SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 8. júní 2019

Í HLÝJABÓLI

Ingibjörg Haraldsdóttir (1942-2016) hið merka skáld og frábæri þýðandi sendi frá sér óvenjulega bók árið 2007. Óvenjulega að því leyti að hún inniheldur endurminningar hennar en bæði var Ingibjörg hlédræg og fámál um eigin hag almennt og einnig eru ekki margar endurminningabækur til eftir skáldkonur. Bókin heitir Veruleiki draumanna og segir frá uppvexti Ingibjargar við kröpp kjör, æskuárum í Kópavogi, námi í Moskvu - ferðalögunum, skáldskapnum og ástinni. Bókin er einkar vel skrifuð og varpar ljósi á líf og samfélag á seinni hluta 20. aldar, tilurð skálds og þroskaðrar konu.

 

Hér er brot úr fyrsta kafla:

 

„Þessi fyrsti dagur ævi minnar líður að kvöldi og fyrsta nóttin rennur inn í morgundaginn og þannig koma þeir hver af öðrum, dagar mínir á jörðinni, og heimurinn er mér mjúkt og hlýtt móðurbrjóst. Ef ég hlusta grannt heyri ég lágt værðarhjal í horninu þar sem ég geri ráð fyrir að rúmið hafi staðið þá. Seinna var það fært til að koma kojunum fyrir. Rúmið var breiður dívan og fékk svo seinna nafnið gæluhlýjaból. Allt gerðist seinna, ekkert var enn byrjað að gerast, en hlutirnir voru þarna og biðu þess að nýjum augum væri beint að þeim og nýjar hendur snertu þá. Seinna urðu til sögur um þennan tíma sem leið frá því mannsbarnið fæddist þangað til það fór að festa sér hlutina í minni, sögur sem sagðar voru til skemmtunar og yrðu smám saman að snurfusuðum minningum, einskonar veganesti út í lífið og gátu falið í sér svör við áleitnum en óneitanlega klisjukenndum spurningum á borði við: hvaðan kom ég, hver er ég?“

(11)

 

Ingibjörg var eldheitur femínisti; konur, kvenmyndir og staða skáldkvenna í bókmenntaheiminum voru henni hugleikin viðfangsefni. Í fyrirlestri sem hún hélt í Norræna húsinu árið 2005 sagði hún m.a.: „Á einhvern hátt erum við alltaf byrjendur, hver ný skáldkona er Júlíana Jónsdóttir om igen, stúlka sem passar ekki inn í hefðina af því að þar eru fyrir eintómir karlar. Annað hvort lendir hún utanborðs og reynir bara að gleyma þessu, eða hún setur undir sig hausinn og þráast við, storkar hefðinni, hvort sem hún er þess meðvituð eður ei.“ Og Ingibjörg setti svo sannarlega undir sig hausinn; kannski höfuð konunnar sem hún orti um 1995 og frægt er orðið.

 

 

 

Tengt efni