SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn23. nóvember 2021

LÍF OG LIST ÁSTU SIGURÐARDÓTTUR

Komið er út hjá Lesstofunni bókaútgáfu, ritið ÁSTUSÖGUR: Líf og list Ástu Sigurðardóttur.
 
 
Bókin hefur að geyma mjög fjölbreytt efni sem ætti að gleðja alla aðdáendur Ástu Sigurðardóttur. Þar má nefna áhrifamikla minningatexta eftir tvö af börnum Ástu, Kolbein Þorsteinsson og Dagnýju Þorsteinsdóttur, og bréf Ástu til Oddnýjar systur sinnar sem skrifuð voru á árunum 1951-53 og Vera Sölvadóttir fjallaði um í rómuðum útvarpsþáttum sínum, Helmingi dekkra en nóttin, sem fluttir voru á RUV í desember 2020 og janúar 2021.
 
Skáldin Kristín Ómarsdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir, Linda Vilhjálmsdóttur, Guðrún Hannesdóttir, Oddný Eir Ævarsdóttir, Fríða Ísberg og Alda Björk Valdimarsdóttir eiga texta í bókinni, bæði ljóð og frásögur, sem sækja innblástur í verk Ástu.
 
Silja Aðalsteinsdóttir fjallar um útgáfusögu verka Ástu og í bókinni eru einnig sjö fræðigreinar, um sögur Ástu og kveðskap, ímynd hennar og myndlist. Höfundar greinanna eru Dagný Kristjánsdóttir, Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, Soffía Auður Birgisdóttir, Ásta Kristín Benediktsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir, Sigrún Margrét Guðmundsdóttir og Fríða Dís Guðmundsdóttir.
 
Það sem kann að vekja einna mesta athygli í bókinni er áður óbirt uppkast að sögunni Frostrigningu, sem er mjög frábrugðin þeirri útgáfu sem lesendur hafa séð til þessa. Þetta er mögnuð saga með óhugnanlegu andrúmslofti enda lýsir hún hræðilegum atburðum, illsku og mannhatri sem lætur kalt vatn renna á milli skinns og hörunds á lesandanum.
 
Bókin er sérlega fallega hönnuð af Hrefnu Sigurðardóttir, rautt og svart, eru ráðandi litir og ótal myndir af Ástu og eftir hana prýða bókina. Utan um bókina er rauð hlífðarkápa en þegar hún er tekin af birtist falleg mynd af Ástu í svart-hvítu.
 
Frumkvæðið að útgáfu bókarinnar og málþings sem var haldið nýverið um líf og verk Ástu Sigurðardóttur áttu bókmennta-fræðingarnir Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Þær eru einnig ritstjórar bókarinnar. Tilefni þessa framtaks var 90 ára afmæli Ástu á síðastliðnu ári.
 
Þetta er bók sem aðdáendur Ástu mega ekki láta fram hjá sér fara.