Í SKUGGA JARÐAR. Framtíðarsýn Grétu Sigfúsdóttur
Árið 1969 kom út skáldsagan Í skugga jarðar eftir Grétu Sigfúsdóttur. Á bókarkápu segir að sagan sé framtíðarsaga sem gerist eftir aldarfjórðung frá útgáfuári, sem sagt árið 1994. Hér verður skáldsagan kynnt, heimsmynd hennar skoðuð og athugað hvernig hugmyndir höfundur hafði um framtíðina á Íslandi. Var Gréta sannspá um lífið á síðasta áratug tuttugustu aldar í skáldsögu sinni – eða skjátlaðist henni.
Þótt bækur Grétu Sigfúsdóttur hafi vakið verðskuldaða athygli þegar þær komu út – seint á sjöunda áratug tuttugustu aldar og í byrjun þess áttunda – þá fór fyrir henni eins og svo mörgum öðrum rithöfundum (ekki síst konum) að nafn hennar hefur fallið að mestu í gleymsku og bækur hennar ber sjaldan á góma í bókmenntaumræðu samtímans.
Á bókarkápu Í skugga jarðar er sögunni lýst svona:
„Í skugga jarðar er framtíðarsaga sem gerist eftir aldarfjórðung. Atburðarásin er spennandi og stíllinn býr yfir töfrum, sem heilla lesandann, svo að hann getur ekki slitið sig frá bókinni fyrr en henni er lokið. Sögusviðið er höfuðborgin og álverksmiðjan í Straumsvík, þar gerast helstu atburðir sögunnar, fjárglæfrar, valdabarátta og forsetamorð. Höfundur hefur kynnt sér tækninýjungar í þessu sambandi og eykur við því, sem vísindamenn ætla að verði algengt á tíma sögunnar. Auk þess sem saga þessi er bráðskemmtileg, býr hún yfir þægilegri kímni og napurri þjóðfélagsádeilu, sem hittir í mark, þó að hvergi sé gripið til stóryrða eða sleggjudóma. Þetta er óvenjuleg bók er mun vekja athygli allra þeirra, sem skyggnast undir yfirborð hlutanna, auk þess sem hún hefur bestu kosti raunsærrar skáldsögu, svo sem spennu, fjölbreyttan stíl og listræna byggingu.”
Framtíðarsaga – útópía
Við skulum staldra aðeins við skilgreininguna framtíðarsaga. Framtíðarsögur er nokkuð algeng bókmenntagrein erlendis, en slíkar sögur hafa verið að sækja í sig veðrið á Íslandi undanfarin ár. Fyrstu framtíðarsögurnar voru svokallaðar „útópíur“ og drógu þær nafn sitt af skáldsögu breska 16. aldar rithöfundarins Thomas More, Utopia. Þetta voru skáldverk sem lýstu fyrirmyndarríki á einhverjum tilbúnum stað, hvort sem var á jörðunni eða jafnvel á öðrum hnöttum. Elsta þekkta ritið af þessu tagi er Ríkið eftir gríska heimspekinginn Platón, og á því byggði Thomas More nokkuð þegar hann skrifaði sína útópíu, þar sem hann lýsir jarðnesku fyrirmyndarríki, sem byggt var á einhverskonar sameignarskipulagi.
Slíkar útópíur – eða ólönd – bókmennta fyrri alda áttu það flestar sameiginlegt að lýsa framtíðarsamfélagi manna eins og höfundar þeirra gátu helst óskað sér að þau væru. Reyndar mátti alltaf inn á milli finna einn og einn höfund sem notaði framtíðarsagnaformið til þess að deila á samtíma sinn; höfund sem þóttist vera að lýsa fjarlægu furðulandi, en var í raun að hæðast að sínu eigin heimalandi. Á tuttugustu öldinni varð slík þróun á framtíðarsögum afgerandi; í stað þess að lýsa óskasamfélaginu lýstu þær ógnarsamfélagi – samfélagi manna á hraðri niðurleið vegna þeirrar óheillabraut þróunar sem höfundarnir töldu samtíma sinn vera á. Þetta eru nokkurs konar anti-útópíur – eða dystópíur – kannski hin einu og sönnu ólönd. Einn angi slíkra framtíðarsagna eru vísindaskáldsögur, þar sem byggt er á ímyndunarafli og vangaveltum um nýjungar í vísindum og tæknilegri þróun.
Vísindaskáldsaga
Skáldsagan Í skugga jarðar eftir Grétu Sigfúsdóttur á ýmislegt skylt við ólandssögur sem vinsælt varð að skrifa í hinum tæknivædda heimi á síðari hluta tuttugustu aldarinnar. Og einnig ber hún keim af vísindaskáldsögu, þar sem leitast er við að lýsa tækninýjungum eins og höfundur „hafði kynnt sér og aukið við því sem vísindamenn ætla að verði algengt á tíma sögunnar,“ eins og segir á bókarkápunni. Ekki er dregin nein dul á það á bókarkápunni að sú þjóðfélagsmynd sem dregin er upp í skáldsögunni er svört: Lýst er fjárglæfrum, valdabaráttu, spillingu og morði á sjálfum forseta lýðveldisins. Í skáldsögu Grétu er dregin upp ófögur mynd af íslensku þjóðfélagi samtímans og með þessari dökku framtíðarsýn sinni hefur hún áreiðanlega haft í huga að vara samtíma sinn við þeirri óheillabraut sem henni virtist við blasa árið 1969.
Söguþráður skáldsögunnar snýst um valdabaráttu nokkurra óvandaðra og valdasjúkra einstaklinga sem eru þó í raun og veru aðeins handbendi alþjóðlegs stóriðju-auðhrings, sem er nánar tiltekið Álfélagið sem rekur verksmiðjuna í Straumsvík. Erlendir eigendur þess og stjórnendur svífast einskis til að tryggja völd sín á Íslandi og áframhaldandi gróða. Þeir halda fund þar sem borin er upp tillaga – og samþykkt þrátt fyrir veikburða og andvana fædd mótmæli eina Íslendingsins sem á sæti í stjórn Álfélagsins – sem felst í stuttu máli í því að myrða sitjandi forseta Íslands og koma nýjum forseta handgengnum auðhringnum til valda. Þetta á að gera til að tryggja að stóriðuverið verði ekki eign íslensku þjóðarinnar, heldur haldist áfram í eigu hins erlenda auðhrings.
Áverið í Straumsvík - tákmynd hins illa
Það er athyglisvert að álverið í Straumsvík hefur í hugum margra – meðal annars fleiri rithöfunda – orðið nokkurs konar táknmynd, með skírskotun til neikvæðrar framtíðarmyndar tengdri spilltu auðvaldi. Verksmiðjan í Straumsvík var meðal annars fyrirmynd af verksmiðjunni sem er sögusvið skáldsögunnar Snörunnar eftir Jakobínu Sigurðardóttur sem kom út árið 1968 eða einu ári á undan skáldsögu Grétu. Í skáldsögunni Borg eftir Rögnu Sigurðardóttur, sem kom út 1993, er álverið einnig vinnustaður einnar aðalpersónunnar og nokkur konar táknmynd framtíðarvinnustaðar, þótt ekki sé lögð nein áhersla á vald eða spillingu ráðamanna verksmiðjunnar í þeirri sögu. Af hverju hefur álverksmiðjan slíkt táknlegt gildi í íslenskum bókmenntum? Skýringin kann að vera að fyrirtækið var fyrsta erlenda stóriðjan á Íslandi og að því að margir hugðu upphaf stórtækra stóriðjuframkvæmda á Íslandi. Margir óttuðust áhrif slíkrar þróunar á íslenskt samfélag. Menn óttuðust jafnvel að erlend stóriðja mynda leggja íslenskan landbúnað í rúst – að iðnaður yrði aðalatvinnuvegurinn. Þessa trú má sjá í skáldsögu Grétu. Þorri íbúa landsins býr í Reykjavík eða á öðrum þéttbýlisstöðum sem risið hafa í kringum verksmiðjur. Reykjavík hefur vaxið mjög og er byggðin runnin saman við Hafnarfjörð, sem er helsti hafnarstaður landsins. Þar leggjast að flutningaskip sem flytja iðnaðarvörur til annarra landa. Sveitir landsins hafa lagst í eyði, mest vegna stóriðjuframkvæmda sem hafa mengað land og loft svo að erfitt er að stunda landbúnað.
Banaráð brugguð
En víkjum aftur að söguþræðinum. Forsetakosningar standa fyrir dyrum. Hinir erlendu auðmenn sem stjórna álverinu óttast um áhrif sín og völd og brugga hinum vinsæla, sitjandi forseta, Grími Grímssyni, banaráð til að koma til valda lepp sínum. Til verknaðarins ráða þeir mann að nafni Geir Adolf, harðsvíraðan glæpamann sem hefur ýmislegt óhreint á samviskunni. En þeir láta ekki þar við sitja heldur koma málum þannig fyrir að grunur fellur á annan mann að nafni Birgir Búason sem ekkert hefur sér til saka unnið annað en að hafa búið í Alþýðulýðveldinu í Kína um árabil. Birgir býr með kínverskri konu sinni og börnum, við fátækt og atvinnuleysi í sögubyrjun. Birgir reynist auðveld bráð glæpamannanna. Hann vantar vinnu, sem þeir útvega honum í álverinu í Straumsvík, og með kænsku sinni fanga þeir hann í svikavef sem honum mun reynast ókleift að losna úr þegar hann er handtekinn fyrir morð á forseta landsins.
Fyrir tilverknað forseta Alþingis, sem gegnir einnig starfi varaforseta landsins þegar þess þarf, ákveður forsetinn að halda kosningaræðu í álverinu í Straumsvík. En það er reyndar enginn annar en þessi varaforseti, Garðar Ægis að nafni, sem er leppur hinu erlendu auðmanna. Hann er með í að brugga forsetanum banaráð í þeim tilgangi að komast sjálfur í forsetastólinn. Garðar Ægis er óvandaður maður og valdasjúkur. En einnig á hann gamalla harma að hefna og er hluti óheilinda hans og svika við forsetann að leita langt aftur í barnæsku. Gréta Sigfúsdóttir hefur nefnilega nokkur konar formála að aðalsögunni þar sem sagt er frá samskiptum drengja að nafni Garðar Ægis og Grímur Grímsson. Það má því skilja að rót valdabaráttunnar og illskunnar í sögunni sé að leita í átökum tveggja drengja, í hefndar- og óvildarhug sem sprottinn er af barnabrekum. Kannski mætti túlka þetta sem all háðslega sýn á karlveldið og stjórnkerfi þess.
Engin framför í kvenréttindum
Það er athyglisvert að í framtíðarsýn Grétu Sigfúsdóttur er engin breyting orðin á stjórnsýslu landsins frá því árið 1969, hvað varðar hlutfall kynjanna. Höfund Í skugga jarðar óraði ekki fyrir því að árið 1994 væri kvenforseti við völd, forseti Alþingis væri kona, borgarstjórinn væri kona, og ein af stærstu stjórnmálasamtökum landsins væri kvennaframboð. Í öllum valda- og stjórnunarstöðum skáldsögunnar sitja karlmenn traustum sessi. Ekki nóg með það, heldur virðist engin framför í kvenréttindamálum hafa orðið inni á heimilum heldur. Á heimili Birgirs Búasonar þjónar hin heimavinnandi kínverska eiginkona hans honum eins og vinnukona – hún dregur jafnvel af honum skóna þegar hann kemur heim. Verkaskipting á heimilinu er skýr, konan eldar matinn, þvær þvotta o.s.frv. og ekki virðist til umræðu að hún vinni utan heimilis. Það er skylda hennar að þjóna eiginmanni sínum, eins og það er skylda karlmannsins að sjá fjölskyldunni farborða og veita konu sinni falleg föt og annan munað. Það er kannski ekki nema von að ástand þjóðmála sé dökkt í þeim heimi þar kynin hafa ekki þokast spönn frá rassi í veiðleitni sinni til að nálgast hvort annað á jafnréttisgrundvelli.
Svart útlit í alþjóðamálum
Sýn Grétu Sigfúsdóttur á ástand alþjóðamála er heldur ekki fögur. Slíku ástandi er helst lýst í gegnum fjölmiðla, í öðru þeirra tveggja dagblaða sem stærst eru í landinu Vindgapanum eða Þokulúðrinum. Eða þá í gegnum fréttaflutning í sjónvarpi sem hefur stækkað mjög að umfangi, nær yfir heila veggi í íbúðum fólks og er að sjálfsöðu í þrívídd, en aðeins er þó minnst á eina sjónvarpsstöð í sögunni. Kannski eru fréttirnar utan úr heimi, eins og þær birtast í skáldsögunni, ekki svo fjarri því sem við eigum að venjast í dag. Reyndar er kalda stríðið enn í fullu gildi og höfund óraði ekki fyrir því falli Sovétríkjanna og Austurblokkarinnar sem við nútímamenn horfðum upp á í beinni útsendingu. Á hinn bóginn sá höfundur heldur ekki fyrir batnandi ástand í samkiptum hvítra og svartra í Suður Afríku, að minnsta kosti á vettvangi stjórnmálanna. Risastór þrívíddar-sjónvarpsskjár inn á flestum heimilum og flugbílar sem aðalsamgöngutæki almennings eru tækniatriði sem koma lesendum nú á dögum spánskt fyrir sjónir.
Gömul gildi eru góð gildi
Heiðarlegasta persóna bókarinnar er Heiðrún, systir forsetans. Heiðarleiki hennar kemur meðal annars fram í því að samtíminn er henni lítt að skapi. Hún hefur gamaldags gildi í hávegum sem og gamaldags húsgöng. Hún kann að meta Bessastaði með sínar gömlu byggingar og fjölbreyttu sögu. Heiðrún flyst í nýja íbúð, eftir forsetamorðið, sem á að vera dæmigerð fyrir híbýli manna á tíma sögunnar og er er henni framandi. Í sjónvarpinu í nýju íbúðinni sér Heiðrún beina útsendingu frá því að fanginn, Birgir Búason, fellur fyrir morðingja hendi við flutning úr fangelsinu. Það er kannski í þessu atviki frásagnarinnar sem það rennur upp fyrir lesanda sögunnar að höfundur byggir frásögnina á frægum heimsatburðum, ekki síður en spásögn um framtíðina. Morðfléttan í bókinni er í öllum grundvallaratriðum samanfléttuð eins og sú morðflétta sem átti sér stað í Dallas, Texas, 22. nóvember árið 1963. Gréta Sigfúsdóttir byggir á þeim alþýðuskýringum sem upp spruttu í kjölfar morðsins á John F. Kennedy en þær skýringar áttu lítið skylt við hina opinberu skýrslu stjórnvalda um málið. Um þetta deila ameríkanar enn þann dag í dag. Það voru þessi líkindi með Kennedy-morðinu sem íslenskir ritdómarar festu helst athygli sína við þegar Í skugga jarðar kom út.
Hér að framan kom í ljós að verkaskipting milli kynjanna hefur lítið breyst í framtíðarsýn höfundar og er lýsing hennar á stjórnkerfi lands og borgar meira í ætt við íhaldssömustu rómana frá síðustu öld en við íslenskan samtíma á síðasta áratug liðinnar aldar. En þegar höfundur lýsir skemmtanalífi landsmanna á síðasta áratug aldarinnar kveður við annan tón, þar ræður svallið og dópið.
Hið illa sigrar
Það er ekki bara forseti landsins og Birgir Búason sem eru myrtir í rás sögunnar. Margir fleiri týna lífinu fyrir morðingja hendi, meðal annars allir þeir sem hugsanlega gætu vísað á hina einu sönnu sökudólga. Þetta er ekki glæpasaga þar sem flett er ofan af glæpahyskinu í sögulok. Þvert á móti: Í sögulok er sú manneskja myrt sem var eina heiðarlega persóna bókarinnar. Heiðrún systir hins Gríms Grímssonar forseta er síðasta fórnarlambið. Henni er fleygt niður af svölum í háhýsinu þar sem hún býr og með henni deyr eina vonin um að sannleikurinn komi nokkurn tímann í ljós. Hið illa hefur sigrað.
Ekki er hægt að segja að framtíðarsýn Grétu Sigfúsdóttur hafi verið fögur: Sjúkleg valdabarátta, spilling á öllum stigum stjórnsýslu, allt til æðstu staða, eiturlyfjaneysla og kaldrifjuð morð. Þrátt fyrir gömlu þekktu tuggu hverrar kynslóðar um að „heimur versnandi fari“ er óhætt að segja að sú mynd sem Í skugga jarðar bregður upp af árinu 1994 hafi sem betur fer ekki ræst. Eðlilegt er að spyrja hvaða ástæður liggi á bak við bölsýni sögunnar og kannski er svarið ekki langt undan. Gréta Sigfúsdóttir bjó um árabil í Noregi og upplifði hernám Þjóðverja og síðar ósigur þeirra og þau eftirköst sem hann hafði, bæði í Noregi, Þýskalandi og víðar. Það fer eflaust ekki hjá því að sá sem upplifir stríð og fylgifiski þess: ótta, ofbeldi, fátækt, örvæntingu, glæpi, hermdarverk, svik og sérgæsku; að sá sem sér með eigin augum hörmungar sundursprengdra borga og heimilislauss fólks, fái nöturlega sýn á heiminn og efist jafnvel um að mannkynið geti nokkru sinni náð sér eftir slíkan hildarleik. Eflaust hefur heimssýn Grétu Sigfúsdóttur mótast af þessari reynslu. Þá má geta sér til um að þeir möguleikar sem við blöstu á sviði vísinda og tækni – og buðu heim misnotkun um leið og þeir virtust setja tæknihyggju ofar manngildi – hafi orðið til að skerpa neikvæðar hliðar hinnar mögulegu framtíðar.
Þótt hin dökka framtíðarsýn Grétu Sigfúsdóttur hafi ekki gengið eftir er þó eitt atriði sem bókstaflega rættist: Á einum stað í sögunni er þess getið að búið er að byggja nýtt ráðhús við endann á Tjörninni í Reykjavík (reyndar við vesturendann). Líklega datt fáum í hug árið 1969 að íslenskum húsameisturum myndi koma til hugar að byggja ráðhús við austurenda Tjarnarinnar.
Þessi grein er unnin upp úr úrvarpsþætti sem fluttur var á rás 1, 14. ágúst 1994, í tilefni af því að runninn var upp sögutími skáldsögunnar.