SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir17. ágúst 2022

Spennandi innsýn í heim Tove Jansson

Haldin verður hátíð til heiðurs finnlandssænska rithöfundinum og myndlistarkonunni Tove Jansson í Norðurljósasal Hörpu 10. september næstkomandi. Boðið verður upp á pallborðsumræður þar sem rithöfundar og fræðimenn láta ljós sitt skína um höfundarverk Tove, auk þess sem tónlistarmenn stíga á stokk.
 
Hátíðir sem þessar hafa verið haldnar í Stokkhólmi og Helsinki en í haust er komið að Reykjavík og Turku og munu forsætisráðherrar beggja landa taka þátt í þeim.
 
Gerður Kristný skáldkona stýrir dagskrá og pallborðsumræðum ásamt bókmenntafræðingunum Ástu Kristínu Benediktsdóttur og Hauki Ingvarssyni. Boðið verður upp á áhugaverðar málstofur þar sem tilgangur lífsins, hinseginleikinn og umhverfismál verða m.a. til umræðu en á meðal gesta verða Katrín Jakobsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Hilmar Hildar Magnúsarson, Jón Yngvi Jóhannsson, Þórdís Gísladóttir, Hildur Ýr Ísberg, Ragnar Kjartansson, Ármann Jakobsson, Sigríður Guðmarsdóttir, Nanna Hlín Halldórsdóttir, Natania Jansz, Boel Westin, Andri Snær Magnason og Sophia Jansson.
 
Dagskráin stendur frá 11.00-19.00 og er hádegisverður innifalinn í miðaverði en nálgast má frekari upplýsingar hér. Það er um að gera að taka daginn frá!