Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙ 3. janúar 2022
VERÐSKULDAÐAR VIÐURKENNINGAR

Á nýársdegi sæmdi forseti Íslands Gerði Kristnýju riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag hennar til íslenskra bókmennta. Orðuveitingin fór fram á Bessastöðum en vegna sóttvarnareglna var hún með breyttu sniði og var haldin sérstök athöfn fyrir hvern og einn í staðinn fyrir að allir orðuþegar kæmu saman í einu, líkt og verið hefur.
Í orðunefnd sátu Kristín Ingólfsdóttir, fv. háskólarektor, formaður, Bogi Ágústsson fréttamaður, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Jón Egill Egilsson, fv. sendiherra, Svanfríður Jónasdóttir, fv. bæjarstjóri og fv. alþingismaður og Sif Gunnarsdóttir, orðuritari.
Nýja árið hófst einnig gæfulega hjá Fríðu Ísberg sem í gær hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin. Forseti Íslands afhenti þau sömuleiðis á Bessastöðum við hátíðlega athöfn. Verðlaun þessi eru hugsuð sem hvatning fyrir íslenska listamenn og samanstanda af áletruðum grip úr áli frá ISAL í Straumsvík, sem er bakhjarl verðlaunanna, ásamt einni milljón króna.Í dómnefnd Íslensku bjartsýnisverðlaunanna voru Þórunn Sigurðardóttir, Magnús Geir Þórðarson, Sif Gunnarsdóttir og Rannveig Rist.
Við afheningu verðlaunanna flutti Fríða ljóðabálkinn Persónuleikapróf. Hlýða má á flutning ljóðsins hér.
Skáld.is óskar skáldkonunum innilega til hamingju með þessar verðskulduðu viðurkenningar.