ÞÖGNIN ROFIN EINS OG UNNT ER
„Það blundaði lengi í mér að skrifa um atburðina á Skárastöðum í Miðfirði, allt frá því ég las þátt um málið eftir Sverri Kristjánsson sagnfræðing. Ég vildi vita meira og veit miklu meira núna. Í bókinni er gengið mun lengra en áður í umfjöllun um Skárastaðamál og þögnin rofin eins og unnt er“ segir Anna Dóra Antonsdóttir, skáld og sagnfræðingur frá Dalvík í viðtali við Svarfdælasýsl. Skelfilegir atburðir urðu á Skárastöðum í Húnavatnssýslu árið 1864, ungbarn deyr voveiflega og annað barn kemur ekki í ljós hvernig sem leitað er. Fleira misjafnt eins og sauðaþjófnaður og hórdómur koma til kasta sýslumanns og um Skárastaðamál fjallar Anna Dóra í nýlegri bók, Þar sem skömmin skellur.
„Í eftirmála geri ég grein fyrir því hvað um helstu sögupersónur varð þegar þær höfðu afplánað refsinguna. Slíkt hefur ekki verið gert fyrr og kostaði mikið grúsk. Skólasystkin mín úr Menntaskólanum á Akureyri, sem búa í Vestur-Húnavatnssýslu, voru mér mjög hjálpleg og ég notfærði mér lipurð þeirra miskunnarlaust! Svo nefni ég sérstaklega til sögunnar mikla hjálparhellu á tíræðisaldri, Magnús Guðmundsson á Staðarbakka. Bróðir aðalgerandans í sakamálinu dó á Staðarbakka á fjórða áratug síðustu aldar og Magnús man vel eftir honum. Svo nálægt okkur er Skárastaðamálið í tíma! Magnús las yfir handrit að bókinni til að ganga úr skugga um að ég færi rétt með staðháttalýsingu og annað slíkt. Ég hef þar með skrifað mig frá þessu máli sem slíku en sagan öll hefur ekki endilega verið sögð.“
Anna Dóra heldur samt vonandi áfram að skrifa um Skárastaðamál en örlagasaga vinnukonu á bænum er ósögð: „Ekki er til dæmis útilokað að ég reki síðar örlagasögu Guðbjargar Guðmundsdóttur, vinnukonu á Skárastöðum, sem afplánaði dóm sinn í fangelsi í Danmörku og var síðar víða í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum. Hún hvílir í kirkjugarðinum á Breiðabólsstað. Saga Guðbjargar gæti orðið efni í heila bók.“
Heimild: Svarfdælasýsl