SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir23. maí 2022

Venjulegar konur - Vændi á Íslandi

Venjulegar konur - Vændi á Íslandi

 

„Ég fékk oft að heyra: Hey, þú ert bara venjuleg.“

Eva Dís Þórðardóttir, brotaþoli vændis

 

Á morgun, 24. maí, gefur Mál og menning út bókina Venjulegar konur – Vændi á Íslandi eftir Brynhildi Björnsdóttur. Hér er á ferðinni grundvallarrit sem skoðar úr ýmsum áttum mál sem löngum hefur verið umlukið þögn – og jafnvel dulúð – en tími er kominn til að taka mun fastari tökum en gert hefur verið.

 

Vændi viðgengst á Íslandi. Það er hvorki ný staðreynd né óvænt, og raunar hefur hún farið óvenju hátt í fjölmiðlaumfjöllun undanfarin misseri. Þótt nú sé leyfilegt samkvæmt lögum að selja vændi hérlendis fylgir því mikil skömm og afleiðingarnar geta verið langvinnar og lífshættulegar.

 

Í þessari bók ræðir Brynhildur Björnsdóttir við sex íslenskar konur sem hafa verið í vændi, ósköp venjulegar konur sem bera sára reynslu sína ekki utan á sér en lýsa aðstæðum sem aldrei ættu að viðgangast. Jafnframt kannar höfundur fyrirbærið vændi í sögu og menningu, sem mótar óhjákvæmilega viðhorf almennings til þess, lítur yfir íslenska fjölmiðlaumfjöllun um vændi og lýsir hugmyndafræðilegum átökum í tengslum við lagasetningu. Þá ræðir hún við fagfólk sem vinnur með þolendum vændis, fulltrúa Stígamóta og Bjarkarhlíðar, auk lögreglunnar, og birtir ný og sláandi talnagögn um afleiðingar vændis. Loks er kastljósinu varpað á kaupendur sem bera mestu ábyrgðina með því að viðhalda eftirspurninni.

 

Bókin er rituð að frumkvæði og í samvinnu við Evu Dís Þórðardóttur, brotaþola vændis og baráttukonu. Hér má nálgast þáttinn Eigin konur þar sem Edda Falak ræðir við Brynhildi og Evu Dís um bókina.

 

Brynhildur Björnsdóttir er blaðamaður sem hefur starfað í prentmiðlum, útvarpi og sjónvarpi í tvo áratugi. Hún er meðhöfundur fræðslustuttmyndarinnar Fáðu já (2013) og leikstýrði stuttmyndunum Stattu með þér (2014) og Myndin af mér (2018), en allar þrjár myndirnar vöktu mikla athygli og eru ætlaðar til fræðslu barna og unglinga um kynlíf og kynferðisofbeldi. Hún er stofnfélagi í feminíska vefritinu Knúz og hefur verið virk á margvíslegum vígstöðvum í þágu kvenréttinda og gegn kynferðisofbeldi.