Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙12. júní 2022
Auður Haralds sendir frá sér skáldsögu!
Það er þarft að gera stutt hlé á sumarfríi vefsins því nú hafa orðið tímamót í bókmenntaheiminum. Auður Haralds hefur sent frá sér skáldsögu en það eru 15 ár frá því síðasta verk hennar kom út, Litla, rauðhærða stúlkan, og enn lengra síðan hún sendi frá sér skáldsögu fyrir fullorðna en það var Ung, há, feig og ljóshærð sem kom út árið 1987, fyrir tæpri hálfri öld.
Skáldsagan sem nú kemur út og ber nafnið Hvað er Drottinn að drolla hefur þó að vísu birst lesendum áður því Auður skrifaði hana á sínum tíma fyrir netið og birtist hún í tíu hlutum á Bókavefnum Strik.is árið 2000.
Á vef Pennans er sagan kynnt með þessum hætti og er talsverður Auðar-bragur á þessari lýsingu:
Flesta rithöfunda langar að búa til tímaferðalög. Næstum allir höfundar standast freistinguna af ótta við að virðast barnalegir eða vitlausir. Ekki ég. Mér er sko alveg sama hvað fólk heldur að ég sé.
Vilji maður hrapa í gegnum veft tímans og koma út á athyglisverðum tímum, þá er fjórtánda öldin óvitlaus viðkomustaður. Árið 1346 lagði kaupskip að kajanum í Messina á Sikiley. Í kvið skipsins voru rottur og á rottunum voru flær og flærnar voru með Yersinia pestis. Nei, Yersinia pestis er ekki meinlaus rússnesk húsmóðir sem vinnur við að klakaberja sporvagnateina á vetrum. Hún er sýkillinn sem ber svarta dauða. Og fáum árum síðar voru 35-60% íbúa Evrópu látnir úr plágunni. Það er einmitt á tíma plágunnar í Englandi sem Guðbjörg, skrifstofukona í Reykjavík, lendir á óumbeðnu tímaflakki. Og þar má doka við og velta fyrir sér hverju nútímavitneskja bjargi þegar nútíminn fylgir ekki með.
Um höfundinn er ekkert nýtt að segja. Hún er með tvær hendur, tvo fætur og eitt höfuð, eins og hún hefur alltaf haft og þótti ekki fréttnæmt fram að þessu.
Auður sat fyrir framan Melabúðina í vikunni, iðin við að árita og selja bækur. Hér má hlýða á viðtal við skáldkonuna þar sem hún skýrir frá tildrögum bókar á sinn kankvísa máta.