SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir15. mars 2022

„Konur voru og eru hluti af bókmenntasögu þjóðarinnar“

Gréta Sigríður Einarsdóttir fjallar um ritið Íslenskar bókmenntir - saga og samhengi sem er íslensk bókmenntasaga í tveimur bindum. Ritið kom út í fyrra og er skrifað af sex höfundum: Aðalheiði Guðmundsdóttur, Ástu Kristínu Benediktsdóttur, Margréti Eggertsdóttur, Ármanni Jakobssyni, Jóni Yngva Jóhannssyni og Sveini Yngva Egilssyni.
 
Gréta Sigríður veltir fyrir sér hverju þessi útgáfa bæti við fyrri umfjallanir um sama efni og kemst að raun um að það sé ekki hvað síst aukin áhersla á hlut kvenna í íslenskri bókmenntasögu.
 
Gréta Sigríður bendir til dæmis á að Aðalheiður Guðmundsdóttir nefni ýmis kvenskáld til sögunnar, sem hafa ekki farið hátt, og fjalli auk þess um konur sem sagnapersónur, virka lesendur og unnendur sagna, kvæða og jafnvel heillra bókmenntastefna sem haldið var úti þeirra vegna. Þá fjalli Margrét Eggertsdóttir um sagnadansa og barnagælur sem hafa varðveist að mestu í munnlegri geymd og þá einkum meðal kvenna.
 
Gréta Sigríður dregur saman undir lok umfjöllunar og segir m.a. þetta um hlut kvenna í fyrra bindi þessarar nýju bókmenntasögu:
 
Konur voru og eru hluti af bókmenntasögu þjóðarinnar. Kannski ekki oft sem höfundar en þær voru þó til staðar. Það eru talsvert fleiri konur nefndar til sögunnar í þessu bindi verksins en voru á prófinu sem ég tók í íslenskri bókmenntasögu í byrjun síðasta áratugar. Einnig er hér fjallað um konurnar sem pöntuðu bækur, lásu yfir, og nutu bókmennta. Þar að auki er fjallað um bókmenntir fyrir börn og sögur og kvæði sem þjóðin skemmti sér við og var hluti af menningu þeirra.
 
Það verður æ ljósara með hverri útgáfunni hversu mikinn þátt konur tóku í bókmenntasögunni og sjálfsagt eru ekki öll kurl komin enn til grafar.