SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir12. júní 2019

SKÁLDSKAPUR ODDNÝJAR GUÐMUNDSDÓTTIR

Síðastliðinn sunnudag var þátturinn "Ein gegn öllum" á dagskrá Rásar eitt í Ríkisútvarpinu. Þátturinn fjallaði um Oddnýju Guðmundsdóttur, rithöfund, og hann gerði Steinunn Inga Óttarsdóttir. Í kynningu hennar sagði meðal annars:

Oddný fór alltaf eigin leiðir, bæði í starfi, einkalífi og skáldskap. Hún var frjáls og sjálfstæð kona sem skar sig úr, hún átti hvergi fastan samastað og var alla ævi óþreytandi að bæta heiminn. Hún reis gegn hefðbundnu kynhlutverki, gekk í buxum þegar aðrar konur klæddust kjól, giftist aldrei og eignaðist ekki börn. Þá gekk hún menntaveg og ferðaðist víða, m.a. til Sovétríkjanna, og tróð sér fram á ritvöll þar sem karlar réðu ríkjum og settu bókmenntir kvenna skör lægra.

Í tilefni af útvarpsþættinum birtum við hér smá pistil um skáldskap Oddnýjar Guðmundsdóttur.

 

Höfundarverkið

Oddný gaf út sex skáldsögur, þá fyrstu, Svo skal böl bæta, árið 1943. Síðan komu: Veltiár (1946), Tveir júnídagar (1949), Á því herrans ári (1954), Skuld (1967) og Síðasta baðstofan (1979). Fjöldi smásagna birtist eftir Oddnýju í blöðum og tímaritum, meðal annars í Dvöl, Melkorku, Eimreiðinni og Sunnudagsblaði Tímans. Þá voru þrjú leikrit eftir Oddnýju flutt í útvarpi á sjötta og sjöunda áratugnum og 1982 kom út eftir hana unglingabókin Haustnætur í Berjadal og ljóðabókin Kvæði og kviðlingar. Þá þýddi Oddný eina skáldsögu úr þýsku og skrifaði fjölda blaðagreina, meðal annars um íslenskt mál. Hún var mikill áhugamaður um íslenska tungu og málvernd og um árabil skrifaði hún pistla í Þjóðviljann og Tímann sem hún kallaði "Orðaleppa og aðrar ljótar syrpur" og voru þeir gefnir út á bók 1983. Oddný var í hópi rithöfunda sem lögðu til efni í Rauða penna, hún var vinstrisinnuð og ákafur hernámsandstæðingur.

 

 

Sjálfstæðar konur

Í sögum Oddnýjar er víða að finna sterkar, sjálfstæðar konur sem láta ekki kúga sig. Taka má skáldsöguna Veltiár sem dæmi en hún er meðal annars innlegg í umræðuna um hernámsárin og "ástandið". Það er athyglisvert að sjá hversu frábrugðið sjónarmið Oddnýjar á samband íslenskra kvenna og hermanna er sjónarmiðum sem fram koma í verkum íslenskra karlhöfunda um þetta efni. Sagan gerist í þorpi úti á landi árið 1941. Það er stríðsár og veltiár og óvenjulegir tímar í íslenskri sögu. Kvenhetjan, Þrúða, er í sambandi við breskan hermann sem byggt er á gagnkvæmri ást og virðingu. Hermaðurinn drukknar í hafi þegar Þrúða er orðin barnshafandi og þá hyggur íslenskur athafnamaður gott til glóðarinnar og biður hennar í von um að hún verði sér ævinlega þakklát. En Þrúða vill ekki gifta sig í hagsmunaskyni og ætlar sér að standa sig sem einstæð móðir. Samhliða því að draga upp mynd af sjálfstæðri konu, deilir Oddný á hræsni "þjóðernissinna" sem sjálfir sækja drjúgt í gullkistu hersins og um leið og þeir úthúða "ástandskonunum" og predika um þá ógn sem íslenskri menningu stafi af hernum. Dagný Kristjánsdóttir segir í Íslenskri bókmenntasögu IV að "sú fáorða ástarsaga sem Oddný segir mynd[i] sterka andstæðu við siðferðilegar hryllingssögur karlrithöfunda af ástandinu" (2006: 457).

 

Fámælar bækur

Hér að ofan er talað um "fáorða" ástarsögu sem Oddný segir í skáldsögunni Veltiár. Tveimur af skáldsögum hennar, Tveir júnídagar og Á því herrans ári, mætti einmitt lýsa með svipuðum hætti, þær eru stuttar, fámálar og kyrrstæðar á yfirborðinu. Í Íslenskri bókmenntasögu IV er leitt að því líkum að Oddný - og fleiri höfundar á fimmta áratugnum - sé að skrifa gegn hinum breiðu, epísku, orðmiklu skáldsögum sem einkenndu fyrri hluta tuttugustu aldar; að um sé að ræða tilraun til að fága textann, magna framsetninguna, segja hlutlægt frá. Dagný Kristjánsdóttir telur þessa texta "undarlega bælda eða þögla texta" sem fæddir eru af fyrirlitningu "á málæði í sagnaskáldskap" (2006: 450). En einnig má segja að þetta sé í fullkomnu samræmi við persónuleika Oddnýjar, eins og viðmælendur í ofannefndum útvarpsþætti Steinunnar Ingu lýstu honum, því þar var lögð áhersla á hversu fámál og fjarlæg Oddný alla jafna var í mannlegum samskiptum.

 

Umsnúningur á hefð

Ein af athyglisverðustu smásögum Oddnýjar Guðmundsdóttur nefnist "Konan í dalnum" og birtist fyrst í safnritinu Pennaslóðir ( 1959) en var endurbirt í stórbókinni Sögur íslenskra kvenna 1879-1960 (1987). Þetta er stutt, áhrifarík saga af uppreisn fátækrar móður. Um leið má sjá söguna sem uppreisn gegn - eða umsnúning á - tveimur kvæða Jónasar Hallgrímssonar. Aðalpersóna sögunnar er móðir sem á ekki mat handa börnum sínum en er svo heppin að rjúpa villist inn til hennar og þrátt fyrir hávær mótmæli barnanna, sem vorkenna rjúpunni, drepur hún hana og matreiðir fyrir börnin. Við fáum einnig að vita að konan hefur stolið mat handa börnunum þegar verst áraði, frá ríku fólki sem borgaði henni smánarlegt kaup fyrir vinnu. Uppreisn konunnar er í því fólgin að hún neitar að taka á sig sektarkennd fyrir þessa verknaði sína og er í raun sannfærð um að Guð sé á hennar bandi.

Auðvelt er að sjá þessa sögu sem útleggingu Oddnýjar á kvæðunum "Óhræsinu" og "Móðurást" eftir Jónas Hallgrímsson. Í fyrrnefnda ljóðinu er af mikill samúð ort um rjúpu sem flýr undan óhræsis fálka en tekst ekki betur til en svo að hún lendir í höndum óhræsis manneskju. Oddný tekur málstað manneskjunnar sem hjá henni er fátæk, barnmörg ekkja í matarnauð. Eins og sjá má sækir Oddný titil sögunnar í næstsíðasta erindi kvæðisins, en hér eru tvö síðustu erindi kvæðisins:

 

Mædd á manna besta
miskunn loks hún flaug,
inn um gluggann gesta
guðs í nafni smaug
- úti garmar geltu,
gólið hrein í valnum –
kastar hún sér í keltu
konunnar í dalnum.
 
Gæðakonan góða
grípur fegin við
dýri dauðamóða –
dregur háls úr lið;
plokkar, pils upp brýtur,
pott á hlóðir setur,
segir happ þeim hlýtur,
og horaða rjúpu étur.

 

Kvæði Jónasar, "Móðurást" kemur beinlínis við sögu í texta Oddnýjar, í samtali á milli móður og sonar. Í ljóðinu sem hefst á hendingunni, "Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel", lætur móðir lífið fyrir barn sitt. Hún verður úti í hríðarbyl og frosti en bjargar barninu því hún skýlir því með líkama sínum, innanklæða. Í sögu Oddnýjar er greinilegt að móðirin er tilbúin til að berjast með krafti og klóm fyrir börnum sínum og gerðir hennar stjórnast af móðurást, þó einhverjir væru tilbúnir til að sjá hana sem "óhræsi" vegna gjörða hennar. Í þessari smásögu tekur höfundur sér stöðu með smælingjunum en það gerir Oddný Guðmundsdóttir í öllum sínum verkum.

 

Heimildir:

Dagný Kristjánsdóttir, "Árin eftir seinna stríð." VII kafli í Íslenskri bókmenntasögu IV. Reykjavík: Mál og menning, 2006.

Soffía Auður Birgisdóttir, "Skyldan og sköpunarþráin." Eftirmáli við Sögur íslenskra kvenna 1879-1960. Reykjavík: Mál og menning, 1987.