SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 7. janúar 2022

KRISTÍN HELGA HLÝTUR VIÐURKENNINGU RITHÖFUNDASJÓÐS RÚV

Kristín Helga Gunnarsdóttir skáldkona hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins í gær. Ákveðið var að beina sjónum að barnabókmenntum í ár en mikil gróska hefur verið í útgáfu þeirra undanfarin ár.
 
Fyrsta bók Kristínar Helgu, Elsku besta Binna mín, kom út árið 1997. Síðan hefur hún sent frá sér fjölmargar bækur, einkum fyrir börn og unglinga, og skapað mjög eftirminnilegar persónur á borð við Fíusól sem rataði á svið Þjóðleikhússins og í fjörug lög. Kristín Helga hefur ennfremur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir verk sín.
 
Í ávarpi Guðjóns Ragnars Jónassonar, formanns stjórnar Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins, í Víðsjá, segir hann m.a.:
 
Alkunna er að mikil gróska hefur verið í útgáfu barnabóka síðustu ár og misseri. Höfundarnir eru mýmargir og segja má að barnabókin sé oft mun pólitískari nú í seinni tíð og flytji ungu fólki kröftugan boðskap. [...] Kristín leggur líka áherslu á að hún skrifi fjölskyldubókmenntir: Bækur sem fullorðnir og ungir lesi saman. Þannig styrkjum við sagnahefðina sem einkennt hefur samfélögin um aldir.
 
Í stjórn Rithöfundasjóðs sitja ásamt Guðjóni, sem ráðherra skipar, tvær manneskjur skipaðar af Ríkisútvarpinu og tvær af Rithöfundasambandi Íslands. Einn til þrír rithöfundar hafa hlotið árlega viðurkenningu Rithöfundasjóðsins allt frá árinu 1956. Hér má hlýða á viðtal Jórunnar Sigurðardóttur við Kristínu Helgu.
 
Skáld.is óskar Kristínu Helgu innilega til hamingju með verðlaunin
 
Myndin af Kristínu Helgu er fengin af vefsíðu RÚV.