SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir18. ágúst 2022

Glæsilegur minnisvarði um konu sem fædd er í sárustu fátækt


Unnur Sólrún Bragadóttir er fædd 1951 á Vopnafirði en ólst upp á Eskifirði frá sex ára aldri. Fyrsta ljóðabók hennar, Er þetta lifandi, kom út þegar hún var tvítug, árið 1971. Unnur hóf nám í bómenntum í Svíþjóð árið 1976. Þegar því lauk flutti hún til Íslands, lauk námi í kennsluréttindum og starfaði lengst af sem kennari. Árið 2009 fór Sólrún til framhaldsnáms í Svíþjóð og hefur búið þar síðan. Hún starfaði sem móðurmálskennari í Lundi þar til hún fór á eftirlaun. Alls hafa komið út fjórtán bækur eftir Unni, ellefu á íslensku og þrjár á sænsku. Arfleifð óttans er fyrsta skáldsagan hennar.
 
Bókin hefur fengið afar góðar viðtökur og lýsir einn lesandi verkinu svo:
 
Verkið er skáldskapur sem byggir á óljósum brotum bernskuminninga höfundar frá lífi fátækrar fjölskyldu í íslensku sjávarþorpi á sjötta áratugnum. Bókin er glæsilegur minnisvarði um konu sem fædd er í sárustu fátækt eftir fyrra stríð en öðlast sjálfstæði og fjölskyldu með ótrúlegri vinnusemi, dugnaði og reisn. Þetta er vitnisburður um tilveru fjölskyldu sem berst áfram til stöðugt betri ytri aðstæðna en sem er markað af djúpum sárum fortíðar.
Aðalpersónur bókarinnar eru Hanna, yngsta barnið og móðirin. Bókin hefst á heimsókn Hönnu á bernskuslóðir 25 árum eftir að fjölskyldan flutti í annað kauptún eftir hörmulegt slys þar sem eitt barnanna lét lífið. Í þessum löngu yfirgefna hjalli við sjávarkambinn sækja minningarnar að Hönnu. Við fylgjum Hönnu sem barni eitt ár og jafnframt ferð hennar á æskuslóðir þar sem hún reynir að komast til botns í tilurð slyssins sem varð bróður hennar að bana og hefur æ síðan fylgt henni sem skuggi.
Með bættum kjörum þroskast og breytist hugsunarháttur móðurinnar og hún fer að efast um hlutskipti kynjanna sem hún hefur tekið sem sjálfsögðum hlut og gerir sér æ betur grein fyrir þeirri breytingu sem á sér stað á þessum tíma.
Persónur eru dregnar skýrum línum og frásagnarstíllinn er álíka einfaldur og aðstæður fjölskyldunnar. Bókin er ljúfsár en jafnframt skemmtileg aflestrar.