„Langt í burt ég líða vil“
Ljóð dagsins er Ljáðu mér vængi eftir skáldkonuna Huldu. Ljóðið lýsir þrá ljóðmælandans um að líða í burt, fljúga líkt og gæsin til blómlegrar eyjar, og má ætla að margur deili þessari löngun eftir langa inniveru í einangrun og sóttkví:
Ljáðu mér vængi
„Grágæsa móðir!
ljáðu mér vængi“,
svo ég geti svifið
suður yfir höf.
Bliknuð hallast blóm í gröf,
byrgja ljósið skugga tröf;
ein ég hlýt að eiga töf
eftir á köldum ströndum,
ein ég stend á auðum sumarströndum.
Langt í burt ég líða vil,
ljá mér samfylgd þína!
Enga vængi á ég til
utan löngun mína,
utan þrá og æskulöngun mína.
Lof mér við þitt létta fley
lítið far að binda;
brimhvít höf ég óttast ei
eða stóra vinda.
Okkar bíður blómleg ey
bak við sund og tinda,
bak við sæ og silfurhvíta tinda.
Eftir mér hún ekki beið, –
yst við drangann háa
sá ég hvar hún leið og leið
langt í geiminn bláa,
langt í geiminn vegalausa, bláa.