SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir11. apríl 2018

Ör tilnefnd til ítalskra verðlauna

Skáldsagan Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur hefur hlotið tilnefningu til ítölsku verðlaunanna Premio Strega. Verðlaunin eru virtustu bókmenntaverðlaun Ítala. Þau hafa verið veitt allt frá árinu 1947; lengst af voru þau einungis veitt ítölskum skáldsagnahöfundum en fyrir fáeinum árum var farið að veita þau einnig fyrir þýdd skáldverk. Ör hefur hlotið mjög góðar viðtökur hjá ítölskum lesendum allt frá því að hún kom út í ítalskri þýðingu Stefano Rosatti í janúar síðastliðnum en þar nefnist sagan Hotel Silence.

Auk Auðar Övu eru tilnefnd fjögur önnur verk í flokki þýddra skáldsagna; Patria eftir spænska höfundinn Fernando Aramburu, La Disparition de Josef Mengel eftir franska höfundinn Olivier Guez, The Glorious Heresies eftir írska höfundinn Lisa McInerney og Si scioglie eftir belgíska höfundinn Lize Spit.

Premio Strega verðlaunin verða veitt í Tórínó næstkomandi 13. maí.

Auk þessarar viðurkenningar hefur Ör hlotið mikið lof bæði í Frakklandi og á Englandi en Independent valdi hana sem eina af tíu bestu bókunum árið 2018.