Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙16. nóvember 2021
VERÐLAUNABÓKIN STÚLKA, KONA, ANNAÐ

Komin er út íslensk þýðing á verðlaunabókinni Girl, Woman, Other eftir Bernardine Evaristo. Verkið kallast Stúlka, kona, annað í þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur en það hefur verið þýtt á um fimmtíu tungumál.
Girl, Woman, Other kom út árið 2019 í London og hlaut Booker verðlaunin það sama ár en Bernardine er fyrsta svarta konan, og fyrsta svarta manneskjan, til að hljóta þau verðlaun. Verkið hefur hlotið fjölda annarra verðlauna og um langt skeið vermdi það metsölulista Sunday Times þar sem það trónaði efst á lista yfir skáldsögur í pappírskilju í fimm vikur og er Bernardine fyrsta svarta konan til að ná þeim árangri.

Það er einnig óhætt að segja að saga Bernardine eða kannski mætti heldur segja sögur Bernardine séu magnaðar. Bókin geymir frásagnir tólf stúlkna, kvenna og annarra sem flest eiga það sammerkt að vera svört. Persónurnar eru úr ýmsum þjóðfélagsstéttum og eiga sér fjölbreyttan bakgrunn, á aldrinum 19 til 93 ára og farið er allt aftur til 1875 í tíma. Með þessu móti fæst býsna góð innsýn í líf svartra kvenna í Bretlandi í ríflega hundrað ár. Hér fyrir neðan má sjá stutt viðtal við Bernardine þar sem hún m.a. fjallar um efni og byggingu bókarinnar.
Bernardine Evaristo fæddist í London, móðir hennar bresk og faðir frá Nígeríu. Hún er enn búsett í London og gegnir stöðu prófessors í skapandi skrifum í Brunel University. Bernardine hefur sent frá sér átta bækur og ýmis önnur verk, á borð við ljóð, smásögur, ritgerðir, ritdóma og leikrit. Á heimasíðu Bernardine má fræðast frekar um ævi hennar og verk.