður sinnar og kannski þurfa allar konur að afneita móður sinni á leið til sjálfstæðis.
Endum þessa stuttu samantekt á ljóði eftir Sigríði Einars frá Munaðarnesi, sem fædd var árið 1893. Ljóð hennar sem heitir „Við þjóðveginn“ dregur upp mynd af samtakamætti kvenna og hverju sívaxandi þungi kvennabaráttunnar fær áorkað:
Um þjóðveginn
fóru fáeinar konur
sem veltu úr grýttum
vegi steinum.
Um þjóðveginn
fóru fleiri konur,
sem fundu gimsteina
grafna í sandinn.
Og fjöldi kvenna
fór um veginn,
þá fleygðu ambáttir
fjötrum og tötrum.
Þúsundir kvenna
um þjóðveginn fóru,
sem lögðu hornsteina
að háum sölum.
Þær lögðu hornsteina
að hælum, skólum,
ruddu brautir
og björgum lyftu.
Nú mynda fylkingu
milljónir kvenna
um alla þjóðvegi
allra landa
í baráttu fyrir
frelsi, réttlæti,
friði og samúð
í fegurri heimi.