SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir13. apríl 2022

Vitjanir á páskum

Á páskadag hefst sýning á sjónvarpsþáttaröðinni Vitjanir á Rúv en að henni standa einungis konur. Handritið skrifa Kolbrún Anna Björnsdóttir og Valgerður Þórsdóttir, sem sömuleiðis fara með hlutverk í þáttunum, ásamt Evu Sigurðardóttir sem sér jafnframt um leikstjórn.
 
Þættirnir eru að hluta til hugsaðir til að auka fjölbreytileika kvenkynspersóna í sjónvarpi, segja þær stöllur meðal annars í skemmtilegu viðtali í Lestinni en efni þáttanna er á þessa leið:
 
Þegar bráðalæknirinn Kristín (46) kemst að framhjáhaldi Helga (48), eiginmanns síns, flytur hún í snarhasti, ásamt dóttur sinni, Lilju (15), á æskuslóðir sínar í Hólmafirði. Foreldrar Kristínar skjóta skjólshúsi yfir mæðgurnar en sambúðin við móður Kristínar, miðilinn Jóhönnu (66) neyðir hana til að horfast í augu við drauga fortíðarinnar. Á meðan Helgi reynir að koma í veg fyrir skilnaðinn þarf Kristín á öllu sínu að halda til að leysa úr óþægilegum fortíðarflækjum með æskuástinni og lögreglumanni staðarins, Ragnari (47). Kristín tekur við stöðu eina læknis litlu heilsugæslunnar í Hólmafirði og hún kemst fljótt að því að rökföst lífssýn hennar stangast illilega á við grasalækningar, spíritisma, hindurvitni og hjátrú í þorpinu. Kristín er komin langt út fyrir þægindarammann. Þótt Kristín hafi aðeins ætlað sér að stoppa stutt við í Hólmafirði, gæti verið að hún þarfnist þorpsins jafn mikið og þorpið þarfnast hennar.