Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙23. nóvember 2021
PÓLÍFÓNÍA AF ERLENDUM UPPRUNA
Á Degi íslenskrar tungu kom út ljóðabókin Pólífónía af erlendum uppruna hjá Unu útgáfuhúsi. Bókin hefur að geyma úrval ljóða eftir fimmtán skáld sem öll eiga það sammerkt að vera af erlendum uppruna.
Haft er eftir skáldinu Sjón að bókin sé „tímamótaverk í íslenskum bókmenntum“ og í formála ritstjóra er komist svo að orði:
„Við erum til og við erum mörg. Það er eftirspurn eftir okkar skáldskap og hér er svarið. Þetta er einskonar fæðing innflytjendabókmennta á Íslandi og ég vona að henni fylgi margar bækur, í margar kynslóðir, um ókomna tíð.“
Fjölmargar konur eru á meðal höfunda en þær eru tólf talsins: Ana Mjallhvít Drekadóttir, a rawlings, Deepa R. Iyengar, Ewa Marcinek, Francesca Cricelli, Giti Chandra, Mao Alheimsdóttir, Meg Matich, Natasha Stolyarova, Randi W. Stebbins, Sofie Hermansen Eriksdatter og Vilja-Tuulia Huotarinen. Auk þessara skáldkvenna eiga Elías Knörr, Jakub Stachowiak og Juan Camilo Roman Estrada ljóð í bókinni.