SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 4. september 2022

RÍMUR SKÁLD-GUÐNÝJAR

Haustið 2020 kom út bókin Hugurinn einatt hleypur minn eftir Guðnýju Árnadóttur (1813-1897). Þar er safnað saman kvæðum eftir Skáld-Guðnýju, eins og hún var kölluð, og eru mörg þeirra mjög áhugaverð, til dæmis 50 erinda ævikvæði þar sem Guðný "greinir frá helstu viðburðum á fyrri hluta ævinnar í tímaröð, einkum ásta- og giftingar-málum," eins og segir í greinargóðum formála bókarinnar.
 
Í bókinni eru einnig tvær langar rímur eftir Guðnýju, sem sem sætir tíðindum því mjög fáar rímur hafa varðveist eftir íslenskar konur. Í Rímnatali Finns Sigmundssonar eru nafngreind 475 skáld, þar af sextán konur en aðeins eru varðveittar rímur eftir fimm þeirra. Rímur voru ríkjandi bókmenntaform á Íslandi frá sextándu öld og langt fram á þá nítjándu og á þær hefur verið litið sem sérstakt kvæðaform karla en á móti bent á þulur sem kvæðaform sem höfðaði meira til kvenna.
 
Rímur um litla mús og hreindýr í hættu
Langflestar íslenskar rímur sækja efni í fornsögur og Íslendingasögur og ort er um karlhetjurnar svokölluð „kappakvæði“. Guðný yrkir hins vegar langa rímu (93 vísur) um mús og hreindýr og sækir efniviðinn beint í eigin reynslu. Sterkt kvennasjónarmið er í rímunni, til að mynda þegar konur reyna að bjarga lífi „hreindýrsnauts“ sem kom ofan af Fljótsdal og var fangað, konurnar hafa samúð með dýrunum en karlarnir ráða og tarfinum er slátrað. Mjög athyglisverð vísuorð segja frá því hvernig hreindýrskýrin (nefnd hreindýrsinna í rímunni) fylgist með maka sínum berjast fyrir lífinu:
 
         Á stóð gægjum inna dýrs með augum votum
fjalls við brún í fjörs umbrotum
 
Þegar maka sinn hún sá í solli nauða,
hertekinn og dæmdan dauða
 
Svipaða samkennd með dýrum má sjá í vísunum um músina sem sótti í búr konu og „vænti eftir dauðadóm af drósar vörum“ þegar hún fannst, en það fór þvert á móti þannig að „Mæri gætti að músar kjörum“ (83). Í rímunni fáum við sjónarhorn músarinnar sem er að leita matar fyrir unga sína og konan vill hjálpa henni og varar hana við karlmönnunum:
 
                  Héðan skaltu halda skjótt með hollar gætur
fyrr en karlmenn koma á fætur
 
Í seinni rímu Guðnýjar (144 vísur) er síðan makinn, „hreindýrsinnan“, aðalpersónan. Ríman er framhald þeirrar fyrri og segir af því að hreindýrsinnan ákveður að fylgja maka sínum í dauðann og heldur niður til mannabyggða. Þar lætur hún lífið „og fylgir maka sínum til glæsilegrar hallar í helheimi sem guðinn Júpíter hefur búið þeim“, eins og segir í formála þeirra Helga og Rósu og þau bæta við: „Áhersla er lögð á trúfesti, miskunn, ást og fórnarlund, ásamt hugprýði og hreysti“ (44).
 
Við mælum með bók Skáld-Guðnýjar, þar er mjög áhugaverðan skáldskap að finna, auk þess sem formáli þeirra Helga Hallgrímssonar og Rósu Þorsteinsdóttur er mjög greinargóður og fróðlegur. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi gefur út, Magnús Stefánsson ritstýrir.