SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 9. október 2019

VÆNDI OG VESEN - Um Andstæður

Andstæður heitir áhugaverð bók sem út kom 2018. Höfundurinn er Guðrún Sigríður Sæmundsen, f. 1982, og er þetta önnur skáldsaga hennar. Andstæður er spennandi og áhrifamikil samtímasaga sem byggir á mikilli rannsóknarvinnu. Í bókinni segir frá Rebekku sem lifir í eins konar búbblu í Brussel með Gunnari, sæta karlinum sínum, en þegar hann heldur fram hjá með vinnufélaga og gamnar sér að auki með vændiskonu kárnar gamanið.

Í bókinni er fjallað um vændi frá gagnrýnu sjónarhorni og byggt er á gögnum og vitnisburði fyrrverandi vændiskvenna. Meðal gagna eru skýrsla frá Evrópuþinginu um reynslu af lögleiðingu vændis, gögn sem Stígamót hafa safnað og vitnisburður hinnar hollensku Mirjam van Twuijver sem hefur mikla innsýn í undirheimana. Mirjam fékk 8 ára dóm fyrir fíkniefnainnflutning en hún hafði verið burðardýr.

„Í bókinni eru skelfilegar lýsingar á hlutskipti vændiskvenna og því ofbeldi sem þær eru beittar. Ýmsar tegundir vændis eru skoðaðar sem og bakgrunnur vændiskvenna. Meðal skelfilegra lýsinga í bókinni er sena úr svokölluðu nauðgunarpartý. Þar safnast saman 20 karlmenn, flestir giftir, og hafa mök við eina vændiskonu ásamt því að niðurlægja hana með ýmsum hætti. Stór hluti mannanna virðist staddur í aðstæðum sem þeir höfðu ekki séð fyrir en sumir þeirra blekkja sig með þeirri hugsun að konan vilji þetta. Aðrir virðast ekki ráða við þá fýsn eftir valdi yfir annarri manneskju sem blossar upp í þeim við þessar aðstæður“ (DV, 24.11.2018).

Sannarlega áhugaverð bók.

 

 

Tengt efni