SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir29. mars 2022

Enn bætist við Skáldatalið

 
Borgfirðingurinn Guðrún Brynjúlfsdóttir (1904-2006) hefur nú bæst við Skáldatalið. Hún var mikill ljóðaunnandi, orti ljóð og skrifaði sögur þó að það hafi ekki farið hátt. Þá lék hún á gítar og hafði yndi af að syngja. Árið 1981 sendi Guðrún frá sér sitt eina prentaða verk, ljóðabókina Ýlustrá. og kostaði útgáfuna með tryggingabótum sem hún fékk eftir umferðarslys.
 

Guðrún giftist ekki og eignaðist ekki afkomendur en hélt alltaf góðu sambandi við fósturbörnin sín. Eitt þessara fósturbarna, Guðrún Jónsdóttir, sendi Skáld.is upplýsingar um skáldkonuna, nöfnu sína, og kunnum við henni bestu þakkir fyrir en þess má geta að hún myndskreytti bókarkápuna.

 
 

Ýlustrá geymir m.a. þessa skemmtilegu vísu:

 
Ósk
 

Ég vil, að allt lifandi lifi

og líði sem allra best,

að dauðinn sjálfur deyi,

eða dofni sem allra mest.