SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 1. október 2022

DÚNDUR LJÓÐ FRÁ Ragnheiði Lárusdóttur

 

Ný ljóðabók er væntanleg frá Ragnheiði Lárusdóttur sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handrit að fyrstu bókinni sinni 1900 og eitthvað sem kom út 2020 og hlaut einnig tilnefningu til Maístjörnunnar. Ragnheiður sendi í fyrra frá sér ljóðabókina Glerflísakliður og væntanleg ljóðabók hennar mun bera titilinn Kona / Spendýr.

Ragnheiður gaf Skáld.is leyfi til að birta sýnishorn úr væntanlegri bók og lesendur eiga greinileg von á góðu í þriðju ljóðabók Ragnheiðar á þremur árum!

 

Auga
 
inn í þríhyrning
faðir, sonur og heilagur andi
guðspjallamenn, prestur
organisti, meðhjálpari
hvar eigum við mamma að vera?
hugsar stelpa
á kirkjubekk
 
konur sem
þvo fætur
þvo lík
baka brauð
eru bersyndugar
bera ábyrgð á syndafallinu
tæla menn til glæpaverka
gefa síðustu
krónurnar sínar
 
á ég að gera þetta?
hugsar stelpan
sem býr í föðurlandi
tilbiður föður vorn á himnum
á forfeður
en talar móðurmál
 

 

I
 
Konan þenst út og dregst saman
þenst út og dregst saman
þenst út og dregst saman
þannig eignast hún þrjú börn
á meðgöngunni þarf hún að hitta marga lækna
sem skoða hana innan og utan þeir tala lítið við hana
henni dettur í hug hvort hún ætti að baula
til að ná sambandi við þá
brjóst hennar þenjast út og dragast saman
hún mjólkar og mjólkar enda er hún spendýr
hún togast og teygist til og frá, stækkar og minnkar
en hún má ekki fitna
þá verður hún svo ljót að enginn vill búa með henni
hún borðar minna og fer í ræktina
eldar krásir og gefur öllum nema sjálfri sér
líkami hennar á að vera eins fyrir og eftir burð
Mööö
 

 

II
 
Konan liggur á fæðingastofunni
það þarf að sauma hana saman
hún er öll klippt og rifin
inn kemur hópur af læknanemum
einn þeirra fær að sauma ósköpin meðan hinir horfa á
skaut konunnar verður að skólaverkefni
 

 

IV
 
Lausnargjald
 
dúkkuaugnhár
dúkkuvarir
dúkkubrjóst
þannig kaupir sjálfstæð kona sér frelsi
 
nú getur hún blikkað augum
undir töfrandi augnhárum
litað dúkkuvarirnar
með „vörulit“
og brosað
 
það vill enginn sjá hvernig hún var sköpuð
en það er skemmtilegt að sjá
hvernig hún skapar sig sjálf
sjálfsköpuð kona
á eigin dúkkuheimili
 

 

Haltu kjafti
 
og troddu sílíkoni og bótoxi
í varirnar
brjóstin
rassinn
reyndu svo að vera eins og manneskja
 
haltu kjafti
og vertu ekki að áreita mennina
sem áreita þig
 
haltu kjafti
og sættu þig við
að mennirnir sem ráða, ráða