SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 9. maí 2022

Bíbí í Berlín

Út er komin sjálfsævisagan Bíbí í Berlín en Guðrún Valgerður Stefánsdóttir, prófessor í fötlunarfræðum, bjó bókina til útgáfu og skrifaði formála. Sagan er merkileg fyrir þær sakir að höfundur hennar, Bjargey Kristjánsdóttir (1927 – 1999), var með fötlun og sögð vera „fáviti” af fjölskyldu sinni og sveitungum. Bjargey veiktist barnung og hætti að fylgja öðrum börnum. Fordómarnir í samfélaginu háðu henni þó meira en fötlun hennar; til dæmis faldi faðir hennar hana jafnan þegar gesti bar að garði.
 
Bjargey ólst upp á kotbænum Berlín, skammt frá Hofsósi. Hún fékk ekki að ganga í skóla en lærði að lesa og skrifa. Þegar móðir hennar dó var hún flutt á elliheimilið á Blönduósi aðeins þrítug að aldri. Þar bjó hún í 17 ár en eftir það flutti hún í þorpið og bjó þar til æviloka með hjálp vina.