SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir29. september 2022

HVAÐ LESHRINGIR ATHUGI!

Nú eru leshringir eflaust að fara í gang aftur eftir sumarfrí og meðlimir farnir að spá í hvar gott sé að bera niður í vetur.

Skáld.is vill benda á að nú er nýkomin í búðir glæný þýðing Silju Aðalsteinsdóttur á bók Jane Austen, Sense and sensibility, sem fengið hefur fínan titil á íslensku: Aðgát og örlyndi, og því tilvalið að efna í leshring um Jane Austen. 

Auk þess að geta lesið þrjár skáldsögur þessarar frábæru bresku skáldkonu í íslenskum þýðingum eru til heil ósköp af kvikmyndum og sjónvarpsseríum sem gerðar hafa verið upp úr verkum hennar. Þetta efni gæti dugað í leshring í allan vetur - og jafnvel lengur - því enn er ónefnt allt svo kallað "spin-off" efni sem til er, bæði í bókaformi og kvikmyndaformi, sem ekkert lát virðist vera á. Hér má nefna ástarsögur, skvísusögur og meira að segja sjálfshjálparbækur sem orðið hafa til sem spunaefni út frá skáldsögum Jane Austen.

 

 

 

Svo heppilega vill til að til er frábærlega skemmtilegt fræðirit sem fjallar einmitt um þetta og ekki væri galið að dýfa sér niður í það, meðfram lestri á bókunum. Hér er að sjálfsögðu átt við bók Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur Jane Austen og ferð lesandans þar sem hún fjallar um endurvinnslu menningararfsins í samtímanum, hliðarsögur, endurritanir og aðlaganir á verkum Jane Austen. Bókin er byggð á doktorsritgerð Öldu sem hún varði við deild Almennrar bókmenntafræði við Háskóla Ísland árið 2014.

Að ofan var bent á að til eru þrjár íslenskar þýðingar á skáldsögum eftir Jane Austen. Eins og margir vita þýddi Silja einnig bókina, Pride and prejudice, fyrir margt löngu. Þýðing Silju, Hroki og hleypidómar kom fyrst út 1988 og hefur verið endurútgefin nokkrum sinnum.

 

Þriðja verkið er svo þýðing Sölku Guðmundsdóttur á Emmu sem kom út 2012.

Þetta má kalla fyrirtaks efni í góðan kvennabók-menntaleshring. Góða skemmtun!

Forsíðumyndin af Jane Austen er tekin af vef Encyclopeadia Britannica