SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir16. ágúst 2022

Sumarbækur

Þó svo að vefurinn hafi farið í kærkomið sumarfrí þá héldu bækur áfram að koma út. Áður hefur verið nefnd bók sem þótti sæta nokkrum tíðindum; skáldsagan Hvað er Drottinn að drolla? eftir Auði Haralds, en það eru 15 ár frá því síðasta verk hennar kom út.
 
Hér verða nefndar fáeinar aðrar bækur sem komu út í sumar:
 
Rebekka Sif Stefánsdóttir sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu en fyrir tveimur árum kom út eftir hana ljóðabókin Jarðvegur. Skáldsagan Flot er kynnt á þennan veg:
 
Flotið mun gera mig hamingjusama. Leysa vandamál mín, þurrka út minningarnar, strauja allar misfellur lífsins.
Þegar Fjóla byrjar að stunda flot að ráði sálfræðings á hún ekki von á því að enda sem starfsmaður hjá Reykjavík Float. Flotið verður miðpunkturinn í lífi hennar, rétt áður en það byrjar hægt og rólega að liðast í sundur. Vandamálin byrja að fljóta upp úr djúpinu og raunveruleikaskynjunin fer úr skorðum.
Hvernig getur Fjóla haldið sér á floti þegar hún þarf að horfast í augu við fortíðina?
 
 
María Elísabet Bragadóttir sendi frá sér smásagnasafnið Sápufuglinn sem er hennar annað verk. Um bókina segir:
 
Sápufuglinn hefur að geyma þrjár sögur um losta og valdadýnamík í samböndum, flókna kynverund og arfgengan hæfileika til að ferðast um í tíma.
 
María Elísabet Bragadóttir sló eftirminnilega í gegn með sinni fyrstu bók Herbergi í öðrum heimi. Sápufuglinn kemur róti á huga lesanda með djúpu innsæi höfundar, óbeisluðu hugmyndaflugi og beittum húmor.
„María Elísabet Bragadóttir er með geislasverð. Ég elska Sápufuglinn.“ -Kristín Eiríksdóttir, rithöfundur

Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir sendi frá sér sjálfstætt framhald sögunnar Aldrei nema kona sem kom út árið 2020. Aldrei nema vinnukona fær eftirfarandi kynningu:
 
Höfundurinn, Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, hefur þýtt bækur og sjónvarpsefni auk þess að gefa út söguna Aldrei nema kona. Sú bók hefur notið mikilla vinsælda, einkum fyrir glögga mynd af kjörum kvenna á 18. og 19. öld.
 
Eins og í fyrri bókinni eru öll nöfn, tímasetningar og stærri viðburðir sannleikanum samkvæmir og stuðst við bréf og opinber skjalagögn auk ýmissa rita og vefsíðna sem fjalla um þennan tíma.
 
Í þessari bók fer fram tvennum sögum, af ferðinni frá Íslandi til Ameríku og minningarbrotum Þuríðar Guðmundsdóttur úr vistum í Skagafirði og Húnavatnssýslum.
 
Sigurlín Bjarney Gísladóttir sendi nýverið frá sér bókina Sólrún sem er hennar níunda verk. Um söguna segir í kynningartexta:
 
 ,,Ég velti því oft fyrir mér hvort laufin verði þess vör þegar þau byrja að fölna. Hvort litabreytingin komi aftan að þeim. Verða þau hissa þegar þau falla niður eða eru þau þá þegar horfin sjálfum sér?“ Sólrún ákveður að láta sig hverfa úr þjónustuíbúð fyrir aldraða og leggur af stað í ferðalag á puttanum. Förinni er heitið í Mývatnssveit en þangað telur hún sig eiga brýnt erindi. Margvíslegt fólk verður á leið hennar og sterkar minningar blandast inn í upplifun hennar, móðurþrá, ást og sekt, og svo dauðinn sem nálgast óðum.
 
Sigurlín Bjarney Gísladóttir hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín sem tilnefnd hafa verið til ýmissa verðlauna. Síðasta bók hennar, ljóðabókin Undrarýmið, hlaut frábærar undirtektir bæði gagnrýnenda og almennra lesenda.
 

Loks má nefna frásögnina Elspa – saga konu sem er skráð af Guðrúnu Frímannsdóttur og er kynnt á þennan veg:
 
Hér rekur Elspa Sigríður Salberg Olsen harmsögulega ævi sína og upprisu til nýs lífs á síðustu árum. Elspa, sem fæddist á Akureyri skömmu fyrir miðja síðustu öld, fékk bágborið veganesti út í lífið. Hún ólst upp við sára fátækt, alkóhólisma, ofbeldi og kynferðislega misnotkun og fór að mestu á mis við formlega menntun.
Margvíslegar raunir og mótlæti sem Elspa hefur mætt á lífsleiðinni, eins og að missa nokkrar dætur sínar, róstusöm hjónabönd og fátæktarbasl, hefur svo sannarlega reynt á. Erfiðustu glímuna háði hún samt við sig sjálfa, en hún sat í gæsluvarðhaldi eftir átök við fyrrverandi eiginmann auk þess að leggjast inn á geðdeild oftar en einu sinni. Styrkur Elspu og staðfesta hafa þó alltaf fleytt henni í gegnum boðaföllin.
Elspa – saga konu er skráð af Guðrúnu Frímannsdóttur félags­ráðgjafa, sem kom að málum Elspu og dætra hennar á sínum tíma með dramatískum hætti. Upp frá því þróaðist með þeim náinn vinskapur sem skilar sér nú í þessari mögnuðu frásögn þar sem Elspa gerir upp líf sitt af fádæma hreinskilni.
Sláandi saga Elspu á tvímælalaust erindi inn í nútímann og þá mikilvægu umræðu sem á sér stað um arf félagslegra aðstæðna og áfalla milli kynslóða.