-sen og -son
Ljóð dagsins er -sen og -son eftir Ólöfu frá Hlöðum (1857-1933) og er skáldkonan sú auðvitað í Skáldatalinu. Ólöf var mikil kvenréttindakona og batt bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn sínir. Til marks um það vakti búskapur hennar og eiginmannsins nokkra athygli því þau skiptu húsi sínu í tvennt, hafði hvort sína stofu og svefnherbergi. og sömuleiðis höfðu þau aðskilinn fjárhag. Þá klippti hún hár sitt stutt löngu áður en það komst í tísku hér á landi.
-sen og -son
Ef konurnar hjúskapar komast í stöðu,
þær kynlega breytast og skipta um föður,
þær breytast svo þvert og svo beint móti vonum,
að bónda síns föður þær verða að sonum.
Þær sérrétti kasta og sjálfstæði fleygja,
þær sjálfum sér týna og ætt sinni deyja.
Ef virðinga dingluðu krossar á konum,
þá kannske menn yrðu að dætrum úr sonum!