SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn26. apríl 2018

Vel heppnað málþing

Málþingið sem haldið var til heiðurs Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur sextugri, síðastliðinn sunnudag í Gunnarshúsi, tókst í alla staði mjög vel.

Í upphafi málþingsins flutti leikhópurinn Ra Ta Tam atriði úr verkinu Ahhh – Ástin er að halda jafnvægi. Nei fokk. Ástin er að detta, sem byggt er á textum eftir Elísabetu. Verkinu er lýst sem ljóðrænum, fyndnum og kynþokkafullum kabarett um vegi og vegleysur ástarinnar. Leikstjóri verksins er Charlotte Bøving. Hönnuður leikmyndr og búninga er Þórunn María Jónsdóttir og tónlist er samin og flutt af RaTaTam en tónlistarstjórn er í höndum Helga Svavars Helgasonar, Arnar Ingvarsson sá um ljósahönnun, Hildur Magnúsdóttir um hreyfingar og tæknileg aðstoð er í höndum Stefáns Ingvars Vigfússonar. Leikarar eru þau Albert Halldórsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Halldóra Rut Baldursdóttir, Laufey Elíasdóttir. Síðasta sýning á þessu rómaða leikverki er í Tjarnarbíó annað kvöld (föstudaginn, 26. apríl).

Í kjölfar leikatriðsins flutti Hólmfríður M. Bjarnardóttir, bókmenntafræðingur, skemmtilegt erindi um leikverkið og fjallaði bæði um texta Elísabetar og sýninguna sjálfa og dró fram helstu þemu í skrifum Elísabetar.

Á eftir þessu fyrsta erindi steig skáldkonan sjálf á stokk og flutti ljóð úr bókinni Næturvörðurinn (2016) við undirleik Borgars Magnasonar, kontrabassaleikara. Elísabet magnaði upp mikinn seið með síendurteknum ljóðlínum og orðum í stað þess að halda sig við prentað form ljóðanna.

Þá var komið að Hrund Ólafsdóttur, bókmenntafræðingi og leikskáldi, en hún beindi sjónum að skáldsögunni Laufeyju (1999) og nefndist erindi hennar: „Ekkert pláss fyrir ást“. Endurtekið stef í erindi Hrundar var setningin: „Þar sem illskan fær skjól er ekki pláss fyrir ást" og fjallaði hún um þær hörmulegu afleiðingar sem vanræksla og illska í uppeldi barna getur haft.

Eftir erindi Hrundar var tekið kaffihlé og fóru flestir gestir út í garð með kaffi og konfekt og nutu dásamlegs veðurs og spjölluðu saman.

Eftir kaffihléð voru tvö erindi á dagskrá. Fyrstar voru þær Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í bókmenntum, og Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi, sem fluttu erindi um ljóðabókina Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett (2014). Fjölluðu þær um samspil ástaræðis og ærsla í bók Elísabetar og tengdu við heimsbókmenntasöguna. Þá tengdu þær einnig við hinar ögrandi teikningar bókarinnar af píkum.

Síðust á dagskránni var Soffía Auður Birgisdóttir, fræðimaður, sem heimsótti nokkrar vistarverur í skáldskaparheimi Elísabetar og bendi á hvernig þrenningin tilfinningar-hugsanir-líkami er samanslungin í öllum hennar verkum. Þá sagði Soffía Auður Elísabetu vera frumkvöðul í því að fjalla á heiðarlegan og opinskáan hátt um kvenlíkamann í íslenskum bókmenntum.

Í lokin stigu Elísabet og Borgar aftur á svið og var það frábær endir á skemmtilegum viðburði.

Jórunn Sigurðardóttir, dagskrárgerðarmaður á rás 1 var á málþinginu með upptökutæki svo von er á einhverri umfjöllun og kannski brotum úr fyrirlestrunum í útvarpinu innan skamms.