„ÞAR VAR HERDÍS“ - Um ljóðagerð Herdísar Andrésdóttur
Soffía Auður Birgisdóttir
Formálsorð um þöggun og jöðrun
Það vita kannski ekki margir að Herdís sem nefnd er í þekktu erindi úr kvæði Þórbergs Þórðarson (og margir kunna að syngja undir lagi Atla Heimis) er skáldkonan Herdís Andrésdóttir. „Þar var Herdís. Þar var smúkt / þar skein sól í heiði,“ segir í þriðja erindi „Eins lítils afmælisdigts“ sem Þórbergur orti til dóttur Herdísar, Elínar Elísabetar Thorarensen, „á hennar sextugasta burðardegi í þennan heim,“ eins og skáldið orðar það.[1] Þær mæðgur Herdís og Elín koma báðar fyrir undir nafni í kvæðinu en borið hefur á því að sumir sem syngja lag Atla Heimis – án þess að þekka allt kvæðið – vilji nafn Herdísar burt. Þá er stungið upp á því að betur fari á því að syngja: „Þar var herligt. Þar var smúkt,“ enda illskiljanlegt hvað þessi Herdís sé að þvælast þarna um í kvæðinu. Ekki ætla ég hér að fara mörgum orðum um þöggun kvenna eða útþurrkun á nafni þeirra í íslenskum bókmenntum þótt þarna sé komið nokkuð skondið tilvik sem jafnframt er gott dæmi um það sem getur gerst ef samhengi hlutanna – eða í þessu tilviki – bókmenntatextans glatast.
Ef hægt er að tala um þöggun á nafni Herdísar í ofannefndu dæmi má kannski tala um jöðrun hennar í öðru samhengi. Þar sem Herdís er nefnd fylgir alltaf með annað nafn; nafn tvíburasystur hennar Ólínu. Þær systur ferðast saman í gegnum bókmenntasöguna þó þær hafi ekki gert það í gegnum ævina nema allra fyrstu árin og síðan aftur þegar þær voru samtíða í Reykjavík á efri árum. En þær virðast óaðskiljanlegar (eða „illaðgreinanlegar, eins og títt er um tvíbura“ svo vitnað sé í Ármann Jakobsson[2]). Þær eru eins og ólæknandi en góðkynja æxli hvor á annarri. Þannig hafa verk þeirra alltaf verið gefin út saman á bók undir titlinum Ljóðmæli eftir Ólínu og Herdísi Andrésdætur; fyrst árið 1924, þá aukin útgáfa 1930, stóraukin útgáfa 1976, aftur 1980 og að lokum 1982 og var þá enn aukið nokkrum kvæðum við. Árið 1951 kom einnig út bókin Lundurinn græni sem hefur að geyma myndskreyttan gamanvísnabálk sem samanstendur af nokkrum kvæðum eftir hvora systurina og segir af heimsóknum þeirra til frænku sinnar Ásthildar Thorsteinsson og áhyggjum karlkyns heimilisvinar af því að þær dvelji þar of oft, of lengi og borði of mikið. Þessi kvæðabálkur kemur einnig inn í þriðju útgáfu Ljóðmæla 1976.[3]
Í öllum útgáfum Ljóðmæla þeirra systra mynda ljóð Ólínu fyrri og stærri hluta bókarinnar enda er mun meira varðveitt af ljóðum eftir hana en Herdísi. Þá kemur kafli með yfirskriftinni „Í samlögum“ þar sem eru kvæði og vísur sem þær ortu saman, t.d. tækifæriskvæði, ljóðabréf og stökur þar sem önnur yrkir fyrripart og hin botnar. Síðastur er bókarhlutinn sem hefur að geyma ljóð Herdísar.[4] Það er þó ekki vegna þess að ljóð Herdísar koma á eftir ljóðum Ólínu í Ljóðmælum sem ég tala um jöðrun, heldur vegna þess að í umfjöllun um þær er þess gjarnan getið að Herdís sé lakara skáld en Ólína og að hún hafi ort minna. Kannski er samband þarna á milli, að sú sem yrkir meira þyki merkilegri. Einnig kann að vera að Ólína þyki merkilegri vegna þess að hún orti margar frábærar þulur – og tók því virkan þátt í formbyltingu og endurnýjun í ljóðagerð íslenskra kvenna – en Herdís fékkst lítið við þuluformið sé tekið mið af þeim skáldskap hennar sem ratað hefur á prent. Margt hefur vafalaust glatast af skáldskap Herdísar því hún var fræg fyrir frásagnarsnilld sína og orti oft að munni fram.[5]
I. „Svona er nú sagan mín, / sögð af veröldinni“[6]
„Þar var Herdís. Þar var smúkt. / Þar skein sól í heiði“ kvað Þórbergur og á sú lýsing ágætleg við síðasta áratuginn í lífi Herdísar, eftir að hún var komin í skjól dóttur sinnar Elínar Thorarensen í Reykjavík, þar sem hún „naut frábærrar umönnunar“ að sögn Sigurðar Nordals sem var tíður gestur á heimilinu. Þann áratug sem hún bjó hjá Elínu átti Herdís „nægar tómstundir, sem hún kunni vel að verja sjer og öðrum til gleði og skemtunar“ segir Sigurður líka.[7] Sól skein hins vegar síður en svo í heiði lengst af í lífi Herdísar og bera ljóð hennar glögglega merki þess að ævi hennar var ströng, vörðuð striti og sorgum. Ljóð Herdísar geta flest talist til svonefndra ævikvæða.[8] Herdís fæddist 13. júní 1858 í Flatey á Breiðafirði og bjó á bænum Hólsbúð með foreldrum sínum, Sesselju Jónsdóttur og Andrési Andréssyni og fimm systrum.[9] Í desember árið 1861 þegar Herdís var á fjórða ári fórst faðir hennar með bátnum Snarfara frá Flatey ásamt ellefu öðrum mönnum.[10] Var fjölskyldunni sundrað í kjölfarið og fór Herdís fór í fóstur til efnuðustu hjónanna í Flatey, Brynjólfs Bogasonar Benedictsen og konu hans Herdísar Guðmundsdóttur Scheving, sem hún var skírð eftir.[11] Þar var hún „alin upp við strangan aga eins og siður var“, eins og hún skrifar í minningaþættinum „Ekki er allt bezt, sem börnin vilja“.[12] Um þessa reynslu yrkir hún einnig:
Jeg var ung, er unnir alt mjer tóku frá,
má þess aðeins minnast, margt hvað breyttist þá.
Föður minn hinn milda, marinn kaldur fól,
sex við áttum systur samt hjá móður skjól.
Þá kom þrauta-árið, það jeg man svo vel,
heitt mjer hrundi tárið, harm þann stærstan tel,
að jeg frá minni móður mátti fara burt.
Þá sorg og hel oss sækja, að sökum ei er spurt.
Á göfgum höfðings-garði gefið var mjer brauð;
þar voru nógar nægtir, nóg að hvers kyns auð,
gull og dýrir gripir, góðra vina fjöld, og alt,
sem yndi vekur, æðst þar hafði völd.
Fann jeg fjótt og skildi, föðurlaus og snauð,
að minna var um mildi og mannkærleikans auð.
Lærði lítt að kvarta, leið þó margt og bar;
en að jeg ætti hjarta, enginn hugði þar.[13]
Hér má sjá að ljóðmælandi telur sinn stærsta harm vera móðurmissinn sem fylgir í kjölfar föðurmissisins, en á þessum tíma þótti það sjálfsagt að leysa upp heimili þegar fyrirvinnan var horfin og ekki spurt um tilfinningalega líðan kvenna og barna.[14] Í ævisögu Snæbjarnar í Hergilsey er fjallað um þetta sjóslys og þar segir: „Við manntjón þetta urðu margar konur ekkjur og börn föðurlaus. Fundur var haldinn í hreppnum, að ráðið yrði fram úr vanda þessum. Gerðu þá margir efnaðir menn góðverk við hinar bágstöddu ekkjur. Að öðru leyti jöfnuðu hreppsbúar á sig byrðinni með glöðu geði, því að öllum tók sárt til þeirra, er fyrir ástvinamissinum urðu.“[15] En þarna á ungum barnsaldri lærði Herdís þá lexíu sem sá má liggja sem rauðan þráð í gegnum skáldskaparmál hennar: „Lærði lítt að kvarta, leið þó margt og bar; / en að jeg ætti hjarta, enginn hugði þar.“
Herdís var í fóstri á heimili Brynjólfs Bogasonar Benedictssen og Herdísar konu hans frá fjögurra ára aldri og þar til hún var þrettán ára. Þar lærði hún að vinna. Meðan hún var kornung var vinna hennar meðal annars fólgin í að prjóna og snúast fyrir húsbændur og vinnufólk, eins og lesa má um í áðurnefndum minningarþætti. Þrettán ára flytur Herdís síðan að Stað á Reykjanesi til séra Ólafs Johnsens þar sem hún var í eitt ár, fermingarárið sitt. Eftir að séra Ólafur fermdi hana flytur hún aftur út í Breiðafjarðareyjar og þá er það kallað að hún hafi „byrjað að vinna fyrir sér“[16] þótt í raun hafi hún unnið frá blautu barnsbeini. Eitt þekktasta kvæði Herdísar, „Kveðið við spuna“, fjallar einmitt um hina miklu og endalausu vinnu kvenna af hennar stétt og stöðu og verður vikið nánar að því hér á eftir.
Þegar Herdís hafði verið um átta ár í vinnumennsku á Breiðarfjarðareyjum, þar sem hún m.a. stundaði sjóróðra eins og margar breiðfirskar konur á þessum tíma, gekk hún að eiga Jón Einar Jónsson frá Steinnesi í Húnaþingi. Jón Einar hafði viðurnefnið stúdent enda var hann menntaður maður sem hafði ætlað sér að læra til prests en hætti við og sinnti eftir það kennslu og bústörfum. Þau giftust árið 1880. Ekki er ólíklegt að þau Herdís og Jón Einar hafi kynnst í húsmennsku að Hrófá í Steingrímsfirði en þar bjuggu þau fyrsta árið eftir að þau giftust og þar fæddist dóttir þeirra Elín Elísabet 16. september 1881. Á næstu árum bjuggu þau í Reykhólasveit og á Ingunnarstöðum í Geirdalshreppi í Austur-Barðastrandasýslu í nokkur ár og eignuðust sex börn í viðbót. Fjögur þeirra dóu kornung en auk Elínar Elísabetar lifðu tveir drengir, Jón Ólafur sem síðar varð málari á Ísafirði og Einar sem varð magister. En í desember 1889 reið ógæfan aftur yfir líf Herdísar þegar maður hennar deyr í blóma lífsins. Eins og nærri má geta var dauði hans var gríðarlegt áfall fyrir fjölskylduna. Þegar hann dó var Herdís 31 árs gömul og ófrísk að yngsta syninum, Einari. Og hann þarf hún að láta frá sér, Guðrún systir hennar tekur hann í fóstur. Sjálf flytur Herdís að Bæ í Króksfirði til mágkonu sinnar Elísabetar Ragnhildar Jónsdóttur og eiginmanns hennar Ólafs Sigvaldason héraðslæknis. Það heimili var „ýkjulaust sagt eitt stærsta og fallegasta heimili í Breiðafirði á þeim tíma“ eins lýst er í ágætri Lesbókargrein frá 1965 eftir Sesselju Stefánsdóttur sem þar ólst upp. Á þessu heimili bjó Herdís í þrettán ár eða þar til húsbóndinn, Ólafur Sigvaldason læknir féll frá og heimilið var leyst upp.[17] Um veru Herdísar á heimili Elísabetar og Ólafs Sigvaldasonar skrifar Sesselja Stefánsdóttir: „Herdís vann hjá mágkonu sinni eftir það til þess síðasta. Var það hvorttveggja, að þau læknishjónin reyndust börnum Herdísar sem beztu foreldrar, og eins var það ómetanlegt að fá Herdísi á heimili vegna dugnaðar og þess hve fjölhæf hún var og verkasnilld hennar orðlögð.“ Þá minnist hún einnig skáldagáfu Herdísar og segir „ljóðadísina“ á heimilinu oft hafa litið eftir krökkunum og „lét þá margar hendingar fjúka“. [18] Í greininni kemur einnig fram að bókmenntir og frásagnarlist var í hávegum höfð á Bæ: „Í Bæ voru alltaf lesnir húslestrar og allir trúarsiðir í miklum heiðri hafðir, og auk ágætra bóka íslenzkra, skáldrita og sagnfróðleiks voru þar ýmis rit og skáldverk dönsk, norsk og sænsk, auk brezkra höfuðskálda í dönskum þýðingum.“ [19]
Eftir að Ólafur Sigvaldason lést flutti Herdís ásamt ekkju hans, Elísabetu Ragnhildi, til Reykjavíkur þar sem þær bjuggu saman í tæpan aldarfjórðung eða þar til Elísabet dó árið 1926. Herdís flutti síðan inn á heimili dóttur sinnar þegar hún var um sjötugt. Hún andaðist þar þann 21. apríl 1939 tæplega 81 árs að aldri. Í minningargrein Sigurðar Nordal segir hann: „Æfin var orðin löng og hafði lengstum verið erfið, hvíldarlítil barátta fyrir lífinu og margar þungar sorgir. En ellin var henni mild og heiðrík.“[20]
II. „Hugurinn á sín huldu lönd; / heftir ‘ann enginn maður“ [21]
Þegar lesið er í gegnum ljóðmæli Herdísar kemur glögglega í ljós að yrkisefnin sækir hún að mestu leyti í eigin lífreynslu – eða eigin ævisögu – og ekki síst yrkir hún um sín djúpu sár og harma. Það er hins vegar eftirtektarvert að í frásögnum samtíðarmanna Herdísar er yfirleitt lögð áhersla á hversu létt og skemmtileg hún var og hversu frásagnargáfa hennar var stórkostleg. Jón Auðuns skrifar í formála að Lundinum græna: „Um Herdísi lék í Gerðinu fágætur, leiftrandi gleðiblær, vísurnar fuku af vörum hennar og hláturinn dundi.“[22] Það virðist því vera að skáldkonan fái útrás í ljóðum sínum fyrir tilfinningar sem ekki þótti tilhlýðilegt að bera á borð opinskátt. Þetta er reyndar dregið skýrt fram í formála Jóns Auðuns:
Tíðum var það á kvöldin, að frænkurnar sátu saman að hannyrðum sínum og lífsreynsluna bar á góma. Rúnir óskiljanlegra örlaga var reynt að ráða, sögur voru sagðar til að skýra málin, örlagaþræðir úr annarra manna lífi voru raktir fimum fingrum, á eigin sorgir var aldrei minnzt, en hurðir þeirra leyndardóma knúðar, sem gera sálina hljóða. Þá gleymdist gestunum það í kyrrðinni, að aðrir væru í stofunni en þessar konur þrjár, og með fágætri frásagnarsnilld tjölduðu þær stofuna með minjum og dýrum minningum. Sjóðurin var svo gildur, sem ausið var af.[23]
„Á eigin sorgir var aldrei minnst“, skrifar Jón, en einmitt þær eru aðal efniviður skáldskapar Herdísar og reyndar orðar hún þessa mótsögn best sjálf í stöku:
Lífið þó mig leiki grátt,
löngum ber jeg geðið kátt
En horfa á aðra eiga bágt
engan hef jeg til þess mátt
Í kaflanum „Styrjöldin við Herdísi og Ólínu“, þar sem Þórbergur Þórðarson lýsir af mikilli kímni samkeppni sinni við þær systur í yrkingum, fyrripörtum og botnum, segir hann:
Ég held, að mesta skemmtun mín á þessum árum hafi verið að ræða við þær systur, sérstaklega að heyra þær segja frá. Þær höfðu frásagnargáfu á háu stigi og voru geysilega fróðar. Þaraðauki virtust þær vera auðugri að hjartamenntun en maður á að venjast hér á landi. Ef til vill hætti þeim dálítið við að leggja fullmikla áherzlu á skemmtun ræðunnar. En ég held, að það hafi fremur verið óviðráðanleg skáldgáfa, sem bar þær þar af réttri leið, helduren meðvitandi gáfnalöstur. Mér komu þær þannveg fyrir sjónir, að þær mættu í engu vamm sitt vita.[24]
Hér hlýtur að stinga í augu að Þórbergur Þórðarson, sem margir telja einn skemmtilegasta höfund íslenskra bókmenna, skuli nefna það sérstaklega að systrunum „hætti [...] dálítið við að leggja fullmikla áherzlu á skemmtun ræðunnar“ (áherslan er Þórbergs) en kannski hefur hinn dunandi kvennahlátur stundum verið honum um megn. Þótt allir sem skrifað hafa um Herdísi nefni sérstaklega hennar létta geð, mætir okkur gjörólík mynd í kvæðum hennar, nema þá helst í tækifærisvísum sem ortar eru til að varðveita stemningu augnabliksins. Í kvæðum sínum rekur Herdís harma sína og raunir og það sem einkennir ljóðmál hennar framar öðru er hversu harðgert, hvasst og óvægið það getur verið. Hér er ég að vísa í val hennar á orðum og myndum. Þetta má til að mynda sjá í snilldarlegri hringhendu, þar sem stafirnir k og r gefa kvæðinu hörkulegan tón:
Hvín í hnjúkum helfrosnum,
hrannir rjúka á firðinum;
ligg jeg sjúk af leiðindum,
læt þó fjúka í kviðlingum.
Í grein Helgu Kress „Saga mín er sönn en smá. Um ævikvæði kvenna“ bendir Helga á að með ævikvæðum sínum „leitist konur við að gefa lífi sínu merkingu, gera það sýnilegt sem samfélagið ekki sér og finna því stað í sögunni“.[25] Þetta kemur glögglega fram í ljóðum Herdísar Andrésdóttur. Herdís tjáir þar tilfinningar sem henni var ekki leyfilegt að sýna, eins og til að mynda hug sinn í garð fósturforeldranna sem sinntu vel líkamlegum þörfum hennar en vanræktu þá tilfinningalegu og í fjölmörgum kvæðum tjáir hún vanlíðan sem hún ber ekki á torg í mannlegum samskiptum, ef marka má vitnisburð samferðarmanna hennar. Og víða er hún harðorð og ósáttfús; henni leiðist „að lúta smáu, / langaði eftir flugi háu“, eins og segir í kvæði sem hún nefndi sjálf „Kerlingarnöldur“ en strax í fyrstu útgáfu Ljóðmæla var þeim titli skipt út fyrir fyrstu ljóðlínu fyrsta erindis: „Leiddist mér að lúta smáu“.[26]
Leiddist mjer að lúta smáu,
Langaði eftir flugi háu.
En nægð af lífsins böli bágu
Báru mjer snemma örlögin,
Við nögl þau skáru ei skamtinn minn;
Þótt hírðist jeg í hreysi lágu
Og hlýddi lögum settum,
Nægði mjer aldrei reykur af góðum rjettum.
Eitt áhrifamesta kvæði Herdísar er kvæðabálkurinn „Kveðið við spuna“ sem telur 30 ferskeytt erindi undir rímnahætti og birtist fyrst í kvennablaðinu Hlín árið 1951[27] og síðar í 3. útgáfu Ljóðmæla 1976. Í fyrsta erindi kvæðisins kemur fram að ljóðmælandi hafi séð „árin sjötíu og fimm“ svo kvæðið er líklega ort – eða fullgert – árið 1933. „Kveðið við spuna“ er þannig upp byggt að fyrstu 6 erindin gegna hlutverki nokkurs konar sviðsetningar. Þar er dregin upp mynd af aldraðri konu sem situr við rokkinn og spinnur en reynir jafnframt að hafa ofan af fyrir börnum. Hún lokkar börnin til sín með fyrirheitum um sögu; frásögn af því „hvað ung eg lærði að vinna“. Þá hefst meginhluti kvæðisins, í 21 erindi þylur ljóðmælandinn upp allt það sem „unnu mínar hendur“. Hér spinnur Herdís snilldarlegan texta sem byggður er á endurteknum og orðarunum. Þannig nær hún fram taktföstum slætti í ljóðmálið sem endurspeglar iðju hennar; hún spinnur í tvenns konar skilningi.
Helga Kress fjallar nokkuð ítarlega um kvæðið í áður nefndri grein sinni og bendir á að það sé „allt í senn ævikvæði, vinnukvæði, ellikvæði og afmæliskvæði“. Helga túlkar kvæðið sem tregróf enda lýsi það „hrikalegri vinnu kvenna sem varir ævilangt, endurtekur sig í sífellu og endar aldrei“.[28] Nokkur erindi úr kvæðinu ættu að gefa góða hugmynd um aðferð Herdísar:
Löngum hef að lömbum gáð,
leitað, týnt og fundið,
rétt í höföld hvítan þráð
hespað, spólað, undið.
Eg hef frammi í klettakór
kindur sótt og rekið,
mjólkað kýr og mokað flór,
moð úr básum tekið.
Ullina hef eg tíðum tætt,
úr togi glófa unnið,
svo hef eg líka sokka bætt,
saumað, prjónað, spunnið.
Stúrin hef eg starað í glóð,
steikt af þorski roðið,
bæði vélar við og hlóð
verkað mat og soðið.
Til að hefta hungursnauð hef eg þorskhaus rifið,
strokkað rjóma, bakað brauð, búr og eldhús þrifið.
Lúið hef eg bakið beygt, bundið stundum heyið,
malað kornið, kjötið steikt, keflað lín og þvegið.
Eg hef meðan fullt var fjör fé á vorin rúið,
kerti steypt úr kindamör, kveik úr fífu snúið.
Flattan hef eg fiskinn hert, fugla reytti lengi,
skó úr sauðaskinni gert, skafið elta þvengi.
Slegið hef eg grasið grænt,
gróin varið túnin,
æðarkollur eggjum rænt,
af þeim hreinsað dúninn.
Löngum skeytti ljá við orf,
laglaus hef eg sungið,
á bakinu stundum borið torf,
blauta garða stungið. [...]
Tróð í meis við töðustál,
tíðum steikti rjúpu,
skolaði kofu,
skarfakál skar í graut og súpu.
Skepnum gefið hef eg háf,
hann í lengjur skorið,
mokað tað í mykjukláf,
mat á engjar borið.
Stundum svöngum bita bauð,
breytti smjöri í sköku,
fjallagrasagraut eg sauð,
gerði sölvaköku.
Tínt hef ber og títt í vind
tölt um móabörðin,
hleypt í skyr og hellt á grind,
hirt og klofið svörðinn.
Eg hef kaffibaunir brennt,
breitt og rakað heyið,
fyrir spröku færið rennt,
fisk að borði dregið.
Eftir lýsinguna á hinni þrotlausu vinnu lýkur kvæðinu á þremur erindum þar sem ljóðmælandi áréttar að hún hafi þannig „lært að vinna og hlýða“ og þótt henni hafi stundum þótt „neyð / þetta við að stríða“ hafi hún engu að síður „marga yndisstund / átt við hversdagsstörfin“. Í síðasta erindinu kveður hún börnin og „bragurinn er á enda“. Helga Kress telur þennan lokahluta vera afbyggjandi, þar sem niðurstaðan stangist á við megininntak kvæðisins sem lýsi erfiðisvinnu en ekki yndisstundum. Ég get tekið undir það en ekki þá ályktun Helgu að kvæðið sé fyrst og fremst ort í þeim tilgangi „að flytja þennan þjóðlega fróðleik milli kynslóða“ eða að það sé „um fram allt ekki um hana sjálfa heldur minningar um horfna búskaparhætti“.[29] Helga dregur þá ályktun af því að kvæðið er nefnt „þjóðháttakvæði“ í efnisyfirliti bókarinnar og sjálfsævisagan sem í því felst þar með þögguð“.[30] Skýringin „þjóðháttakvæði“ er vafalaust komin frá útgefanda bókarinnar, dóttursyni Herdísar, séra Jóni Thorarensen. Hann bætir þessari skýringu við kvæðið í efnisyfirliti 3. útgáfu Ljóðmæla sem kom út 1976 en „Kveðið við spuna“ er eitt af þeim kvæðum sem bætt var inn í Ljóðmælin í þeirri útgáfu. Þegar kvæðið birtist fyrst, í Hlín ársriti kvenna árið 1951, fylgir því engin slík útskýring. Í skýringunni þjóðháttakvæði má sjá tilhneigingu karla til að draga úr kvörtunum kvenna yfir hlutskipti sínu og er þetta sambærilegt við orð Sigurðar Nordal um hinar frægu vísur Theódóru Thoroddsen um barnauppeldi, „Mitt var starfið“.[31] Sigurður kallar vísurnar „óþolinmæðisorð“ og vill meina að þær séu ortar „í gamni“ og „að einhverju leyti [...] í orðastað fleiri mæðra“ en lýsi ekki reynslu Theódóru sjálfrar.[32]
Helga bendir einnig á að skáldskapur Herdísar (hin útgefnu Ljóðmæli hennar t.d.) komi hvergi við sögu í kvæðinu og ályktar að sé hann „alveg bældur“ en „kvæðið sjálft kemur þó upp um hana því að hún stígur þar sjálf fram sem bæði höfundur þess og flytjandi“.[33] Ef til vill mætti allt eins álykta að Herdís hafi ekki litið á skáldskap sinn sem vinnu og því síður erfiðisvinnu og því ekki nefnt hann sem hluta af því óþrotlega starfi sem hún hefur neyðst til að vinna um ævina. Hún nefnir hins vegar í nokkrum erindum þörf sína fyrir skáldskap og leggur áherslu á frásagnarlist sína:
Margt hef eg á minnið lagt,
er mætti á vegi förnum,
stundum af því sögur sagt
sveinum, meyjum, börnum.
Vetur sumar, vor og haust
varð eg öðrum þjóna
sagnakverið lét ei laust,
las við rokk og prjóna.
Varla er því hægt að taka undir að þessi ríki þáttur í ævi hennar sé „alveg bældur“.
Herdís sækir víða myndmál í reynslu sína af sjóróðrum og líkir ævinni við sjóferð. Eitt slíkra er kvæðið „Ein á báti“ sem birtist í Skírni 1917 og var það fyrsta sem birtist eftir Herdísi á prenti. Kvæðið er einstaklega vel upp byggt og skiptist efnislega í tvo hluta sem hvor telur fjögur erindi. Í fyrri hlutanum er mælt í fyrstu persónu og lýst baráttu ljóðmælanda sem er „ein á báti“ og hefur átt „við margt að stríða“. En í síðari hluta kvæðisins snýr ljóðmælandi sér til Drottins, ávarpar hann í 2. persónu, og biður um lendingu „senn / við landið hinum megin“. Kröfur hennar eru þó ekki miklar, eins og fram kemur í lokaerindinu:
Engan heimta jeg Edensskóg
eða dýrðarheima.
Lof mjer bara að lifa í ró
og liðnum tíma gleyma.
Mjög víða í ljóðum Herdísar kemur fram trú á hjálpræði Drottins og þrátt fyrir að lífið hafi leikið hana grátt ásakar hún aldrei Guð heldur „veröldina“ og oft hefur hana undrað „hvernig flagðið flaðrar að / fjelagslimum sínum“. Í kvæðinu „Til veraldarinnar“ má sjá að félagsaðild Herdísar að veröldinni hefur leikið hana illa en „vonskuvald“ flagðsins mun dvína eftir dauðann. Hin sterka dauðaþrá sem sjá má bæði í „Ein á báti“ og „Til veraldarinnar“ er eitt af gegnumgangandi stefjum í ljóðmælum Herdísar og mætti taka um það mörg fleiri dæmi. Og þó trúarvissa sé greinileg í ljóðum Herdísar getur hún ekki tekið undir allt sem trúin boðar og í kvæði sem ber titilinn „Elskið óvini yðar“ hafnar hún því boðorði þótt hún útiloki ekki þann möguleika að sér „verði kent það hinumegin“.
Það má velta fyrir sér hvort ein helsta ástæða þess að ljóð Ólínu eru tekin fram yfir ljóð Herdísar í umfjöllun um ljóðmæli þeirra systra sé sú staðreynd að ljóðmál Herdísar er harðorðara, beinskeyttara og ekki síst írónískara en ljóðmál Ólínu. Sigurður Nordal gerir þetta að umtalsefni í minningargrein sinni um Herdísi, þar sem hann nefnir skaphörku og þunga í persónugerð Herdísar en dregur það jafnharðan til baka. Hann ber þær systur saman og skrifar að Herdís hafi átt „það til að vera skapharðari og þyngri á bárunni“ en að enginn hafi gengið þess dulinn að „í fastlyndi Herdísar var ofið heitum og næmum tilfinningum.“[34]
Íronía eða kaldhæðni Herdísar kemur víða fram og má til dæmis benda á kvæði sem hún yrkir um karlmenn og stjórnmál. Úr fyrrnefnda flokknum má benda á kvæðið um „Guðmundana“:
Það verður ekki í ljóði læst
lof á áratugum
um Guðmunda, sem gengu næst
Guði almáttugum.
Þeir hafa margra manna bol
með þeim hætti lagað:
rænt þá limum, rist á hol,
rifið, bætt og stagað.
Mjer er sagt, það mannaval,
sem mentir prýða slýngar,
sje úr Vatns- og Svínadal,
sannir Húnvetningar.
En drottin sá, sem drengi skóp,
er dugnað sýna mestan,
til að fylla fríðan hóp,
fjekk þeim einn að vestan.[35]
Einnig kvæðið sem hefur fyrirsögnina „Gamanvísa“ sem kannski á að draga úr háðinu:
Þekki ég virða valda
sem vænar iðka listir
oft þeir hingað halda
hungraðir og þyrstir.
Með makt og miklu veldi
matinn til sín kraka
og á hverju kveldi
kjálka sína raka.[36]
Í kvæðunum „17. júní 1923“ og „Í þinglok 1924“ deilir Herdís á ástand þjóðmála og stjórnmála og gæti það síðarnefnda allt eins átt við ástandið á tímum hruns og kreppu á 21. öld og minnir síðast ljóðlínan á fræg orð forsætisráðherra haustið 2008:
Hvert á að stýra?
Að hvaða löndum?
Komumst við að eyðisöndum?
Þjóðin mín, á vegi vöndum,
villugjarnt mun hjer.
Bundin ert þú á báðum höndum
og blóðið kreist úr þjer.
Hækkar lítið hagurinn,
hrygðin brjóstið sker.
Nú er dýr hver dagurinn.
Drottinn hjálpi mjer.
Herdís tekur þátt í umræðu um skáldskap í nokkrum kvæða sinna, hún yrkir kvæði sem túlka má sem nokkurs konar bókmenntagagnrýni og henni er ljóst að hún tilheyrir gamalli hefð sem er á undanhaldi á þeim tíma sem Ljóðmæli hennar koma fyrst út. Í ljóðinu „Nýir bragir“ segir:
Snemma hafði jeg yndi af óð
og ást á fögrum brögum.
En ungu skáldin yrkja ljóð
undir skrítnum lögum.
Uni jeg mjer við eldri ljóð,
ungdóms fjærri glaumnum.
Jeg er út úr öllum «móð»
og aftur úr nýja straumnum.
En Herdís fylgist greinilega með því „nýjasta“ og í ljóðinu „Söngvar förumannsins“ tekur sér stöðu við hlið Stefáns frá Hvítadal og samsamar sig förumannsmynd hans:
Greip mig löngun líkna og bæta,
er las jeg söngva förumanns.
En minka föng, því margir sæta
mega þröngum kjörum hans.
Fegin vildi jeg ljúfu ljóði
letra skyldan orðstír nú.
Rímið er snild og af þeim óði
andar mildri bæn og trú.
Marga galla mætti bæta,
þó misjafnt falli kjörin enn.
Þess er valla vert að þræta,
að við erum allir förumenn.
Ekki er Herdís eins hrifin af Svörtum fjöðrum Davíðs Stefánssonar og deilir á efni ljóða hans og gefur unga skáldinu ráð í lok ljóðsins:
Hjer sjerðu svik og pretti,
samlyndi hjóna ljótt,
hvæsandi urðarketti,
kolsvarta vetrarnótt.
Konur á lastaleiðum,
lituð og montin fljóð,
satan á sálnaveiðum,
– svona eru þessi ljóð.
Viljirðu eiga ítök hlý í okkar hjörtum,
fleygðu af þjer fjöðrum svörtum,
fljúgðu á svanavængjum björtum.
En síðar, eftir að hún hefur lesið hinn magnaða sálm Davíðs „Á föstudaginn langa“[37], fyrirgefur hún honum og yrkir:
Nú flaugstu á fjöðrum björtum
og fleygðir myrkum hjúp
og sýndir særðum hjörtum
Guðs sonar kærleiksdjúp.
Æ, syng þú meira, meira,
og myrkan lýstu stig;
við viljum heyra, heyra,
og hlusta öll á þig.
Við slíka unaðsóma
berst andinn hátt frá jörð
og lætur lofsöng hljóma
með ljúfri þakkargjörð.
Ef þenna streng þú stillir
og slærð hann oftar á,
þig þjóðin hrifin hyllir
og hennar ertu þá.
Þessi ljóð Herdísar bera vitni hinum miklu umbreytingum sem urðu í íslenskri ljóðlist á þriðja áratug tuttugustu aldar. Þótt Herdís Andrésdóttir sé vissulega sannur fulltrúi íslenskrar frásagnarlistar eins og tíðkaðist meðal alþýðufólks á nítjándu öld má ljóst vera að sem listrænt ljóðskáld er hún einnig verð allrar athygli. Þá má af ævikvæðum hennar verða margs fróðari um líf og kjör kvenna af hennar stétt og stöðu. Einnig má glögglega skynja hina veikburða sjálfsmynd sem birtist í ljóðum Herdísar, sem og annarra skáldkvenna fyrri tíma, og merkja má af því að sífellt er verið að gera lítið úr eigin skáldskap og hæfileikum. En það er efni í aðra grein.
Skáldskapur Herdísar – og Ólínu – naut mikillra vinsælda meðal almennings meðan þær lifðu og Ljóðmæli þeirra seldust alltaf fljótt upp. Þær systur birtu ljóð í ýmsum virtum tímaritum og blöðum, voru fengnar til að lesa upp í útvarpi og á ýmsum samkomum. Þá var þeim var veittur skáldastyrkur alþingis árið 1927.[38] Í dag lifa ljóð þeirra meðal annars í ýmsum dægurlögum, til að mynda er þekkt lag Bergþóru Árnadóttur við kvæði Herdísar „Ein á báti“ og við sama kvæði samdi hljómsveitin Samaris lag sem flutt var á Músíktilraunum 2011.[39] Og kvæði Ólínu, „Suðurnesjamenn“, kunna flestir Íslendingar að syngja við lag Sigvalda Kaldalóns. Þannig lifa ljóð skáldkvennanna enn í dag en spyrja má hvort ekki sé ástæða til að skilja á milli þeirra systra með útgáfu á ljóðum hvorrar fyrir sig í sér bók. Slík útgáfa ætti þó ekki að innihalda allan þann skáldskap sem „næst til“, svo vísað sé í eftirmála Jóns Thorarensen við síðustu útgáfu Ljóðmæla, heldur að innihalda úrval sem gæfi mynd af því hvar list hvorrar fyrir sig rís hæst.
Heimildir
Ármann Jakobsson. 1996. „Þar sitja systur.“ Lesbók Morgunblaðsins, 17. ágúst, s. 12.
Helga Kress. 2009. „Saga mín er sönn en smá.“ Óþarfar unnustur. Reykjavík: Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands.
Herdís Andrésdóttir. 1924. „Kerlingarnöldur.“ Skírnir, 98. ár, 1. tbl., 1. janúar, s. 38.
Herdís Andrésdóttir. 1951. „Kveðið við spuna.“ Hlín. Ársrit íslenskra kvenna. 41. ár, 1. tbl., s. 155-156.
Herdís Andrésdóttir. 1963. „Ekki er allt best, sem börnin vilja.“ Konur segja frá. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs, s. 7-16.
Herdís Andrésdóttir [og Ólína]. 1924. Ljóðmæli eftir Ólínu og Herdísi Andrjesdætur. Reykjavík: Ríkisprentsmiðjan Gutenberg.
Herdís Andrésdóttir [og Ólína]. 1930. Ljóðmæli eftir Ólínu og Herdísi Andrjesdætur. Reykjavík: Ríkisprentsmiðjan Gutenberg (2. útg. aukin).
Herdís Andrésdóttir [og Ólína]. 1951. Lundurinn græni. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
Herdís Andrésdóttir [og Ólína]. 1976. Ljóðmæli eftir Ólínu og Herdísi Andrjesdætur. Reykjavík: Jón Thorarensen.
Herdís Andrésdóttir [og Ólína]. 1980. Ljóðmæli Ólínu og Herdísar. Reykjavík: Jón Thorarensen.
Herdís Andrésdóttir [og Ólína]. 1982. Ljóðmæli eftir Ólínu og Herdísi Andrésdætur. Reykjavík: Jón Thorarensen.
Íslensk bókmenntasaga. IV. bindi. 2006. Ritstjóri: Guðmundur Andri Thorsson. Reykjavík: Mál og menning.
Jón Auðuns. 1944. „Guðrún Andrjesdóttir. Minning.“ Morgunblaðið, 24. júní, s. 8.
Jón Auðuns. 1951. Formáli að Lundinum græna. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
Sesselja Stefánsdóttir. 1965. „Frá Bæ í Króksfirði.“ Lesbók Morgunblaðsins, 24. desember, s. 53.
Sighvatur Gr. Borgfirðingur. 1899. „Sveinbjörn Magnússon.“ Þjóðviljinn, 8. ár, 55. tbl., 25. október, s. 218-219.
Sigurður Nordal. 1939. „Herdís Andrjesdóttir.“ Morgunblaðið, 3. maí, s. 5.
Sigurður Nordal. 1960. „Theodora Thoroddsen.“ Theodora Thoroddsen. Ritsafn. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.
„Skipskaðinn frá Flatey á Breiðafirði.“ 1862. Íslendingur, 3. ár, 3. tbl., 22. maí, s. 23-24.
Skógstrendingur. 1933. „Daði Daníelsson og María Andrjesdóttir.“ Óðinn, 29. ár, 1.-7. tbl. (1. janúar 1933), s. 27-29.
Snæbjörn Kristjánsson. 1958. Saga Snæbjarnar í Hergilsey. Akureyri: Kvöldvökuútgáfan (2. útg.)
Þórbergur Þórðarson. 1941. Edda Þórbergs Þórðarsonar. Reykjavík: Bókaútgáfa Heimskringlu.
Eftirmálsgreinar
[1] Það er miðerindið af þeim þremur sem sungin eru í lagi Atla Heimis en kvæðið allt telur fjórtán erindi. Sjá Edda Þórbergs Þórðarsonar. 1941, s. 248-250.
[2] Ármann Jakobsson. 1996
.[3] Í Ljóðmælum hefur bálkurinn yfirskriftina „Gamankvæðið um Gerðið, Hildi og Finn“. Hildur vísar til Ásthildar Thorsteinsson, frænku og vinkonu Herdísar og Ólínu, en hún bjó í Gerðinu í Hafnarfirði. Finnur er nafn karlmannsins sem „lét sér umhugað, að efni Ásthildar væru sem minnst skert, eftir að hún var orðin ekkja“. Sjá Ljóðmæli. 1976.
[4] Þess má geta að í efnisyfirliti Ljóðmæla er ekki greint á milli ljóða þeirra systra heldur er þeim öllum raðað þar saman í stafrófsröð eftir titlum eða upphafsorðum kvæðanna.
[5] Um frásagnarsnilld Herdísar sjá t.d. Þórbergur Þórðarson. 1941, Jón Auðuns. 1951 og Sesselja Stefánsdóttir. 1965.
[6] Ljóðlínan er úr kvæðabálknum „Til veraldarinnar“. Ljóðmæli. 1980, s. 217. Allar tilvísanir til ljóða Herdísar vísa í þessa útgáfu nema annað sé tekið fram.
[7] Sigurður Nordal. 1939.
[8] Sjá um ævikvæði kvenna: Helga Kress. 2009, s. 147-171.[
9] Fjöldinn á systrunum er nokkuð á reiki. Í fjórða bindi Íslenskrar bókmenntasögu Máls og menningar, er sagt að faðir þeirra hafi farist „frá níu börnum“ (sjá 2006, s. 185). Sjálf segir Herdís í „Broti úr kvæði“ systurnar hafa verið sex og styðst ég við það. Í grein um systur Herdísar, Maríu Andrjesdóttur og mann hennar Daða Daníelsson, segir hins vegar að systurnar hafi verið sjö og sú áttunda á leiðinni þegar faðir þeirra fórst (sjá Óðinn, 1. janúar 1933, s. 28). Í minningargrein um aðra systurina, Guðrúnu Andrjesdóttur, eru systurnar taldar hafa verið sex og sú sjöunda á leiðinni (sjá Morgunblaðið 24. júní 1944, s. 8). Þar einnig sagt að Sesselja, móðir þeirra systra, hafi eignast tíu börn, en á öðrum stað er hún sögð hafa eignast tvö börn með síðari manni sínum (sjá Þjóðviljinn 25. október 1899, s. 219; minningargrein um Sveinbjörn Magnússon, síðari eiginmann Sesselju).
[10] Sjá „Skipskaðinn frá Flatey á Breiðafirði“ í tímaritinu Íslendingur, 3. tbl. 1862. Í minningargrein um aðra systur Herdísar, Guðrúnu Andrjesdóttur, eru systurnar taldar hafa verið sex og sú sjöunda á leiðinni. Sjá Morgunblaðið 24. júní 1944, s. 8. Þar einnig sagt að Sesselja, móðir þeirra systra, hafi eignast tíu börn, en á öðrum stað er hún sögð hafa eignast tvö börn með síðari manni sínum. Sjá Þjóðviljinn 25. október 1899, s. 219 (minningargrein um Sveinbjörn Magnússon, síðari eiginmann Sesselju).
[11] Brynjólfur var kaupmaður í Flatey og eigandi Snarfara. Sjá „Skipskaðinn í Flatey á Breiðafirði.“ Þess má geta að Brynjólfur og Herdís áttu sjálf 14 börn en misstu þau öll, faðirinn lifði þrettán en þegar síðasta dóttirin, Ingileif, dó gaf móðir hennar mikið fé í sjóð sem leggja átti til stofnunar kvennaskóla á Breiðafirði.
[12] Minningaþátturinn birtist fyrst í handskrifuðu Mánaðarriti Lestrarfélags kvenna Reykjavíkur í febrúar 1928, en var síðan prentaður í bókinni Konur segja frá. 1961.[
13] Erindin eru úr bálki sem ber yfirskriftina „Brot úr kvæði“ og telur 8 erindi. Af titlinum má ráða að kvæðið hafi talið enn fleiri erindi. Sjá Ljóðmæli. 1980, s. 204-205.
[14] Móðir Herdísar, Sesselja Jónsdóttir, giftist aftur Sveinbirni Magnússyni bónda í Skáleyjum. Hann var ekkjumaður og hafði áður verið giftur systur Sesselju, Maríu Jónsdóttur, sem lést sumarið 1861. Í minningargrein um Sveinbjörn segir Sighvatur Grímsson Borgfirðingur: „Sagt hefur verið, að hann hafi áður viljað eiga Sesselju systur hennar, og að það hafi verið vilji beggja þeirra,en þar réðu aðrir meira, svo Sveinbjörn giptist Maríu, en Sesselja átti Andrés i Flatey, Andrésson, Björnssonar.“ Sveinbjörn og María áttu mörg börn saman og hefur því líklega ekki verið fært fyrir Sesselju að koma með öll sín 8 börn í hjónabandið. Sjá Þjóðviljinn 25. október 1899, s. 219.
[15] Snæbjörn Kristjánsson. 1958, s. 29.
[16] Sigurður Nordal. 1939.
[17] Elísabet Ragnhildur og Ólafur Sigvaldason stóðu fyrir stóru búi og heimilsfólkið var margt; venslafólk, vinnufólk og aðrir. Þau eignuðust tvær dætur en misstu aðra á fyrsta ári og hina þegar hún var komin yfir tvítugt. Þau ólu upp mörg fósturbörn og oft dvöldu gestir um lengri tíma á heimilinu. Sjá Sesselja Stefánsdóttir. 1965.
[18] Sesselja Stefánsdóttir. 1965.
[19] Sama stað.
[20] Sigurður Nordal. 1939.
[21] Úr „Vísur úr sendibréfi til litlu nöfnu minnar“.
[22] Jón Auðuns. 1951.[23] Sama stað.[24] Þórbergur Þórðarson. 1941, s. 244.
[25] Helga Kress. 2009, s. 150.
[26] Kvæðið birtist fyrst í Skírni 1924 undir heitinu „Kerlingarnöldur“ en síðar sama ár komu fyrstu Ljóðmæli Herdísar og Ólínu út og þá var búið að breyta titlinum. Kvæðið er 3 erindi í Skírni en 4 erindi í Ljóðmælum. Sjá Skírnir. 1924, 98. ár, 1. tbl., 1. janúar, s. 38.
[27] Sjá Hlín. 1951, 41. ár, 1. tbl., s. 155-156.
[28] Helga Kress. 2009, s. 157.
[29] Helga Kress. 2009, s. 159.
[30] Helga Kress. 2009, s. 160.
[31] Helga Kress fjallar einnig um þessar vísur Theodóru í ofan nefndri grein og ber þær saman við kvæði Herdísar.
[32] Sjá Sigurður Nordal. 1960, s. 28.
[33] Helga Kress. 2009, s. 159-160.
[34] Sigurður Nordal. 1939.
[35] Ljóðmæli. 1980, s. 221-222.
[36] Þessu kvæði var bætt inn í síðustu útgáfu Ljóðmæla, 1982, og ekki ólíklegt að fyrirsögnin sé frá útgefandanum Jóni Thorarensen komin.
[37] Flestir þekkja þennan sálm því hann er sungin í nær öllum jólamessum og mörgum jarðarförum á Íslandi enn í dag. Upphafshendingar hans eru: „Í gegn um móðu' og mistur / ég mikil undur sé. / Ég sé þig koma, Kristur / með krossins þunga tré.“
[38] Það ár voru úthlutaðir fjórir skálda- og listamannastyrkir upp á 1000 krónur, og var Stefán frá Hvítadal í þeim hópi, og sex styrkir upp á 500 kr. og voru þær systur í þeim hópi. Sjá Morgunblaðið, 22. maí 1927, s. 2.
[39] Hljómsveitin Samaris sigraði Músíktilraunir 2011.
Greinin birtist áður í bókmenntatímaritinu Stínu, 3. hefti 2011