SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn11. apríl 2020

SKRÁ YFIR SJÁLFSÆVISÖGUR ÍSLENSKRA KVENNA

Gunnur Inga Einarsdóttir bókasafnsfræðingur tók saman skrá yfir sjálfsævisögur íslenskra kvenna árið 2011. Bókaskráin er meginuppistaðan í lokaverkefni hennar til BA gráðu í bókasafns- og upplýsingafræði við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Áslaug Agnarsdóttir.

Bókaskráin nær fram til ársins 2010 og er þannig uppbyggð að fyrst er birt bókfræðileg færsla um bókina og síðan fylgir ítarleg umsögn um hana. Bókaskráin geymir samtals 75 bækur og er gengið út frá þeirri skilgreiningu á sjálfsævisögu að þar skrifi höfundur um sjálfan sig. Þá dregur Gunnur Inga ennfremur mörkin við heilar bækur, þ.e. ekki styttri kafla eða sjálfsæviþætti.

Gunnur Inga gaf Skáld.is góðfúslegt leyfi til að birta lokaverkefni hennar og er mikill fengur að því. Bókaskráin er birt hér fyrir neðan og ritgerðina, sem geymir fleiri skrár, má nálgast hér.

Bókaskrá - sjálfsævisögur íslenskra kvenna fram til 2010

1. Alda Sveinsdóttir (2008). Kona í forgrunni: Vegferð í lífi og list, 100 bls., myndir. Reykjavík: Alda Ármanna.

Alda Sveinsdóttir fæddist árið 1936 að Barðsnesi við Norðfjörð. Höfundur bókarinnar er myndlistamaður og kennari en í þessari bók segir Alda aðallega frá lífi sínu og fjallar bæði um myndlistina og kennsluna. Í fyrsta kafla bókarinnar segir hún frá tilurð nafnsins Ármanna en hún hét fullu nafni Alda Ármanna Sveinsdóttir. Áður en Alda kom í heiminn var tvisvar vitjað nafns hjá foreldrum hennar í draumi og var það Ármann fyrri ábúandi að Barðsnesi sem drukknaði í brimlendungu við Barðsnes. Höfundur segir meðal annars frá skólagöngu sinni, dauða föður síns, þegar hún stofnaði fjölskyldu, kennslu í sérskólum og vinnu á geðdeild barna. Í sambandi við myndlistina segir hún frá myndlistafélaginu í Neskaupstað, myndlist fatlaðra, samstarfi við myndlistamenn og frá kvennaþinginu Nordisk Forum. Aftast í bókinni er verkaskrá, skrá yfir einkasýningar og samsýningar, skrá um verk í opinberri eigu og skrá um námsferil. Einnig prýða bókina myndir eftir Öldu. Efnisyfirlit er í bókinni.

2. Anna Borg (1965). Endurminningar og bréf með skýringum eftir Paul Reumert, 128 bls., myndir (Árni Guðnason þýddi). Reykjavík: Skuggsjá.

Anna Borg var fædd árið 1903. Í bókinni eru bréf Önnu Borg sem hún skrifaði frá Danmörku til Íslands og eru það aðallega bréf sem Anna skrifaði föður sínum. Paul Reumert eiginmaður Önnu Borg tók saman efnið í bókina eftir að Anna var látin. Hann skrifar formála og eftirmála og einnig stuttar greinar sem eru felldar inn í bókina til skýringar og gefa gleggri mynd af persónunni Önnu Borg. Bókin kom upphaflega út á dönsku árið 1964 og er titill hennar á frummáli Anna Borgs erindringer. Í bókinni kemur fram að Anna var sterkur persónuleiki, lítillát en metnaðarfull leikkona og hún vann hvern leiksigurinn á fætur öðrum. Hún varð ein virtasta leikkona Danmerkur og Norðurlanda. Paul Reumert eiginmaður Önnu var danskur og mikils metinn leikari í Danmörku og áttu þau tvo syni. Anna Borg lét lífið í flugslysi árið 1963 langt fyrir aldur fram. Þegar bókin kom út fékk hún mjög góða dóma á Íslandi og í Danmörku.

3. Anna frá Moldnúpi (duln. f. Önnu Jónsdóttur). (1950). Fjósakona fer út í heim, 456 bls. Reykjavík: Höfundur.

Anna frá Moldnúpi var fædd árið 1901 og lést árið 1979. Þessi bók Önnu frá Moldnúpi var gefin út árið 1950 og er ein þekktasta bók hennar og var hún þýdd á ensku árið 2010 undir titlinum A dairymaid travels the world. Anna frá Moldnúpi var mikil ferðakona. Hún ferðaðist um Ísland, Evrópu og Ameríku og skrifaði bækur um ferðalög sín. Þessi bók var sú fyrsta sem hún ritaði og segir frá fyrstu ferðalögum hennar. Hún byrjar á að fara hringferð um Ísland árið 1946 með skipi á tíu dögum. Síðan fór hún árið eftir með skipi til Danmerkur og dvaldi þar nokkra mánuði. Að lokum fór hún árið 1948 til Englands og meginlands Evrópu og dvaldi þar einnig í nokkra mánuði. Í ritdómi eftir Helga Sæmundsson í Alþýðublaðinu árið 1950 segir hann að Anna skrifi á lipru máli, segi mjög skemmtilega frá og að frásagnargleði hennar sé mikil. Í bókinni er efnisyfirlit.

4. Anna frá Moldnúpi (duln. f. Önnu Jónsdóttur). (1952). Förukona í París, 179 bls., myndir. Reykjavík: Höfundur.

Í viðtali í Morgunblaðinu árið 1998 við Sigþrúði Gunnarsdóttur segir hún að Anna líkt og margar konur afsaki sig í bókinni fyrir að vera að skrifa um sjálfan sig. Það er eins og þessar konur sem eru á jaðri samfélagsins finnist þær sjálfar ekki nógu áhugaverðar til að þess að fjallað sé um þær. Í formála bókarinnar eftir Önnu sjálfa kemur fram að tilgangur hennar með bókaútgáfum þessum sé að veita alþýðukonum, eins og henni, sem hafi aldrei haft tök á því að ferðast erlendis innsýn í ferðalög hennar til fjarlægra landa. Einnig að Anna hafði orðið vör við að fyrri bókin hafi náð tilgangi sínum og þess vegna hún réðist hún í að skrifa þessa bók. Í þessari bók fær Anna heimboð frá gömlum heiðursvinkonum sínum suður á hina Hvíteyju Englands. Þaðan fer hún til Parísar þar sem hún skoðar söfn og kirkjur. Þetta var í annað skiptið sem hún kom til Parísar og í þetta skiptið dvaldi hún þar í fimm vikur.

5. Anna frá Moldnúpi (duln. f. Önnu Jónsdóttur). (1954). Ást og demantar: Ferðasaga um meginlandið til Bretlands 1951: Litla stúlkan frá hrunda húsinu, kafli úr Parísarferð 1952, 186 bls., myndir. Reykjavík: Höfundur.

Í formála bókarinnar sem Anna skrifar kemur fram að þetta verði síðasta bókin sem hún ætli að skrifa en raunin varð önnur því hún átti eftir að skrifa tvær ferðabækur til viðbótar. Þetta er ferðasaga Önnu um Bretland árið 1951 og kafli úr Parísarferð hennar árið 1952 fylgir. Anna tók á sig krók og kom við í Kaupmannahöfn en þá var hún að efna loforð við systur sína um að hún skyldi sýna henni þennan forna höfuðstað Íslands. Hún segir frá spaugilegum samskiptum sínum við Jón Helgason prófessor í Árnasafni í Kaupmannahöfn. Þar há þau einvígi út af Guðspjöllunum sem endar á því að Anna rekur sjálfan prófessorinn á gat.

6. Anna frá Moldnúpi (duln. f. Önnu Jónsdóttur). (1961). Ég kveikti á kerti mínu: Ferðaþættir frá Ítalíu, 308 bls. Reykjavík: Höfundur.

Í þessari bók segir Anna frá ferðalagi sínu til Ítalíu þar sem hún heimsótti borgina eilífu Róm og marga merka staði aðra. Hún fór í Vatíkanið á fund páfa. Anna gekk á Via Appia Antica og skoðaði ýmsar smærri kirkjur í Róm. Einnig gerði hún sér ferð til Napólí. Í Alþýðublaðinu árið 1961 gagnrýnir Sigurður Einarsson í Holti Önnu fyrir að nota útlenskar slettur í skrifum sínum. Einnig finnst honum að henni hafi ekki farið fram í frásagnarlistinni og segir að prófarkalestur og réttritun sé ábótavant. Samt sem áður segir hann að fólk muni trúlega hafa gaman af að lesa bókina og að í henni sé heilmikill fróðleikur. Einnig kemur fram hjá Sigurði að Anna taki sérstaklega vel eftir öllu sem á vegi hennar verður. Í bókinni er efnisyfirlit.

7. Anna frá Moldnúpi (duln. f. Önnu Jónsdóttur). (1970). Tvennar tíðir, 153 bls. Reykjavík: Höfundur.

Þetta er sjötta bók Önnu frá Moldnúpi með ferðaþáttum innanlands og utan. Bókin byrjar á mjög fallegum vísum sem heita Tvennar tíðir eftir Önnu þar sem hún fer yfir ævi sína og lítur til baka með æðruleysi og segist sátt við það að verða gömul.

Anna hafði lengi haft þann draum að ganga á Helgafell á Vesturlandi og í þessari bók segir hún frá því hvernig hún lét þann draum rætast. Síðan liggur leið hennar til Ameríku og þar segir hún frá skemmtilegum upplifunum. Þessi bók varð síðasta ferðabók Önnu frá Moldnúpi.

8. Arnfríður Sigurgeirsdóttir. (1952). Séð að heiman: Ævisöguþættir, minni og ljóð, 219 bls. Akureyri: Bókaútgáfan Norðri.

Arnfríður Sigurgeirsdóttir frá Skútustöðum í Þingeyjarsýslu var fædd árið 1880 og lést árið 1954. Bókin skiptist í formála, ævisögur og þætti, ljóð og eftirmála. Arnfríður tileinkar eiginmanni sínum Þorláki Jónssyni frá Helluvaði bókina. Í formála segir hún að fleiri og fleiri Íslendingar séu farnir að fljúga út í heim og gista fjarlægar álfur. Hún spyr hvað sé í hættu í íslenskri menningu þegar erlendra áhrifa gæti? Og hvað sjáist að heiman? Arnfríður segir að bókin svari þessum spurningum. Í formála skrifar Karl Kristjánsson um Arnfríði og verk hennar.

Í bókinni byrjar Arnfríður á að fjalla um bernsku sína og rekur síðan ættir fólks. Sá kafli heitir „Ævisöguþættir og minni“. Eftir það koma ljóðin hennar og skiptir hún þeim í þrjá flokka eftir tímabilum. Hér eru eftirmála ljóð um eiginmann hennar, son og vini, einnig ljóð um árstíðirnar, náttúru Íslands, vögguljóð og fleira. Í eftirmála þakkar hún öllum sem studdu hana og hvöttu við útgáfu bókarinnar. Hún afsakar þetta ófullkomna verk eins og hún kallar bók sína. Einnig segist hún skrifa og semja ljóð sér til hugarléttis en ekki til að verða fræg. Í bókinni eru tvær myndir önnur af henni við skriftir og hin af eiginmanni hennar.

9. Arnheiður Sigurðardóttir. (1997). Mærin á menntabraut: Skyggnst um öxl: Endurminningar, 256 bls., myndir. Reykjavík: Fjölva útgáfa.

Arnheiður Sigurðardóttir var fædd árið 1921 og lést árið 2001. Hún var fyrsta konan með meistarapróf í íslenskum fræðum. Arnheiður þykir hafa verið mjög góður þýðandi. Hún þýddi meðal annars höfunda eins og Karen Blixen og Sigrid Undset. Í bókinni lýsir hún ævi sinni sem fátæk stúlka að norðan sem hafði yndi af skáldskap og bókmenntum.

Hún kynntist Halldóri Laxness og hann sagði henni að hún væri fyrirmynd hans að Uglu í Atómstöðinni. Á miðjum aldri varð hún alvarlega veik og missti andlegt jafnvægi. Eftir það var gengið framhjá henni í samfélaginu og hún skilin eftir í fátækt. Í bókinni er ritaskrá Arnheiðar sem inniheldur frumsamdar ritgerðir, fyrirlestra, upplestra og fleira. Einnig er nafnaskrá í bókinni. Bókinni er skipt upp í þætti en ekki kafla og er efnisyfirlit í bókinni.

10. Bríet Héðinsdóttir. (1988). Strá í hreiðrið: Bók um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur byggð á bréfum hennar, 350 bls., myndir. Reykjavík: Svart á hvítu.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir var fædd árið 1856 og lést árið 1940. Bókin er byggð upp á bréfum hennar og manns hennar, Valdimars Ásmundssonar ritstjóra, og svo barna þeirra Héðins og Laufeyjar. Sonardóttir Bríetar og nafna valdi úr bréfunum og bjó þau til prentunar. Bókin fjallar um ævi kvenréttindakonunnar Bríetar frá barnæsku til loka. Þetta er einnig saga íslenskrar kvennahreyfingar fram yfir 1930 og segja má að bókin sé blanda af sagnfræði og fagurbókmenntum. Frásögn Bríetar er lifandi túlkun á persónum og atburðum liðinna tíma.

Í Morgunblaðinu árið 1988 segir Erlendur Jónsson að bókin sé fjölskyldusaga þó hún lýsi vel baráttukonunni Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Hann segir einnig að nafnið á fyrsta kafla bókarinnar Fortíðin í ruslapoka lýsi vel hve lítil rækt var lögð við minningu ömmu Bríetar Héðinsdóttur. Í síðasta kaflanum Amma lýsir Bríet Héðinsdóttir hvernig hún man eftir baráttukonunni ömmu sinni. Í bókinni er efnisyfirlit, heimildaskrá, athugasemdir og skýringar og nafnaskrá.

11. Bryndís Schram. (2008). Í sól og skugga, 326 bls., myndir. Reykjavík: JPV útgáfa .

Bryndís Schram er fædd árið 1938. Í formála segir að hún hafi alltaf haft þörf fyrir að skrifa og að þessi sjálfsævisaga spanni ævi hennar eftir fimmtugt og að hún skrifi um það sem fyrir augu hennar hafi borðið á þessum besta kafla ævi hennar. Í bókinni fjallar Bryndís um ævi sína sem ballerína, fegurðardrottning, leikkona, lífskúnstner, blaðamaður og ritstjóri. Í fyrri hluta bókarinnar segir Bryndís frá því hvernig hún upplifði tilgerðalegar veislur ríka fólksins þegar hún var sendiherrafrú í Washington. Síðan frá dvöl sinni í Finnlandi og hvað Finnar eru ólíkir Bandaríkjamönnum. Bókin endar á að lýsa dvöl hennar og fjölskyldu hennar í Andalúsíu á Spáni. Hún hefur flakkað heimshorna á milli sem eiginkona eins umdeildasta stjórnmálamanns þjóðarinnar Jóns Baldvins Hannibalssonar og verið í hringiðju stjórnmála heima og erlendis. Bryndís lýsir iðandi mannlífi í Bandaríkjunum, Kanada, Suður-Ameríku, Finnlandi, Eystrasaltslöndunum, Suður-Evrópu og Andalúsíu en þar lauk hún við að skrifa þessa bók. Í bókinni er efnisyfirlit og nafnaskrá.

12. Brynja Benediktsdóttir. (1994). Brynja og Erlingur fyrir opnum tjöldum: Brynja Benediktsdóttir, Erlingur Gíslason, Ingunn Þóra Magnúsdóttir, 287 bls., myndir. Reykjavík: Mál og menning.

Brynja Benediktsdóttir var fædd árið 1938 og lést árið 2008. Erlingur Gíslason var fæddur árið 1933. Brynja Benediktsdóttir og Erlingur Gíslason voru svipmiklar persónur um áratuga skeið, og störfuðu bæði sem leikarar og leikstjórar. Þau skrifuðu bókina í samvinnu við Ingunni Þóru Magnúsdóttur. Eins og titillinn gefur til kynna eru þau opinská í bókinni. Þau segja frá Ínúk ævintýrinu, leikfélaginu Grímu og frá sigrum og ósigrum jafnt í leikhúsinu sem í einkalífi. Sagt er frá uppfærslu á Hárinu, kynni af Dario Fo og Vaclav Havel og mörgum samtíðarmönnum. Einnig segja þau frá viðburðaríku lífi sínu utan leikhússins. Brynja og Erlingur byrja á að segja frá æsku sinni að góðum og gegnum íslenskum sið. Í bókinni kemst vel til skila hvað þau eru ólíkar persónur og ólíkir listamenn. Í bókinni er efnisyfirlit, verkefnaskrá, nafnaskrá og leiksýnigaskrá.

13. Elín Pálmadóttir. (2003). Eins og ég man það, 431 bls., myndir. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Elín Pálmadóttir var fædd árið 1927. Í formála þessarar bókar segir Elín Pálmadóttir að í bókinni sé ekki nema brot af þeim hafsjó minninga sem koma fram í huga hennar en æviskeið hennar spanni þrjá fjórðu af nýliðinni öld. Í bókinni segir Elín frá Skuggahverfinu í Reykjavík þar sem hún ólst upp í. Ung fékk hún tækifæri til að starfa með Sameinuðu þjóðunum í New York í árdaga samtakanna. Í New York upplifði hún það að drekka te með fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna. Elín bjó í París á sjötta áratugnum og kynntist frönsku listalífi með Gerði Helgadóttur myndhöggvara. Hún byrjaði að starfa við blaðamennsku á Vikunni og þar lenti hún í slagtogi með heimspressunni í kynnisferð fyrir blaðamenn sem Nato stóð fyrir til Danmerkur og Noregs. Lengst af var Elín blaðamaður á Morgunblaðinu þar sem hún lenti í ýmsum svaðilförum við fréttaöflun bæði innanlands og erlendis. Meðal annars gisti Elín flóttamannaeyju í Asíu og varð bensínlaus í afskekktum skógi í Afríku. Hún segir frá reynslu sinni í pólitíkinni á Íslandi. Í bókinni er efnisyfirlit og myndahöfundaskrá.

14. Erla Bolladóttir. (2008). Erla, góða Erla, 437 bls., myndir. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Þessi bók er sjálfsævisaga Erlu Bolladóttir og uppgjör hennar við fyrra líferni. Höfundur segir frá uppvexti sínum, bakgrunni og aðdragandann að aðild hennar að Guðmundar og Geirfinnsmálinu sem er óupplýst sakamál frá 1978. Hún segir frá því hvernig hún ánetjaðist fíkniefnum eftir langa dvöl í fangelsi og síðan hvernig hún öðlaðist frið í trúnni, hjálparstörfum og maraþonhlaupum. Bókina tileinkar Erla dætrum sínum þremur þar sem hún segir: „Ég á mér þá ósk að þeirra bíði samfélag sem beri gæfu til að þroska með sér skilning á merkingu hugtaksins réttlæti.“

15. Eufemia Waage. (1949). Lifað og leikið: Minningar, 239 bls., myndir og teikningar. Reykjavík: Bókfellsútgáfan h.f.

Eufemia Waage var fædd árið 1881 og lést árið 1960. Hún var dóttir Indriða Einarssonar. Eufemia segir frá bernskuárum sínum og lýsir miðbæ Reykjavíkur á þeim slóðum þar sem hún fæddist. Í bókinni kemur hún víða við, til dæmis segir hún frá embættismönnum og öðrum þekktum mönnum, skemmtunum Reykvíkinga fyrir aldamótin, störfum pabba síns í þágu leiklistar og bindindis, aldamótunum og konungskomunni árið 1907. Hún segir frá sínum fyrstu hjúskaparárum en Eufemia var gift Jens Waage. Eins talar hún um leiklistina í lífi sínu og fjallar um frostaveturinn mikla árið 1918, Kötlugosið og Spænsku veikina. Í bókinni er efnisyfirlit.

16. Eva Hjálmarsdóttir. (1948). Paradís bernsku minnar og fleiri sögur, 169 bls., myndir. Akureyri: Bókaútgáfan Norðri.

Eva Hjálmarsdóttir var fædd árið 1905 og lést árið 1962. Bókin Paradís bernsku minnar og fleiri sögur er barnabók og þar segir Eva frá bernsku sinni austur í Loðmundarfirði. Eva helgar minningu Laufeyjar systur sinnar þessa bók. Eva segir frá því í formála að hún hafði lesið ævisögu Friðrik Friðrikssonar og uppgötvað að hún hafi séð hann sem „sýn“ í gömlu stofunni heima. Hún segir frá hestunum á bænum sínum og minnist Laufeyjar systur sinnar. Síðan segir hún frá Símoni Dalaskáldi og jólunum hans Leifs litla. Í formála segir Eva að kaflarnir Ráðskona Malakoffs og Í fyrsta skipti hafi átt að gerast árið 1912 en þá er hún að blanda gömlum ævintýrum inn í endurminningar sínar. Í bókinni eru þulur, kvæði, gátur og leikir sem amma hennar kenndi henni. Bókin er með efnisyfirliti.

17. Franzisca Gunnarsdóttir. (1987). Vandratað í veröldinni, 138 bls. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Franzisca Gunnarsdóttir var fæddi árið 1942 og lést árið 2004. Franzisca Gunnarsdóttir var dóttir Gunnars Gunnarssonar skálds og í þessari bók fjallar hún um æskuárin hjá Gunnari afa sínum og Franziscu ömmu sinni á Skriðuklaustri í Fljótsdal í Múlasýslu en þar bjó Franzisca með foreldrum sínum. Í bókinni segir hún meðal annars frá Lagarfljótsorminum, fólkinu sínu í móðurætt og haustréttum. Í fréttatilkynningu í Morgunblaðinu árið 1989 þar sem sagt er frá útkomu bókarinnar í Svíþjóð segist Franzisca hafa skrifað bókina fyrir son sinn Gunnar Björn Gunnarsson því hún vildi koma til hans þeim þáttum sem höfðu mótað lífsviðhorf hennar. Lesendur sjá Gunnar Gunnarsson rithöfund í nýju ljósi í bókinni. Bókin kom einnig út í Svíþjóð árið 1990 undir titlinum Havregröt och livslyca: barndom på sagön. Á bókarkápu er mynd af Franziscu lítilli ásamt foreldrum hennar og af Gunnari Gunnarsyni afa hennar. Í bókinni er efnisyfirlit.

18. Freyja Haraldsdóttir. (2007). Postulín, 246 bls.,myndir. Reykjavík: Salka.

Freyja Haraldsdóttir fæddist árið 1986. Í þessari bók segir Freyja sem er fjölfötluð ung kona frá því hvernig er hægt að sætta sig við þessa miklu fötlun og hverju er hægt að áorka ef ákveðni og jákvæð hugsun er til staðar. Hún fæddist með alvarlegan genagalla sem veldur beinstökkva og eru beinin brothætt eins og postulín. Hún segir meðal annars í bókinni að hún sé manneskja en ekki fötlun. Alma Guðmundsdóttir stuðningsfulltrúi Freyju aðstoðaði hana við að skrifa bókina og hún skrifar einnig eftirmála í bókina.

19. Grønbech, Grete Linck. (1979). Árin okkar Gunnlaugs,199 bls., myndir, teikningar. (Jóhanna Þráinsdóttir þýddi). Reykjavík: Almenna bókafélagið.

Grete Linck Grøbech lést árið 1992. Í bókinni segir Grete, sem var danskur listmálari, frá því hvernig hún kynntist eiginmanni sínum Gunnlaugi Scheving listmálara í Hinni konunglegu listaakademíu í Kaupmannahöfn þar sem þau voru við nám á árunum 1928-1931. Þau fluttust til Íslands og settust að á Seyðisfirði, heimabæ Gunnlaugs, þar sem þau unnu að list sinni til ársins 1936 að þau fluttu til Reykjavíkur. Í fyrstu köflum bókarinnar lýsir Grete lífinu í listaakademíunni. En meginhluti bókarinnar er lýsing á Íslendingum á kreppuárunum, lífi þeirra og lifnaðarháttum eins og þeir komu Grete fyrir sjónir en hún var alin upp í formfestu danskrar millistéttar. Margir Íslendingar sem eru látnir koma við sögu í bókinni. Árið 1938 fór Grete til Danmerkur til nokkra mánaða dvalar með fjölskyldu sinni en snéri ekki aftur til Íslands og sáust þau Gunnlaugur ekki eftir það. Teikningar í bókinni eru eftir Grete og Gunnlaug. Í bókinni er eftirmáli þýðanda og skrá yfir norræna listamenn sem nefndir eru í bókinni. Efnisyfirlit er í bókinni.

20. Guðbjörg Jónsdóttir frá Broddanesi. (1929). Minningar frá bernsku og æskuárum, 83 bls. Reykjavík: Prentsmiðjan Gutenberg.

Guðbjörg Jónsdóttir frá Broddanesi var fædd árið 1871 og lést árið 1952. Bókin fjallar um æskuár Guðrúnar Jónsdóttur á Broddanesi í Strandasýslu og geymir fróðleik um þjóhætti og líf fólks í sveitum í lok 19. aldar á Íslandi. Í bókinni talar Guðbjörg meðal annars um forelda sína, að þau hafi veri góð við fátækt fólk og börn sem dvöldu hjá þeim einnig að þau hafi verið með eindæmum hjúasæl. Hún segir frá því þegar Þorsteinn bróðir hennar og fleira fólk drukknaði í desember árið 1877 og lýsir sorginni sem hún og fólkið hennar upplifði. Í bókinni eru tvær stökur eftir Jón Þórðarson skáld.

21. Guðbjörg Jónsdóttir frá Broddanesi. (1943). Gamlar glæður: Þættir úr daglegur lífi á Ströndum á síðari hluta 19. aldar, 282 bls. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja h.f.

Guðbjörg tileinkar bókina Tryggva Þórhallssyni fræðimanni. Í formála segir Guðrún að henni sé ljúft að fræða börn og unglinga um það hvernig umhorfs var á æskudögum hennar á seinni hluta 19. aldar. Flestir kaflarnir í bókinni segja frá ættingjum, vinum og sveitungum. Í einum kaflanum segir hún frá slysi þegar Þorsteinn bróðir hennar og fleira fólk drukknar. Hún fjallar um kaupstaðaferðir, brúðkaupsveislur, jólin, skemmtanir og bókalestur og heimilishætti. Einnig er einn kaflinn um Helga fróða og aðra gesti. Helgi Hjörvar bjó bókina til prentunnar og skrifar eftirmála í bókina. Efnisyfirlit er í bókinni.

22. Guðbjörg Jónsdóttir frá Broddanesi. (1952). Við sólarlag, 208 bls., Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja h.f.

Í formála bókarinnar sem Torfi Guðbrandsson ritaði kemur fram að þegar Guðbjörg samdi þessa bók var hún orðin rúmlega áttræð og blind. Áður höfðu komið út tvær bækur eftir Guðbjörgu. Einnig kemur fram í formála að þessi bók átti sér fáar hliðstæður í íslenskum ritverkum, hvað orðalag snerti og að Guðbjörg hafi ekki þurft á þjálfuðum rithöfundi að halda til þess að færa í stílinn. Torfi Guðbrandsson skrifaði niður eftir minni Guðbjargar en hann var farkennari í sveitinni hennar. Í bókinni er samtíningur um menn og málefni og gamla þjóðhætti frá æskuárum Guðbjargar. Frásögn Guðbjargar er mjög persónuleg. Tveir eftirmálar eru í bókinni, báðir eftir Helga Hjörvar en hann bjó bókina til prentunar. Þar segir Helgi að hann láti orðalag Guðbjargar algjörlega halda sér þar sem frásagnarstíll höfundar er tær og með látlausu alþýðumáli. Hann raðaði niður köflunum og stytti suma þeirra. Fremst í bókinni er ljósmynd af Guðbjörgu ungri.

23. Guðný Jónsdóttir frá Galtafelli. (1973). Bernskudagar, 120 bls., myndir, teikningar. Reykjavík: Helgafell.

Guðný Jónsdóttir var fædd árið 1878 og lést árið 1975. Þegar Guðný skrifaði þessa bók var hún orðin níutíu og fimm ára gömul. Í bókinni eru bernskuminningar frá heimili hennar að Galtalæk en það var mikið menningarheimili. Hún segir frá híbýlum og umhverfi Galtafells og frá leikföngum barna á þessum tíma. Í bókinni eru kaflar um bræður hennar hvern fyrir sig en þeir voru Einar Jónsson myndhöggvari, Bjarni Jónsson forstjóri Nýja Bíós og Jakob Jónsson sem var elstur þeirra systkina. Einnig er kafli um foreldra hennar. Guðný segir meðal annars frá jólum, kvöldvökum, Jónsmessuferð, réttum og frá ferð í Þjórsárdalinn. Í bókinni er mynd af málverki eftir Einar Jónsson bróður Guðnýjar af gamla bænum á Galtafelli.

24. Guðrún Borgfjörð. (1947). Minningar, 209 bls., myndir. (Agnar Kl. Jónsson gaf út). Reykjavík: Hlaðbúð.

Guðrún Borgfjörð fæddist árið 1856 og lést árið 1930. Í formála segir Guðrún að hún hafði verið hvött af bróður sínum Klemens til að skrifa sjálfsævisögu sína því hana hafði skort kjark til að gera það. Eins segir hún að hún hafi ekki unnið nein stórvirki en hún hafi reynt margt á sinni lífsleið sem að jafnaði kemur ekki fyrir fátækar alþýðustúlkur. Í eftirmála sem Agnar Kl. Jónsson, bróðursonur Guðrúnar skrifar, kemur fram að bókin segir frá æsku- og uppvaxtaráum Guðrúnar Borgfjörð á Akureyri og í Reykjavík. Einnig kemur fram í eftirmála að í bókinni er lýsing á heimili Sigurðar Guðmundssonar málara. Guðrún segir frá vanheilsu sinni því að á uppvaxtarárum sínum þjáðist hún af andateppu sem átti eftir að þjaka hana alla ævi. Meðal annars segir hún frá för sinni til Danmerkur til að reyna að fá lækningu sem gagnaði lítið. Hún segir frá Þjóðhátíðinni 1874, bæjarbrag og skemmtunum í Reykjavík og frá mönnum og byggð í Reykjavík. Í bókinni er skýringaskrá eftir Agnar þar sem hann getur um ýmislegt fólk og atburði sem er horfið og gleymt. Einnig er í bókinni nafnaskrá eftir Agnar. Í bókinni er efnisyfirlit.

25. Guðrún Friðfinnsdóttir. (1995). Minningar Guðrúnar Friðfinnsdóttur húsfreyju á Böggviðsstöðum (Valgerður Magnúsdóttir tók saman),37 bls. Akureyri

Guðrún Friðfinnsdóttir var fædd árið 1886 og lést árið 1984. Þetta hefti tók Valgerður Magnúsdóttir barnabarn Guðrúnar saman eftir lát hennar í tilefni af ættamóti sem haldið var í ætt Guðrúnar sumarið 1995. Guðrún fékkst við ritstörf allt fram á níræðisaldur. Þessi litla bók skiptist í fimm aðalkafla með mörgum undirköflum. Guðrún fjallar meðal annars um búskap á Grund í Þorvaldsdal, búskaparhætti á þessum tíma, um nágranna í Þorvaldsdal, barnafræðslu og hún lýsir móður sinni og hvernig dauða hennar bar að garði. Síðan talar hún um bernskulok á Böggviðsstöðum, heimilishagi þar, um taugaveiki og um fermingu sína. Að lokum segir hún frá því þegar hún heimsækir Þorvaldsdal aftur. Ein mynd af Guðrúnu er í heftinu og einnig er efnisyfirlit.

26. Guðrún Friðgeirsdóttir. (2002). Norðanstúlka: Bernskusaga, 153 bls., myndir. Reykjavík: Höfundur.

Guðrún Friðgeirsdóttir var fædd árið 1930 og er með meistarapróf í ráðgjafasálfræði. Bókina tileinkar Guðrún börnum sínum og er þetta bernskusaga hennar. Sagan hefst í kreppunni árið 1934 þegar Guðrún er fjögurra ára og flyst til Húsavíkur og endar á sumarlangri dvöl hennar í vist hjá fínu fólki í Reykjavík í lok síðari heimsstyrjaldar. Hún segir frá uppvexti sínum í Hliðskjálf á Húsavík, sveitastörfum í Kelduhverfi, ógnum stríðsins og þegar hún dvaldi með móður sinni sumarlangt á Hólum í Hjaltadal sumarið 1942. Guðrún segir að árin hennar í Hliðskjálf hafi verið björtustu bernskuár hennar. Guðrún man ekki eftir föður sínum en hann dó rétt áður en hún fluttist til Húsavíkur. Bókin segir frá lífi alþýðufólks á miklu umbrotaskeiði í íslensku þjóðfélagi. Í bókinni er formáli og efnisyfirlit.

27. Guðrún Guðjónsdóttir. (1990). Hús og fólk, 275 bls. Dánarbú Guðrúna Guðjónsdóttur: Reykjavík.

Guðrún Guðjónsdóttir fæddist árið 1903 og lést árið 1989. Guðrún Guðjónsdóttir skrifar í þessari bók um bernsku- og æskustöðvar sínar í Þingholtunum í Reykjavík. Í aðfararorðum höfundar segir hún að í upphafi hafi hún eingöngu ætlað að skrifa um þau hús í Reykjavík sem foreldrar hennar höfðu búið í og um fólkið sem bjó í þeim húsum. En síðan breiddi frásögnin úr sér og áður en hún vissi af var hún farin að skrifa um fólk sem hún þekkti minna. Guðrún byrjar á að fjalla um foreldra sína og rekur ættir þeirra. Síðan segir hún frá fólkinu í húsunum og rekur um leið ættir þess. Hún segir meðal annars frá vinnustað sínum í Reykjavík og frá fólkinu sem hún vann með. Hún segir frá leikjum og húsgögnum á æskuárum sínum. Í bókinni er formáli sem Hreggviður Stefánsson, sonur Guðrúnar skrifar. Efnisyfirlit er í bókinni.

28. Guðrún Guðmundsdóttir frá Melgerði. (1962). Endurskin, 15, [1] bls. Reykjavík: Prentsmiðja Jóns Helgasonar.

Guðrún Guðmundsdóttir var fædd árið 1889 og lést árið 1982. Bókin heitir Endurskin eins og eitt ljóðanna sem Guðrún samdi og er í bókinni. Guðrún byrjar á að segja frá því í fyrsta kaflanum þegar hún var mikið veik á sjúkrahúsi og maðurinn hennar veiktist og dó. Í ljós kemur að Guðrún er mjög trúuð og hún notar trúna til að takast á við sorgina. Í þessari litlu bók eru nokkur ljóð eftir Guðrúnu og er trúin aðalyrkisefnið. Einnig fjallar hún um smáfuglana sína og um hvað lífið sé gott.

29. Guðrún Guðmundsdóttir. (1975). Minningar úr Hornafirði, með skýringargreinum og bókarauka eftir Vilmund Jónsson landlækni, 170 bls., myndir. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Guðrún Guðmundsdóttir var fædd árið 1863 og lést árið 1946. Bókin skiptist í tvo aðalkafla Bernskuminningar úr Hornafirði og Hornfiskar sagnir. Í kaflanum Bernskuminningar úr Hornafirði fjallar Guðrún meðal annars um ættir foreldar sinna, húsakynni, veiðiskap, garðrækt, hjú og heimilisstörf og bræðralát. Kaflinn Hornfiskar sagnir hefur að geyma 60 sagnir frá Hornafirði. Í formála segir Vilmundur Jónsson landlæknir sonur Guðrúnar að ef hann hefði gefið sér betri tíma til að hvetja móður sína við upprifjun á þessum minningum hefði hún léttilega geta skráð 300 slíkar sagnir. Einnig segir Vilmundur frá sérkennilegum talshætti og orðskviði móður sinnar. Meðal sagna í bók Guðrúnar eru til dæmis Húslestur í fjósbaðstofu, Steinn á Stokknesi og Davíð konungur og Rauðsbergs-Rauður. Í bókinni eru tveir frásöguhættir Maddama Guðný og Flust búferlum úr Hornafirði til Seyðisfjarðar vorið 1890. Einnig er í bókinni örnafnauppdráttur af Bjarnaneshverfi og Skóey. Það er nafnaskrá og efnisyfirlit í bókinni. Þórhallur Vilmundarson barnabarn Guðrúnar sá um útgáfu á bókinni.

30. Gunnþórunn Sveinsdóttir frá Mælifellsá. (1957). Gleym-mér-ei: Minningar og ljóð, 112 bls., myndir. Reykjavík: Hersilísa Sveinsdóttir.

Gunnþórunn Sveinsdóttir var fædd árið 1885 og lést árið 1970. Í formálsorðum segir Gunnþórunn að hún sé ekki skólagengin en að hörð lífsbarátta hafi kennt henni margan sannleikann um lífið. Í upphafi bókarinnar fjallar Guðrún um foreldra sína og æskuslóðir. Síðan segir hún frá heimili sínu að Mælifellsá, bernskuleikjum, nágrönnum og veru sinni á Siglufirði sem kaupakona. Hún segir frá því þegar hún festir kaup á gömlu húsi þar sem faðir hennar setti síðan upp verslun sem hún tók svo við eftir hans daga. Inn á milli kaflanna eru vísur eftir Guðrúnu og bókin endar síðan á ljóðum hennar. Efni ljóðanna er fjölbreytt það eru ljóð um meðal annars sumardaginn fyrsta, heyannir, Mælifellshnjúk, foreldra hennar og hestavísur.

31. Gyða Thorlacius. (1947). Endurminningar frú Gyðu Thorlacius frá dvöl hennar á Íslandi 1801-1815 (Sigurjón Jónsson læknir sneri á íslensku). 151 bls., teikningar. Reykjavík: Ísafoldarverksmiðja h.f.

Gyða Thorlacius fæddist árið 1782 og lést árið 1861. Gyða Thorlacius var dönsk og giftist Þórði Thorlacius lögfræðingi sem var hálfíslenskur og síðar sýslumaður í Suður-Múlasýslu. Í þessari bók eru endurminningar Frú Gyðu frá þeim fjórtán árum sem hún bjó á Íslandi. Í formála fyrstu útgáfu bókarinnar árið 1845 segir J. Viktor Bloch að Gyða hafi ritað þessar endurminningar sínar um 1840 eða tuttugu og fimm árum eftir dvöl sína á Íslandi. Einnig kemur fram að í bókinni segi Gyða frá heimilislífi, störfum, gleði og sorgum þeirra hjóna. Hún segir frá tilraun sinni til að rækta grænmeti á Eskifirði og frá prjónaskap sínum. Einnig segir Gyða frá misheppnaðri valdabaráttu Jörundar hundadagakonungs. Síðustu tvö árin þeirra hjóna á Íslandi var Þórður sýslumaður í Árnessýslu. Bókin var gefin fyrst út í Danmörku árið 1930 og er titill bókarinnar á frummáli Fru Gytha Thorlacius’ erindringer fra Island i aarene 1801-1815. Bókin er ekki kaflaskipt en er með mannanafnaaskrá.

32. Halla Guðmundsdóttir Linker. (1987). Uppgjör konu: Endurminningar, 291 bls., myndir. Reykjavík: Iðunn.

Halla Linker var fædd árið 1930. Saga Höllu hefst á því að henni er tilkynnt um lát eiginmanns síns til tuttugu og átta ára Hal Linkers. Í formála segir Halla að Hal hafi verið ráðríkur og stjórnað henni öll þessi ár og að mikið hafi verið um hana skrifað í gegnum árin þar sem yfirborðið kom bara fram. Með þessari sjálfsævisögu segi hún sína sögu eins og hún raunverulega var og dragi ekkert undan. Hún segir frá því hvernig hún þurfti að standa allt í einu ein og óstudd og læra að umgangast karlmenn og kynnast því að verða ástfangin. Eins og Halla sjálf segir er saga hennar engin harmsaga heldur upplifir hún hvert ævintýrið á fætur öðru, til dæmis að umgangast bæði hausaveiðara og Hollywoodleikara. Bókin skiptist í þrjá aðalkafla sem eru Uppvaxtarár Höllu, Hjónabandsár og Þroskaskeið. Í kaflanum Uppvaxtarár segir hún meðal annars frá uppruna sínum, bróður sínum og hernámi. Í kaflanum Hjónabandsár segir hún frá hjónabandi sínu og Hals Linkers, fæðingu sonar þeirra Davíðs og frá fyrirlestrarferðum í Bandaríkjunum. Í kaflanum Þroskaskeið segir hún frá því þegar hún er með þrjá karlmenn í takinu, veiðiferð og veikindum og hvernig hún losnar úr álögum. Í bókinni er efnisyfirlit.

33. Halldóra B. Björnsson. (1955). Eitt er það land, 139 bls., teikningar (Barbara Árnason). Reykjavík: Hlaðbúð.

Halldóra B. Björnsson fæddist árið 1907 og lést árið 1968. Í þessari bók fjallar Halldóra um bernsku- og æskuminningar sínar séðar með augum barnsins. Bókin er kaflaskipt og byrjar á kaflanum Inngangur í nútíð. Síðan koma meðal annars kaflar eins og Í þykjastmannalandi, Bókaramennt, Sköpun heimsins, Afabær og Haustmorgun. Í bókinni er efnisyfirlit.

34. Heba Jónsdóttir. (1989). Sendiherrafrúin segir frá, 294 bls., myndir. Reykjavík: Skjaldborg.

Heba Jónsdóttir var fædd árið 1933 og lést árið 1992. Heba Jónsdóttir var prestsdóttir vestan af fjörðum og þegar hún var barn missti hún föður sinn í sjóslysi. Hún elst upp í Reykjavík og lauk Verslunarskólaprófi og fór svo í framhaldsnám til Sviss. Heba starfaði sem flugfreyja þangað til hún giftist Tómasi Á. Tómassyni sem varð síðar sendiherra. Hún segir frá erfiðu hjónabandi þeirra og árunum þegar hún var sendiherrafrú í París, Moskvu, Brüssel og Reykjavík. Heba fjallar um ótrúlegan heim utanríkisþjónustunnar á Íslandi. Að lokum lýsir hún svæsnum málaferlum í skilnaði þeirra hjóna. Efnisyfirlit er í bókinni.

35. Helga Jónasardóttir frá Hólabaki (1960). Þar sem háir hólar: Fáeinar bernskuminningar, 133 bls. Reykjavík: Leiftur.

Helga Jónasardóttir frá Hólabaki var fædd 1907 og lést 1969. Hún helgar bókina minningu látinnar systur sinnar Ingibjargar Jónasdóttur. Í formála sem Freysteinn Gunnarsson skrifar í bókina segir hann að höfundur fjalli um átthagana, bernskuminningar, viðhorf sitt til dýra, manna og til þeirra sem voru umkomulausir. Helga segir frá skáldunum sem fegurst kváðu eins og Jónasi Hallgrímssyni og Þorsteini Erlingssyni. Fremst í bókinni er mynd af Helgu. Efnisyfirlit er í bókinni.

36. Helga Thorberg (2010). Loksins sexbomba á sextugsaldri, 238 bls., myndir. Reykjavík: Sumarhúsið og garðurinn.

Helga Thorberg er fædd árið 1950. Helga er menntuð leikkona og rak um árabil blómabúð í miðbæ Reykjavíkur. Hún tók sig til árið 2008 og hélt af stað til Dóminíska lýðveldisins. Hún var hér um bil búin að láta kóngulóarfóbíu koma í veg fyrir að hún færi. En hún fór og hennar biðu ótrúleg og spennandi ævintýri. Þar voru allt önnur lífsviðhorf sem hún kunni ekki á. Hún fór í sjálfsskoðun og reyndi að aðlagast þessu nýja samfélagi. Hún upplifði það að hún vakti athygli karlmanna á hverju götuhorni. Helga segir meðal annars frá því þegar hún var á líkvöku, fór í bátsferð og barferð á fjórum fótum, fór í páskamessu og þegar hún eignaðist kærasta. Hún segir frá konum og tísku, hanaslagi, gleðikonum og innmati á snúru, Haíta messu og það að vera kynbomba á sextugsaldri. Efnisyfirlit er í bókinni.

37. Hlín Agnarsdóttir (2003). Að láta lífið rætast: Í minningu Þorvalds Ragnarssonar 1953-1998, 151 bls. Reykjavík: Salka.

Hlín Agnarsdóttir fæddist árið 1953. Í bókinni segir Hlín frá sextán ára sambúð með Þorvaldi Ragnarssyni sem var alkóhólisti. Hún sýnir hvernig líf aðstandandans er og hvernig fíknin smitar út frá sér og brýtur niður aðstandendur. Í bókinni er listi yfir efni, verk og bækur sem skiptu máli á ritunartímanum.

38. Hugrún (duln. f. Filippía Kristjánsdóttir). (1982). Ég læt það bara flakka: Minningabrotfrá árdegi ævi minnar, 144 bls. Reykjavík: Vaka.

Hugrún (duln. f. Filippía Kristjánsdóttir) fæddist árið 1905 og lést árið 1996. Hugrún er skáldkona sem hefur ritað margar bækur. Í þessari bók segir hún frá uppvaxtarárum sínum í Svarfvarðardal og lýsir þjóðlífi og fólki þar í upphafi tuttugustu aldar. Einnig fjallar hún um presta sem geta ekki gleymt, kjálkabrotna kú, heimilishætti og gelgjuskeiðið. Hún segir frá því þegar hún var skotin í Bjössa og þegar hún varð alvarlega ástfangin. Efnisyfirlit er í bókinni.

39. Hulda (duln.f. Unni Benediktsdóttur Bjarklind). (1965). Úr minningablöðum, 128 bls. Reykjavík: Helgafell.

Hulda (duln.f. Unni Benediktsdóttur Bjarklind) fæddist árið 1881 og lést árið 1946. Í forspjalli í bókinni segir Hulda að hún hafi skrifað þessar minningar fyrir áeggjan Benedikts sonar síns. Hún tileinkar eiginmanni og börnum sínum bókina. Einnig segist hún skrifa minningar sínar sér til hugarhægðar en ekki til frægðar. Hulda var þekkt ljóðskáld og í þessari bók fjallar hún meðal annars um fyrstu ljóðin sem hún orti, um hjásetu, fyrstu kaupstaðarferðina og góðu fóstruna. Efnisyfirlit er í bókinni.

40. Hulda Á. Stefánsdóttir. (1985). Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur: 1 Bernska, 218 bls., myndir. Reykjavík: Örn og Örlygur hf.

Hulda Á. Stefánsdóttir fæddist árið 1897 og lést árið 1989. Þessi bók er sú fyrsta af fjórum sjálfsævisögum Huldu. Í inngangsorðum segir Hulda að hún ætli ekki í þessum minningum sínum að segja ævisögu í hefðbundnu formi, heldur er hún að segja frá fólki og atburðum. Hún byggir frásögn sína á gömlum bréfum, ritgerðum og óbirtum kveðskap. Í þessari bók segir Hulda frá uppruna sínum og ætt sinni, foreldrum sínum og bernskudögum í Hörgárdal. Einnig fjallar hún um gamla búskaparhætti, alþýðuna, höfðingja, bændur, heldrimenn, hefðarkonur og Hafnarstúdenta. Það er mikið af þjóðlegum fróðleik í bókinni. Efnisyfirlit er í bókinni.

41. Hulda Á. Stefánsdóttir. (1986). Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur: 2 Æska, 253 bls., myndir. Reykjavík: Örn og Örlygur hf.

Í þessari bók segir Hulda frá æskuárum sínum eða frá því að hún fluttist frá Möðruvöllum til Akureyrar og þangað til hún var tuttugu og sex ára á fyrsta fjórðungi tuttugustu aldarinnar. Hún segir frá því þegar hún bjó í Gagnfræðaskólanum á Akureyri og stundaði þar nám um leið. Síðan átti hún eftir að kenna sjálf í Gangfræðaskólanum. Hulda segir frá þekktum skáldum eins og Ólöfu frá Hlöðum, Tryggva Svörfuði og frá æskuvini sínum Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi. Í bókinni eru fáein kvæði og vísur eftir Ólöfu frá Hlöðum. Einnig segir hún frá ferðum sínum til Danmerkur þar sem hún dvaldi hjá dr. Valtýr Guðmundssyni og var eitt sumar í kvennaskóla í Vordingborg. Það kemur einnig fram að í Kaupmannahöfn var hún innan um lista- og menntamenn. Efnisyfirlit er í bókinni.

42. Hulda Á. Stefánsdóttir. (1987). Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur: 3 Húsfreyja í Húnaþingi, 188 bls., myndir. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Í þessar þriðju sjálfsævisögu Huldu segir hún frá því þegar hún varð húsfreyja á Þingeyrum í Húnaþingi árið 1923. Í bókinni kemur fram að eignmaður hennar Jón S. Pálmason var mikill búnaðarfrömuður og félagsmálamaður og ætlaði sér mikið út úr búskapnum á þessu fallega höfuðbóli en búskaparhættir voru bændum erfiðir á þessum árum. Hulda lýsir fólki í sveitinni sem hún kynntist og heyrði af, til dæmis gömlu Þingeyra-húsfreyjunni Guðrúnu Runólfsdóttur, Ásgeiri kirkjusmið og skrýtnu fólki svo sem Jósefi á Hjallalandi og Litlu Dísu. Hún segir frá börnunum á Þingeyrum, haustkosningum og ráðamönnum og Blönduósi. Í bókinni er efnisyfirlit.

43. Hulda Á. Stefánsdóttir. (1988). Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur: 4 Skólastarf og efri ár, 180 bls., myndir. Reykjavík: Örn og Örlygur.

Hulda skiptir þessu lokabindi sjálfsævisögu sinnar í tvo aðalkafla en þeir eru Tveir skólar og Við gluggann minn. Í fyrri aðalkaflanum fjallar hún um þegar hún var skólastóri Kvennaskólans á Blönduósi og síðan þegar hún var skólastjóri Húsmæðraskólans í Reykjavík í meira en áratug. Einnig fjallar Hulda um fyrstu kvennaskólana og húsmæðraskólana á nítjándu öld og rekur sögu þeirra. Í seinni aðalkaflanum Við gluggann minn lætur hún hugann reika þar sem hún situr við gluggann sinn í Reykjavík orðin gömul kona. Þar segir hún frá safnadraumum, Halldóru Bjarnadóttur 100 ára, ungum og öldnum og rauða pilsinu. Í bókinni er skrá yfir athugasemdir og leiðréttinga og mannanafnaskrá.

44. Ingibjörg Haraldsdóttir. (2007). Veruleiki draumanna, 334 bls., myndir. Reykjavík: Mál og menning.

Ingibjörg Haraldsdóttir fæddist árið 1942. Bókinni er skipt í þrjá aðalkafla sem eru, Reykjavík, Moskva og Havana. Hér segir Ingibjörg frá bernsku sinni í Reykjavík á fimmta og sjötta áratugnum í fátækt og húsnæðisbasli. Hún segir frá því þegar hún var erlendis við nám á sjöunda og áttunda áratugnum, fyrst í Moskvu í Sovétríkjunum og síðan í Havana á Kúbu en þá voru miklir umbrotatímar í þessum löndum. Á þessum tíma giftist hún manni frá Kúbu og á með honum son. Hún kemur alkomin til Íslands árið 1975 með sex mánaða gamlan son sinn.

45. Ingibjörg Lárusdóttir. (1944). Úr síðustu leit: Endurminningar og sagnir, 128 bls. Akureyri: Pálmi H. Jónsson.

Ingibjörg Lárusdóttir fæddist árið 1860 og lést árið 1949. Í formála sem Jakob Ó. Pétursson ritar segir hann að Ingibjörg Lárusdóttir eigi fullt erindi til Íslendinga þar sem hún lýsir þjóðháttum liðinna kynslóða og kunni mikið af þjóðsögnum. Þessari bók er skipt í þrjá þætti sem byrja á Æskuminningum hennar þar sem hún segir meðal annars frá fyrstu kirkjuferðinni sinni og hvernig var gengið til grasa. Annar þáttur heitir Huliðsheimar þar sem Ingibjörg segir huldufólkssögur og draugasögur. Í þriðja þætti eru Sögur af Bólu-Hjálmari en fram kemur í formála að Ingibjörg var dótturdóttir hans. Efnisyfirlit er í bókinni.

46. Ingibjörg Sigfúsdóttir. (2003). Dans á rósum, 206 bls., teikningar. Reykjavík: Höfundur.

Ingibjörg Sigfúsdóttir er fædd árið 1942. Í þessari bók segir Ingibjörg frá baráttu sinni við MS sjúkdóminn og þegar hún veiktist tæpum fimmtíu árum áður. Hún segir frá því hvernig hún nýtti sér óhefðbundnar lækningar til að halda sjúkdómnum niðri og hvernig hún hefur alla tíð miðlað þeirri reynslu sinni til annarra í gegnum tímaritið Heilsuhringinn með greinarskrifum sínum. Hún fjallar meðal annars um hvernig slökun, svæðanudd, fæðuval og hreyfing komu að góðu gagni til að halda sjúkdómnum í skefjum. Einnig segir Ingibjörg frá huglækningum, hugleiðslu og blómadropameðferð. Hún hafði líka mikla trú á mátt bænahringa og vildi meina að læknisráðin væru ekki heilög.

47. Ingunn Jónsdóttir. (1926). Bókin mín, 167 bls. Reykjavík: Acta h.f.

Ingunn Jónsdóttir fæddist árið 1855 og lést árið 1947. Bókinni er skipt í fimm aðalkafla og þar undir eru margir smákaflar. Fyrsti aðalkaflinn heitir Afi minn og er um afa Ingunnar, Jón sýslumann og kammerráð. Næsti aðalkafli er Melaheimilið fyrir sextíu árum og er um bæinn Mela í Hrútafirði þar sem foreldrar hennar bjuggu allan sinn búskap. Þar segir Ingunn meðal annars frá húsaskipan, vinnubrögðum, mat og drykk, klæðnaði, gestum og skemmtunum. Þriðji aðalkafli er Fyrstu endurminningar mínar, og eru það bernskuminnigar hennar. Fjórði aðalkaflinn heitir Glerbrot á mannfélagsins haug þar sem Ingunn segir frá ýmsum einkennilegum mönnum eins og Hannesi stutta, Helga fróða, Stefáni halta og Sölva Helgasyni. Fimmti aðalkaflinn heitir Fjársjóður sem mölur og ryð geta ekki grandað þar fjallar hún um meðal annars merkan bónda sem hét Tómas, um jólin og tvö ævintýri Gulleplið og Litlu Ló. Ein mynd er fremst í bókinni af Ingunni þegar hún var sjötug.

48. Ingunn Jónsdóttir. (1937). Minningar, 127 bls. Reykjavík: Edda.

Í formála sem Guðrún Anna Björnsdóttir dóttir Ingunnar skrifar segir hún að móðir hennar hafi þjáðst af megnu óyndi fyrstu árin hennar á Grímsstöðum í Vatnsdal, en sá bær var mjög afskekktur. En Ingunn lét það ekki buga sig enda varð búið stórt og börnin mörg. Í þessum minningum byrjar Ingunn á að segja frá móðurætt sinni síðan koma endurminningar úr Hornafirði og að lokum er kafli sem heitir Á víð og dreif en þar segir hún meðal annars frá einkennilegum mönnum eins og Birni Blöndal sýslumanni, sem dæmdi þau Friðrik og Agnesi, og Þorsteini í Kjörvogi. Hún er orðin rúmlega áttræð þegar hún skrifar þessar minningar eftir mikla hvatningu frá prófessor Sigurði Nordal og vandamönnum. Ein mynd er fremst í bókinni af Ingunni á áttræðis afmæli hennar.

49. Ingveldur Gísladóttir. (1951). Lækningin, 124 bls. Hafnarfjörður: Höfundur.

Ingveldur Gísladóttir var fædd árið 1913 og lést árið 1996. Í formálsorðum sem höfundur skrifar segir að bókin sé um hvernig Gréta, dóttir hennar læknaðist á mjög undursamlegan hátt þegar hún var ellefu ára gömul en Gréta hafði verið veik frá því hún var tveggja ára. Aftast í bókinni er ein mynd af Grétu þrettán mánaða.

50. Ingveldur Gísladóttir. (1973). Myndir og minningabrot, sendibréf, ritað á þorra 1971, til móður minnar, Guðrúnar Þorleifsdóttur frá Vatnsholti í Flóa og dó í Reykjavík 26. janúar 1961, 88 bls., myndir, teikningar. Reykjavík: Ingveldur Gísladóttir.

Þessa bók helgar Ingveldur aldarminningu móður sinnar Guðrúnu Þorleifsdóttur. Ingveldur rekur ævi hennar en Guðrún var alþýðukona og hafði ekki tækifæri á menntun vegna fátæktar og basls. Guðrún barðist við veikindi og var einstæð móðir sem háði harða baráttu við að fá að halda yngsta barninu hjá sér. Guðrún háði fyrsta jafnréttisdómsmál á Íslandi þegar hún vann mál um að kaupakonu bæri ekki að þjóna kaupamanni í frítíma sínum. Hún segir frá því þegar þær mæðgur stóðu uppi allslausar eftir að Siglfirðingahúsið í Hafnarfirði brann árið 1931. Sagt er frá nöfnum á húsum við Hverfisgötu og Laugaveg í Reykjavík.

51. Jakobína Sigurðardóttir. (1994). Í barndómi, 105 bls. Reykjavík: Mál og menning.

Jakobína Sigurðardóttir fæddist árið 1918 og lést árið 1994. Í þessari bók segir Jakobína frá bernsku sinni í Hælavík á Hornströndum. Hún labbar í gegnum gamla bæinn sinn í huganum og um leið koma minningarnar hverjar af annarri tengdar herbergisskipan í bænum. Það kemur fram að foreldrar hennar sýndu henni og systkinum hennar mikið ástríki. Hún segir frá skemmtilegum uppákomum og einnig koma minningaskot frá frumbernsku hennar. Hún segist hafa verið löt til verka og að sinna yngri systkinum sínum en bækur hafi átt huga hennar allan. Þetta er síðasta bók Jakobínu en hún byrjaði seint að skrifa og hafði skrifað tíu bækur áður en hún skrifaði þessa bók, eina kvæðabók, fjórar skáldsögur, þrjú smásagnasögn og eitt ævintýri. Teikningar aftast í bókinni gerði Gunnar Ásgeirsson.

52. Jóhanna Kristjónsdóttir.(1993). Perlur og steinar: Árin með Jökli, 285 bls., myndir. Kópavogur: Almenna bókafélagið.

Jóhanna Kristjónsdóttir var fædd árið 1940. Jóhanna skiptir bókinni í kafla eftir árum eða frá árinu 1956 til ársins 1968. Í upphafi bókarinnar segir hún frá kynnum þeirra Jökuls og þegar þau opinberuðu trúlofun sína árið 1956. Í næsta kafla fyrir árið 1957 giftast þau og eiga von á sínu fyrsta barni. Í þessari bók segir Jóhanna frá ellefu ára stormasömu hjónabandi sínu og Jökuls Jakobssonar og hvernig áfengið fór að lokum með hann og hjónaband þeirra eða eins og hún segir sjálf um Jökul „Engin manneskja hefur sýnt mér meira miskunnarleysi - en heldur enginn gefið mér meira af örlæti sínu“. Í bókinni er efnisyfirlit og nafnaskrá.

53. Jóhanna Kristjónsdóttir. (1997). Kæri Keith, 152 bls. Reykjavík: Fróði.

Í þessari bók segir Jóhanna frá því þegar hún er á hótelbar sem blaðamaður í Lundúnum og kynnist erlendum manni að nafni Keith. Hún fjallar um hvernig samband þeirra þróast í djúpt tilfinningasamband. Einnig segir hún frá því hvernig sambandið varð brothætt fjarlægðarsamband. Þegar sorgin bankar á dyrnar hjá Jóhönnu er hún undir hana búin en hún á eftir að finna gleðina aftur. Efnisyfirlit er í bókinni.

54. Jóna Sigurbjörg Gísladóttir. (2001). Árblik minninganna, 219 bls., myndir. Mosfellsbær: Höfundur.

Jóna Sigurbjörg Gísladóttir fæddist árið 1947 og lést árið 2002. Höfundur gaf bókina út sjálf og sá einnig um prentun á henni. Í þessari bók eru æviágrip Jónu en áður hefur hún gefið út ljóðabækur og skáldsögur. Í þessari bók fallar hún meðal annars um föður sinn og móður, um uppvöxt sinn, sveitina sína og um nám á Blönduósi. Einnig segir hún frá dvöl sinni í Danmörku en hún dvaldi þar til að fá lækningu við vanheilsu sem hún átti við að stríða allt sitt líf.

55. Katrín Ólafsdóttir Mixa. (1947). Liðnir dagar, 214 bls. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.

Katrín Ólafsdóttir Mixa fæddist árið 1916. Í bókinni segir Katrín frá veru sinni í Austurríki á stríðsárunum en hún flyst þangað með manni sínum dr. Franz Mixa sem var austurrískur tónlistarmaður. Fyrstu árin þar lifir hún áhyggjulausu lífi en síðan byrjar stríðið með öllum sínum hörmungum. Hún segir frá því þegar maður hennar fer sem hermaður í stríðið og hún verður ein eftir með tvo syni þeirra. Einnig segir hún frá því þegar loftárásirnar byrja á Hinterbühl bæinn sem hún bjó í og frá flótta sínum þaðan til bæjarins Oberbayern. Hún lýsir því þegar annar sonur hennar deyr á meðan hún dvelur á sveitabæ í Oberbayern. Að lokum lýsir hún heimferðinni til Íslands. Efnisyfirlit er í bókinni.

56. Kristín Snæfells Arnþórsdóttir.(2003). Hrund Hauksdóttir (ritstjóri). Sporin í sandinum, 349 bls., myndir. Reykjavík: Kristín Snæfells Arnþórsdóttir.

Kristín Snæfells Arnþórsdóttir fæddist árið 1950. Í formála sem Kristín skrifar sjálf segir hún að það hafi verið mjög erfitt að skrifa þessa sjálfsævisögu sína. Hún gekk í gegnum mikla og erfiða lífsreynslu eins og að vera misnotuð oftar en einu sinni sem barn og henni fannst eins og þessir menn sem gerðu það hafi haft einhvern augastað á hennar persónu. Hún segir frá áfengissýki sinni og hvernig henni tókst að breyta lífi sínu með hjálp AA samtakanna. Hún tileinkar þremur dætrum sínum bókina.

57. Lena Bergmann og Árni Bergmann. (1986). Blátt og rautt, bernska og unglingsár í tveim heimum, 261 bls., myndir. Reykjavík: Mál og menning.

Lena Bergmann fæddist árið 1935 og lést árið 2008. Í þessari bók segja Árni Bergmann og Lena Bergmann frá bernsku sinni og unglingsárum. Hann fæddist sama ár og Lena og ólst upp í Keflavík en hún var gyðingur og ólst upp í Sovétríkjunum þegar Stalín var við völd. Árni segir frá sérkennilegum mönnum sem hann kynnist á unglingsárum sínum, eins og Stjána píanó og Þórði Sigtryggssyni. Lena lýsir ótryggu lífi eftir innrás Þjóðverja inn í Sovétríkin og ótta gyðinga á þessum tíma. Þau segja frá því þegar þau kynnast á sjötta áratugnum í Moskvu þar sem þau voru námsmenn. Í bókinni er efnisyfirlit.

58. Lovísa María Sigurgeirsdóttir. (2009). Ég skal vera dugleg: Sönn saga, 119 bls., teikningar. Reykjavík: Salka.

Lovísa María Sigurgeirsdóttir fæddist árið 1957. Í þakkarorðum endar Lovísa María á fallegri vísu eftir hana sjálfa þar sem hún segir að vanda þurfi orðaval sitt til að særa engan og talar um það að þögnin sé gulls ígildi. Þessi bók er um sjúkrahúsvist hennar þegar hún er fimm ára og átta ára. Fyrst lá hún fjóra mánuði á fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri í kringum 1960. Á þessum tíma var engin barnadeild til heldur voru börnin á sömu hæð og fæðingardeildin og gamla fólkið. Ekki þótti heldur gott að foreldrar heimsæktu börnin of oft. Hún lýsir því hvernig starfsfólk og aldraðir sjúklingar reyndu að hugga og styðja börnin sem voru sjúklingar og hvernig þessi reynsla þroskaði hana.

59. Málfríður Einarsdóttir. (1977). Samastaður í tilverunni, 302 bls. Reykjavík: Forlagið.

Málfríður Einarsdóttir fæddist árið 1899 og lést árið 1983. Þegar Málfríður skrifaði þessa bók er hún orðin mjög fullorðin. Hún kemur víða við og segir meðal annars frá fyrstu endurminningum sínum, ætterni sínu, Bæjarasveit, Reykjavík, Munaðarnesi, ömmu sinni og öfum og frá fátækum bágstöddum mönnum. Einnig lýsir hún vinnukonustandi sínu í Kaupmannahöfn. Síðan fjallar hún um umhverfi, þjóðlíf og eftirminnilegt fólk. Bókin var endurútgefin árið 2008. Efnisyfirlit er í bókinni.

60. Málfríður Einarsdóttir. (1978). Úr sálarkirnunni, 286 bls. Reykjavík: Ljóðhús.

Þessi bók er framhald af bókinni Samastaður í tilverunni. Í bókinni eru minningaþættir Málfríðar og einnig segir hún frá mönnum og málefnum. Hún segir frá ferðalögum sínum til Óslóar, Kaupmannahafnar og Rómar. Síðan segir hún meðal annars frá ferðalagi austur að Núpi árið 1971, píslarsögu sinni, líkamsháska og sálarháska, munaðarlausum mönnum og langömmum sínum fjórum. Hún fjallar um ýmsar persónur eins og Láru miðil, Selmu Lagerlöf, Sólveigu á Flóðartanga, Þorstein Jakobsson og er með lauslega ádrepu um Einar Benediktsson. Efnisyfirlit er í bókinni.

61. Nadezda Sigurðsson. (2000). Leiðin til Íslands, 85 bls., myndir. Reykjavík: Höfundur.

Nadezda Sigurðsson fæddist árið 1918. Í þessari bók segir Nadezda sem var tékknesk frá því þegar mamma hennar Libuse Zatkova kom til Íslands árið 1926 til að fara í hestaferð um Ísland vegna þessa að hún var hrifin af hestum. Hún segir frá tékkneskum ættingjum sínum og frá því hvernig líf þeirra var í Tékkóslóvakíu. Hún lýsir því hvernig hún kynntist eiginmanni sínum Magnúsi Z. Sigurðssyni í gegnum móður sína á flugmannaballi í höfuðborginni Prag og hvernig leið hennar lá síðan til Íslands. Efnisyfirlit er í bókinni.

62. Norma E. Samúelsdóttir. (2010). Melastelpan: Minningabók, 142 bls. Reykjavík: Norma E. Samúelsdóttir.

Norma E. Samúelsdóttir fæddist árið 1945 í Glasgow í Skotlandi og var faðir hennar skoskur sjóliði. Í þessari bók segir hún frá lífi sínu í þrjátíu íbúa blokk í vesturbæ Reykjavíkur. Hún segir meðal annars frá skólagöngu sinni, og umhverfinu sem hún ólst upp í, fermingunni og Tívolíinu í Reykjavík. Einnig fjallar hún um það sem hún vann við sem unglingur meðal annars að passa börn og breiða saltfisk. Norma lýsir kynnum sínum af föðurfólki sínu í Skotlandi og skólagöngu sinni þar. Einnig segir hún frá heimsókn sinni til Korsíku og Rómar.

63. Ólafía Jóhannsdóttir. (1925). Frá myrkri til ljóss: Ævisaga, 142 bls. Akureyri: Arthur Gook.

Ólafía Jóhannsdóttir fæddist árið 1863 og lést árið 1924. Fyrstu fimm kaflarnir í bókinni eru æviminningar Ólafíu. Fram kemur að hún var mjög trúuð og bjó sautján ár í Noregi þar sem hún vann að trúboðsstörfum og sinnti þörfum hinna bágstöddu í samfélaginu. Í þessari bók segir hún enn fremur frá dvöl sinni í Genf. Hún fjallar einnig um foreldra sína og segir sögu af sjálfri sér þegar hún dvaldi sumarið 1904 hjá góðum vinum sínum í Ytterö í Noregi. Í bókinni eru viðbætur og eftirmáli eftir systur hennar Sveinbjörgu Jóhannsdóttur. Nafnatal er í bókinni og efnisyfirlit.

64. Ólafía Jóhannsdóttir. (1957). Rit I-II, I b.210 bls. II b. 132 bls., myndir, teikningar. Reykjavik: Hlaðbúð.

Þessari bók skiptir Ólafía í rit eitt og rit tvö. Rit eitt nefnir hún Frá myrkri til ljóss, endurminnigar og rit tvö heitir Aumastur allra. Rit eitt eru bernskuminningar Ólafíu fram á unglingsár. Þar segir hún meðal annars frá Skólavörðustíg 11 en þar ólst hún upp og frá því þegar hún var í Kvennaskólanum. Í ritdómi Kristmanns Guðmundssonar kemur fram að Ólafía og Einar Benediktsson skáld hafi fellt hugi saman í æsku og að hún hafi verið mjög þröngsýn í trúmálum. Hún fór tuttugu og níu ára í lýðskólann í Askov. Síðan starfaði hún alla tíð fyrir Hvítabandið í Noregi sem var alþjóðlegur mannúðar- og bindindisfélagsskapur kvenna. Rit tvö er um reynslu Ólafíu af vændiskonum og kvenföngum í Osló en þar bjóð hún í sautján ár. Viðbætur við rit eitt eru eftir systir Ólafíu, Sveinbjörgu Jóhannsdóttur. Bjarni Benediktsson skrifaði langan inngang þar sem hann segir frá ævi Ólafíu, fólki hennar og umhverfi. Sigurður Baldursson héraðsdómslögmaður tók saman nokkrar athugasemdir i bókinni. Efnisyfirlit og nafnaskrá er í bókinni.

65. Ólína Jónasdóttir. (1947). Ég vitja þín æska: Minningar og stökur, 157 bls. Akureyri: Norðri.

Ólína Jónasdóttir fæddist árið 1885 og lést árið 1956. Bókinni er skipt í tvo aðalkafla, Minningar og Stökur. Í kaflanum Minningar segir Ólína frá æsku sinni. Hún segir meðal annars frá heimilisfólki og híbýlaskipan á Kúskerpi, fatnaði og matarræði, fráfærum og hjásetu, tóvinnu og dauða föður síns. Einnig segir hún frá Guðmundi dúllara en hann var förumaður sem fór á milli bæja og skemmti fólki. Í formála sem Broddi Jóhannesson skrifar segir hann að það sé góður fengur að lýsingunni á hinni einkennilegu Kristrúnu en Ólína bjó að Kúskerpi á hálfri jörð á móti Kristrúnu og manni hennar Ólafi. Í seinni hluta bókarinnar eru stökur eftir Ólínu og kemur fram í formála að Ólína var mikill hagyrðingur. Ein mynd er af Ólínu fremst í bókinni. Efnisyfirlit er í bókinni.

66. Ólína Jónasdóttir. (1981). Ef hátt lét í straumnið Héraðsvatna: Minningar þættir og brot, 198 bls., myndir. Reykjavík: Iðunn.

Í þessari bók eru endurminningar Ólínu ásamt frásögnum af mannlífi, atvinnuháttum, trúarlífi og hugsunarhætti fólksins í landinu á hennar tíma. Fram kemur að hún þurfti að þola mikla fátækt og matarskort á bernskuárum sínum einnig var hún sett í vist hjá vandalausum og bjó við mikið vinnuálag. Hún átti ekki kost á menntun en með hvatningu vina og vandamanna hóf hún að stunda ritstörf. Í þessari bók eru lausamálsþættir úr bókinni hennar Ég vitja þín æska. Í bókinni er skrá yfir mannanöfn og efnisyfirlit.

67. Rannveig Löve. (2000). Myndir úr hugskoti, 344 bls., myndir. Reykjavík: Fósturmold.

Rannveig Löve fæddist árið 1920. Í þessari bók segi Rannveig frá þjóðháttum og lifnaðarháttum á þeim tíma sem hún ólst upp á en hún var elst af fimmtán systrum. Hún segir frá hvernig hún fór að því að mennta sig á kreppuárunum og frá baráttu sinni við berklaveikina en hún náði bata af þessum skæða sjúkdómi sem dró mikið af ungu fólki til dauða á þessum árum. Hún segir frá starfsemi SÍBS en eiginmaður hennar Guðmundur Löve var framkvæmdastjóri þess félags og frá því þegar Reykjalundur var byggður. Einnig segir hún frá því hvernig hún ruddi brautina sem sérkennari við Melaskólann.

68. Sigríður Björnsdóttir. (1962). Í ljósi minninganna: Bernsku- og æviminningar, 220 bls., myndir. Reykjavík: Leiftur.

Sigríður Björnsdóttir fæddist árið 1891 og lést árið 1975. Í þessari bók eru minningar Sigríðar sem hafa orðið henni minnisstæðari en aðrar minnigar. Í ritdómi eftir Njörð P. Njarðvík skiptir hann bókinni í tvo hluta. Í fyrri hlutanum er Sigríður að lýsa ytri atburðum eins og til dæmis vinnuháttum, dagfarsvenjum og leikjum barna og unglinga. Í seinni hlutanum segir hún frá viðkvæmum og sárum upplifunum á ævi sinni, sem hún hefði samt ekki viljað fara á mis við eins og fram kemur í formála hennar. Eins segir hún frá jólum um aldamótin nítján hundruð, frá kennaranámskeiðum vorið 1910 og 1912, frá jarðarförum, frá gamalli konu og klukku og frá því hvernig haustar í náttúrunni og lífinu. Hún segir frá ferðum sínum til annarra landa eins og á kvenréttindaþing í Osló árið 1951, ferð til Bandaríkjanna haustið 1954 og ferð á alþjóðlegt kvenréttindaþing í Dublin sumarið 1961. Efnisyfirlit er í bókinni.

69. Stefanía Sigurðardóttir. (2005). Blikandi fjarlægð: Minningar,171 bls., myndir. Reykjavík: Vilhjálmur Hjálmarson.

Stefanía Sigurðardóttir fæddist árið 1879 og lést árið 1972. Hún var frá Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Vilhjálmur Hjálmarson tók saman þessa minningarþætti móður sinnar, Stefaníu, sem hún hafði skrifað á efri árum. Fyrsti kaflinn í bókinni er eftir Vilhjálm þar sem hann segir frá móður sinni. Þessar minningar eru meðal annars frá uppvaxtaráum hennar og hér er einnig að finna þjóðlegan fróðleik frá hennar tíma. Í bókinni eru þulur og annar kveðskapur sem hún hafði skrifað upp og hafður var um hönd á hennar heimaslóðum um aldamótin nítján hundruð. Síðan segir hún frá baðstofunni sinni, útisamkomum fyrir aldamótin nítján hundruð, hjásetunni, öskudeginum og þremur ævintýrum í hænsahúsi. Einnig er í lok bókarinnar samtals leikþáttur við brúðuna Ellen sem fluttur var í útvarpi í barnatíma hjá Önnu Snorradóttur um 1958. Efnisyfirlit er í bókinni ásamt formála og eftirmála eftir Vilhjálm Hjálmarsson.

70. Valbjörg Kristmundsdóttir. (1995). Ég var sett á uppboð: Endurminningar, kviðlingar, gamanmál, 160 bls. Reykjavík: Hörpuútgáfan.

Valbjörg Kristmundsdóttir. fæddist árið 1910 og lést árið 1997. Bókin skiptist í þrjá aðalkafla: Endurminningar, Kviðlingar og Gamanmál. Í Endurminningum segir Valbjörg frá því að þegar hún var tveggja ára var hún boðin upp sem hreppsómagi eftir að foreldrar hennar slitu samvistum en hjón frá Tungu í Saurbæ sáu aumur á henni og tóku hana að sér. Einnig segir hún frá bernskujólum, síldarsöltun á Siglufirði árið 1938 og þegar hún las passíusálmana í ríkisútvarpinu, en hún var fyrsta kona sem gerði það. Valbjörg var systir Steins Steinars skálds og í fyrsta kafla þessarar bókar sem Bjarnfríður Leósdóttir skrifar um vinkonu sína Valbjörgu líkir hún skáldagáfu hennar við bróður hennar Stein Steinar. Í öðrum kafla Kviðlingar eru kvæði og lausavísur eftir Valbjörgu. Í síðasta kaflanum Gamanmál eru ýmsar gamansögur eftir hana. Efnisyfirlit er í bókinni.

71. Viktoría Bjarnadóttir. (1958). Vökustundir að vestan, 137 bls., myndir. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.

Viktoría Bjarnadóttir fæddist árið 1888 og lést árið 1963. Í þessari bók sem Viktoría skrifaði sjötug segir hún frá þjóðháttum, klæðaburði og hugsunarhætti fólks á Tálknafirði og Bíldudal á seinasta tug nítjándu aldar. Hún segir meðal annars frá bernskuárum sínum á Bíldudal, hjásetu í Fagradal, sjóvolki og slysförum, aldamótum, fermingu og merkustu dögum lífs síns. Í ritdómi sem Guðmundur Gíslason Hagalín skrifar við útkomu bókarinnar kemur fram að Viktoría og börn hennar hafi orðið fyrir mikilli dulrænni reynslu sem var fólgin í óvenjulegri draumspeki og fágætri fjarskyggni og er einn kaflinn í bókinni um dulræna fyrirburði. Efnisyfirlit er í bókinni.

72. Þóra Einarsdóttir. (1989). Af lífi og sál, 264 bls., myndir. Reykjavík: Skjaldborg.

Þóra Einarsdóttir fæddist árið 1913 og lést árið 2000. Höfundur byrjar á að segja frá æskuárum sínum að Hvanneyri og Akranesi. Síðan segir hún frá árunum þegar hún var prestfrú að Kálfafellsstað í Suðursveit. Hún segir frá námi sínu í félagsþjónustu við fanga Kaupmannahöfn og frá því þegar hún stofnaði félagið Vernd á Íslandi sem studdi fanga sem voru innan múra fangelsisins og þá sem voru að samlagast samfélaginu aftur eftir fangavist. Einnig segir Þóra frá hjálparstarfi sínu í Indlandi þar sem hún aðstoðaði holdsveik börn. Formála skrifar Eyjólfur Sigurðsson.

73. Þóra Snorradóttir. (2002). Yfir djúpið breiða, 140 bls. Reykjavík: Mál og menning.

Þóra Snorradóttir fæddist árið 1957 og lést árið 2002. Í þessari bók segir Þóra frá baráttu sína við ólæknandi krabbamein og tvinnar inn í frásögn af atburðamiklu lífi sínu þar sem hún missir systur sína ellefu ára og fer í fóstureyðingu sextán ára. Hún háir baráttu við áfengi og fíkniefni en nær tökum á því eftir meðferð. Hún segir að hún skrifi sögu sína til að miðla kjarki og styrk til þeirra sem eru að klást við krabbamein. Ein mynd er af Þóru fremst í bókinni.

74. Þórunn Elfa Magnúsdóttir. (1977). Frá Skólavörðustíg að Skógum í Öxarfirði: Minningaþættir, 151 bls. Reykjavík: Ægisútgáfan.

Þórunn Elfa Magnúsdóttir fæddist árið 1910 og lést árið 1995. Bókinni er skipt í þrjá aðalkafla sem heita Lítil korn frá lífsins morgni, Í húsi leturgrafarans og Lítill ferðalangur. Höfundur segir frá æskuárum sínum á Skólavörðustígnum og minnist á marga þekkta Reykvíkinga. Þórunn Elfa segir frá því hvernig lífið gekk fyrir sig á barnmörgu heimili, hvernig börn léku sér á þeim tíma og hvernig lífið var hjá alþýðufólki. Hún segir meðal annars frá fæðingu systkina sinna, litlu systur sinni fyrir norðan, hrottalegri barnagæslu og þegar pelinn var kvaddur. Hún fjallar um hrakningar á mölinni, rifjar upp minnismola frá sumrinu 1916 og segir frá sunnudagaskóla K.F.U.M. Að lokum segir hún frá ferðalaginu þegar fjölskylda hennar flytur norður að Skógum í Öxarfirði. Efnisyfirlit er í bókinni.

75. Þórunn Stefánsdóttir. (2001). Konan í köflótta stólnum, 190 bls. Reykjavík: JPV útgáfa.

Þórunn Stefánsdóttir fæddist árið 1949. Í bókinni segir höfundur frá tíu ára baráttu sinni við djúpt þunglyndi. Hún var oft búin að ganga í gegnum sjálfsvígstilraunir og var á barmi örvæntingar þegar hún leitaði til geðlæknis. Í byrjun meðferðarinnar hélt hún að læknirinn væri veikari en hún þegar hann sagði við hana að þunglyndi hennar væri óvenju myndrænt og fallegt. En þessi læknir átti eftir að reynast henni vel og að lokum bar hún sigur úr bítum.