SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir15. apríl 2020

TIL HAMINGJU, VIGDÍS!

Skáld.is óskar frú Vigdísi Finnbogadóttur hjartanlega til hamingju með daginn en eins og alþjóð veit fagnar hún 90 ára afmæli í dag. Vandfundin er flottari fyrirmynd en frú Vigdís og í tilefni af afmælinu minnum við á hina stórskemmtilegu bók Ránar Flygenring um Vigdísi, sem kom út á liðnu ári. Stutta umsögn um hana má lesa hér:

Vigdís. Bókin um fyrsta konuforsetann eftir Rán Flygenring er einfaldlega dýrðleg bók. Þar fara saman skemmtilegar myndir, fullar af smáatriðum fyrir börnin að rýna í, sniðug og útsjónarsöm aðalpersóna og fróðleikur um merkilegan áfanga í sögu Íslands - og heimsins.

Margar sterkar konur setja svip á frásögninni, ekki bara unga stelpan sem ætlar sér að verða rithöfundur og fékk hugmyndina að því að skrifa "um fyrstu konuna í heiminum sem var kosin forseti" og Vigdís Finnbogadóttir, sem segir henni frá lífi sínu. Heldur einnig mamma Vigdísar sem "var hjúkrunarfræðingur, framfarakona og formaður í öllu mögulegu" og allar íslensku konurnar sem "lögðu niður störf, skunduðu út á stræti og kröfðust sömu tækifæra og réttinda og karlar höfðu".

Stelpan verður hissa þegar Vigdís segir henni að hún hafi ætlað sér "að verða skipstjóri og sigla um heiminn." En "verið klappað á kollinn og sagt að það gæti ég ekki, því ég væri stelpa.... Já, svona hugsaði nú fólk þá."

Frásögnin af aðdraganda forsetaframboðs - og kjöri Vigdísar er hnitmiðuð og fjörleg, og má reyndar segja það sama um alla frásögnina frá upphafi til enda. Texti og myndir vinna saman með skemmtilegum hætti og bókin kallar á samlestur barns og fullorðins. Þá getur hún áreiðanlega verið uppspretta ýmiskonar samtala sem spinna má áfram út frá efni hverrar bókaropnu fyrir sig.

Þetta er bók sem óhætt er að mæla með fyrir allar stelpur, stórar og smáar, já og stráka líka!