SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn25. júlí 2019

Kynlíf og dauði II - Kristín Eiríksdóttir

Kynlíf og dauði II - Kristín Eiríksdóttir

komdu

í gegnum mig

gegnum dýnuna

undir okkur

gólfið

komdu

í gegnum gólfið

gegnum loftið

gegnum hæðina

fyrir neðan

gegnum gólfið

og loftið

gegnum kjallarann

gegnum gólfið

gegnum jarðlögin

jarðlag eftir jarðlag

gegnum moldina

gegnum grjótið

gröfnu líkin

og komdu aftur

uppum jarðlögin

grjótið

moldina

gröfnu líkin

gólfin

hæðirnar

loftin

dýnuna

og þú kemur

í gegnum mig

aftanfrá

plastformin glennt

til austurs og vesturs

þrái marbletti ör þrái

og þá er þó ekkert til einskis

kona

hræki og veit

vil þungan málm þjáist

bráðna saman við steinsteypu

steingráa gluggalausa hlið

Austurbæjarskóla Iðnskóla

verkfræðivit framhaldslíf

vil sólgula rót undir svörtu hári

sem feykist festist og klístrast

líkgrænan háls magran

og langan leðurfrakka sem flaksast í roki

raða litlum borðum um hægindastóla

um mjúkt hold vafið um ekkert

öll röðum við litlum borðum um hægindastóla

ekkert

komdu á mig annars sker ég þennan háls í sundur

hann er ungur þessi háls komdu annars sker ég

það verður þér að kenna ég sker

komdu annars sker ég og sker gat

í andrúmsloftið opna rifu í loftið

hann sker allt þessi hnífur

förum gegnum rifuna komdu með mér gegnum gatið

komdu í gatið

mótmæli:

mótmæla borðum og stólum

mótmæla grátandi

stinga hönd í slím

tala afturábak á innsogi

mótmæla tei teppum ilmböðum

hata spúa eitri inní springa mótmæla

ekkert í þessum heimi

sæki lítið kjötstykki í glerborð

ber það heim

og steiki og treð

öll troðum við

ekkert þurfum við en troðum og býsnumst

þráum og viljum

Kristín Eiríksdóttir

Annarskonar sæla, Forlagið, 2008