SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir13. september 2022

KANNSKI VERÐUR ALLT Í LAGI

Anna Karen Marinósdóttir er liðlega tvítug skáldkona, búsett í Neskaupstað. Í sumar sinnti hún skapandi sumarstarfi hjá Menningarstofu Fjarðabyggðar og varð afraksturinn ljóðabókin Kannski verður allt í lagi. Bókin lætur lítið yfir sér en geymir stórar tilfinningar og sterkar skoðanir sem eru fléttaðar laglega saman. Í upphafi er heldur dimmt yfir ljóðmælandanum:
 
 
Töflurnar í annarri hendi
og síminn í hinni
 
skjárinn lýsir upp andlitið mitt í myrkrinu
"Hvað þarf mörg milligrömm af oxycontin til að drepa manneskju?"
 
 
Kvíðinn er sínálægur og snýr bæði að því persónulega og pólitíska. Ljóðmælandi, sem ætla má að sé Anna Karen, óttast að enda uppi ein og misheppnuð og stillir því upp gegn loftlagsvánni:
 
Hlýnun jarðar
Hvað ef mamma mín deyr?
Loftlagsbreytingar
Ég mun ekki geta eignast börn
Flóð
Hvað ef ég verð alki?
Hækkun sjávar
Ég mun aldrei ná prófunum
Súrnun sjávar
Hvað ef allir hata mig?
Sjötta útrýmingin
Ég mun enda alein og misheppnuð
Vatnajökull mun hverfa
Hvað ef ég get þetta ekki lengur?
Aurskriður
 
ég held þú sért með krónískan áhyggjuvanda
 
Kvíðinn helst síðan í hendur við hlutskipti konunnar sem er að hafa stöðugar áhyggjur, vera dugleg og samviskusöm en aldrei með vesen. Það er ósköp lítið plássið sem ætlað er konum:
 
að fæðast kona er
að taka minna pláss
en hafa meiri væntingar
vera ekki með vesen
en líða illa
að blæða
en mæta í vinnu
að taka ábyrgðina
en fá ekki borgað fyrir það
 
 
Þrátt fyrir allar þessu erfiðu hugsanir sem leita á ljóðmælandann virðist hún ná einhvers konar sátt undir lokin. Hún hugsar til ástvina sinna, einkum litlu systur sinnar enda er framtíðin einnig hennar. Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið reynist fjallið enn á sínum stað; heimurinn er ekki hruninn, fallegur dagur rennur upp og allt er fyrirgefið.
 
Það er margt undir í ljóðum Önnu Karenar en rauði þráðurinn er tilfinningarík ádeila; persónuleg og pólitísk í senn. Það er auðvelt að finna til með ljóðmælanda og deila áhyggjunum af yfirvofandi loftlagsvá. Það birtir þó undir lok bókar þar sem horft er til þess að dvelja í deginum og njóta hans. Þessi bók er frískandi byrjendaverk, fallega myndskreytt af höfundi, og vonandi verður þess ekki langt að bíða að Anna Karen sendi frá sér annað verk.
 
Myndin af Önnu Karenu er fengin af Facebooksíðunni: Listavélin - Fjarðabyggð