HEIMILISOFBELDI FYRR OG NÚ
Fréttir berast af auknu heimilisofbeldi nú á tímum Covid-19 Af því tilefni minnir Skáld.is á hina frábæru ljóðabók Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur: Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett sem hlaut Fjöruverðlaunin 2015. Bókin er einn samfelldur ljóðabálkur um ástarsamband við ofbeldismann og tekst skáldinu að greina innviði slíks sambands af miklu innsæi og djúpum skilningi. Í grein sem Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifaði um bókina segir meðal annars:
Í ljóðinu „Mylsnuást“ sést tilfinning sem margar konur í ofbeldissamböndum upplifa: „Ég vildi verða sek og komast í fangelsið mitt. Þar átti hann að heimsækja mig og gefa mér að éta úr lófa sínum, mylsnuna“ (32). Konan þráir að vera samvistum við kærastann og er bæði heyrnarlaus og blind af ást þegar hún lofar honum því að skipta aldrei um sýlinder eins og svo margar sambýliskonur hans hafi gert „með köldu blóði“ (41).
Það er mikil sorg í þessum einlægu og nístandi sársaukafullu ljóðum Elísabetar en það er líka húmor í bland, ekki kaldhæðni heldur kvika, og ástarsagan er grátbrosleg frá upphafi til enda. Eftir lesturinn sat þetta ljóð í mér; ógnvekjandi, átakanlegt og meinfyndið í senn:
KAFFISKVETTAN
Hann skvetti framan í mig kaffi einhverra hluta vegna stend ég við kústaskápinn og ég stend þar þangað til ég er búin að fá vitið aftur og nú er þetta búið fyrst þetta er byrjað því það á aldrei að fyrirgefa ofbeldi það verður bara meira næst og ég ætla ekki að bíða eftir því svo ég opna skápinn tek út kústinn og flýg burt