SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir25. febrúar 2022

Aprilsólarkuldi tilnefnd

Í gær voru tilkynntar tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022. Önnur þeirra er Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttur sem kom út árið 2020 en hún hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin og var tilnefnd til Fjöruverðlauna. Hin tilnefnda bókin er Truflunin eftir Steinar Braga Guðmundsson sem kom einnig út árið 2020.
 
Kristján Jóhann Jóhannsson, Silja Björk Huldudóttir og Soffía Auður Birgisdóttir sátu í valnefnd og er röksemdafærsla þeirra eftirfarandi:
 
Í bókinni beitir Elísabet aðferðum skáldskaparins til að rannsaka hvað gerðist þegar hún seint á áttunda áratug síðustu aldar, þá um tvítugt, veiktist af geðhvörfum og upplifði vanmátt og skömm sem hún hefur notað stóran hluta ævinnar til að rannsaka og miðla í list sinni. Lýsing Elísabetar á því hvernig (aðalpersónan) Védís missir smám saman tengslin við raunveruleikann vegna veikinda sinna og telur sig heyra og sjá margvísleg skilaboð í umhverfinu sem eru öðrum hulin er meistaralega vel útfærð. Lausbeislaður stíllinn og húmorinn sem á yfirborðinu ríkir geymir þunga undiröldu. Naívur og tær textinn kallast í fagurfræði sinni sterklega á við barnið sem Védís fékk aldrei að vera, en reynir í vanmætti sínum að hlúa að. Elísabet fjallar á tilfinninganæman og ljóðrænan hátt um vandmeðfarið efni og gæðir efnivið sinn töfrum sem lætur engan ósnortinn.
 
Bækurnar sem eru tilnefndar í ár koma frá öllum norrænu löndunum, sem og málsvæðunum, og verður verðlaunabókin kynnt í Helsingfors þann 1. nóvember.
 
Skáld.is óskar Elísabetu Jökulsdóttur innilega til hamingju með tilnefninguna.