SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir21. júní 2019

Snjallt skáld sem ekki naut hæfileika sinna

Signý Hjálmarsdóttir var fædd 1920 og lést aðeins 36 ára. Ljóðum sem hún orti í hjáverkum var safnað saman eftir hennar dag og gefin út í bók sem nefnd er Geislabrot. Eftirfarandi ljóð hefði sómt sér vel í Skólaljóðunum á sínum tíma sem allir nemendur landsins lásu um árabil. Aðeins þrjár konur áttu kvæði í þeirri kennslubók.

Skólaljóð

Óvissa

Framtíð, þú líkist mest óskrifaðri örk,

ert ævinnar ráðgáta hins spurula huga.

Hvar eru vor örlög og endimörk,

vor átök, - og hver er þar fær um að duga.

Í gær var lífið svo fagurt, himinninn heiður og blár,

mig heilluðu tónar frá vonanna sólvermdu höllum,

sem eimaði af bernskunnar vori, og þaulsæknar þrár,

þyrluðu um hug minn, eg greindi ekki skil á þeim öllum.

Í kvöld stend eg alein og þögul við dimmunnar dyr,

Minn draumur er hljóður, og vonirnar þegja nú allar.

Eg stari á hið óræða, hugurinn spáir og spyr,

spurn minni er svarað með þögninni, og óvissan kallar.

(Signý Hjálmarsdóttir, Geislabrot 1957, bls. 19)