„MIG LANGAR AÐ FLJÚGA OG FLJÚGA SVO HÁTT“ - eftir Gunnhildi Sif Oddsdóttur
Halla Eyjólfsdóttir frá Laugabóli
„Mamma var alla tíð mjög glaðlynd og léttlynd kona, mjög trúhneigð, en hafði næstum því of næma og viðkvæma lund.“(Sigurður Þórðarson, sonur Höllu)1
Nafnið mittSvo ég lýsi sjálfri mér,er satt munu flestir kalla,narra‘ ég marga‘ og nörruð er;nafnið mitt er Halla....Ég er á þessu ekki treg,eins og skilja fróðir;Hallfríður Guðrún heiti ég.(Ort þegar höfundurinn, Halla, var 11 ára gömul)2
Skáldkonan Hallfríður Guðrún Eyjólfsdóttir, betur þekkt sem Halla Eyjólfsdóttir, fæddist 11. ágúst 1866 að Múla við Gilsfjörð.3 Frá unga aldri var Halla talin skarpgreind, eftirtektarsöm, glettin, næm fyrir náttúrufegurð og hagmælt en snemma fór hún að yrkja ljóð.4 Hún fæddist í stóran systkinahóp þar sem almennt var kátt á hjalla. Allir fjölskyldumeðlimirnir voru hagmæltir og þá sérstaklega móðir Höllu en hún orti margar vísur. Samkvæmt Sigurði, syni Höllu, var erfitt að finna „glaðværari og skemmtilegri hóp en þarna var samankominn í kotinu.5 Þegar Halla var 18 ára gömul lést móðir hennar og kom það þá í hlut Höllu að sjá um yngri systkini sín. Höllu áskotnaðist því ekki tækifæri til að mennta sig, nema hluta veturs við hannyrðir, og þótti henni það alla tíð mjög miður. Bæði hafði það haft áhrif að stúlkur fengu almennt ekki mikla menntun á þessum tíma en svo réð bágur efnahagur fjölskyldunnar miklu.6 Að sögn Sigurðar var hún „þyrst í að fá að læra, og grét oft yfir því, að fá ekki þeirri löngun fullnægt.“7 8
Þó svo Halla hafi fæðst að Múla er hún þó jafnan kennd við Laugaból9 við Ísafjarðardjúp en þar bjó hún frá tvítugsaldri eftir að hún réði sig þar sem vinnukonu. Síðar átti hún sjálf eftir að standa þar fyrir búi en Halla giftist Þórði Jónssyni, syni Laugabólshjónanna, fjórum árum eftir komuna á Laugaból. 134 árum síðar, fyrir algjöra tilviljun, á þeim tíma þegar þessi ritgerð er skrifuð er bróður undirritaðrar boðið í helgardvöl í húsi nálægt Hólmavík. Við komuna aftur til Reykjavíkur kemur í ljós að þetta hús var Laugabólið hennar Höllu.
Þau Þórður eignuðust saman 14 börn en þrjú þeirra létust af barnaveiki sumarið 1904. Halla ól líka upp annan dreng, Leópold, sem og þrjú eða fjögur önnur börn til hálfs. Auk þess, að hugsa um þennan barnahóp, var mörgum börnum og unglingum komið fyrir hjá henni í tímabundnar dvalir.10 Þórður eyddi mestum tíma sínum á sjó, þar sem hann var formaður á eigin skipi sem gert var út frá Bolungarvík og var hann þar af leiðandi fjarverandi fyrstu 20 vorvertíðirnar eftir að þau Halla giftust. Halla sá því að mestu um búið þó svo hún hefði einhverja hjálp. Hún þurfti því þannig stundum, samkvæmt syni hennar, að „vera bæði bóndinn og húsfreyjan.“11 Húsfreyjan og bóndinn Halla var hörkudugleg; hún sá um barnaskarann, mjólkaði kýrnar, hafði umsjón með utanbæjarstörfum, tók á móti gestum, bjó til smjör og skyr og prjónaði og saumaði nærri öll föt heimilisins og meira til.12 Til að setja þetta svo í frekara samhengi má benda á að Halla eignaðist 14 börn á 16 árum. Það eru þá 14 meðgöngur sem samsvara 10 og hálfu ári á 16 ára tímabili og þess á milli hefur hún haft ungabörn að sjá um. Það er því augljóst mál að þótt skáldskapurinn hafi átt hug hennar og hjarta gat hún ekki sinnt honum nema í hjáverkum.13
Höllu tókst þrátt fyrir allt að yrkja nokkur hundruð ljóð og eftir hana liggja tvær ljóðabækur. Sú fyrri, Ljóðmæli, kom út árið 1919 og sú síðari, Kvæði, kom út árið 1940 en Halla lést árið 1937 og lifði því aðeins að sjá fyrri bók sína útgefna.14 Þessar ljóðabækur eru þó í dag, því miður, ófáanlegar og hafa verið það áratugum saman.15 Þó svo að ljóðabækurnar í heild hafi ekki verið gefnar út í marga áratugi þá má finna ljóð eftir Höllu í tveimur bókum sem gefnar hafa verið út á þessari öld. Þær eru Svanurinn minn syngur – Ljóð og líf skáldkonunnar Höllu Eyjólfsdóttir sem Guðfinna M. Hreiðarsdóttir tók saman og bjó til prentunar og Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur sem Helga Kress bjó til útgáfu.
Besta leiðin til að „kynnast“ Höllu er að kynna sér ljóðin hennar enda virðist hún að mestu sækja innblástur í eigið líf og langanir og enginn getur sagt okkur betur frá Höllu en Halla sjálf.16 Í ljóðum sínum byggir hún á náttúrulýsingum af nærumhverfi sínu, draumum, æskuminningum og fólkinu sem hefur orðið á vegi hennar, börnum sínum og eiginmönnum, fólkinu í sveitinni, merkum viðburðum, gleðistundum og ástvinamissi.
Þekktust af ljóðum Höllu hljóta að teljast vera Svanurinn minn syngur og Endurminning en þau hafa líklegast orðið eins þekkt og raun ber vitni þar sem nágranni og heimilisvinur Höllu á Laugabóli, læknirinn og tónskáldið Sigvaldi Kaldalóns, samdi lög við þau ljóð ásamt reyndar fleiri minna þekktum.17 Um þetta gjöfula samstarf þeirra orti Halla ljóð sem var Inngangur18 að fyrri ljóðabók hennar Ljóðmæli og má svo sannarlega lesa úr því að Halla hafi verið ánægð með samstarfið og þá vængi sem lögin hans ljáðu ljóðunum hennar. Ætli það megi ekki segja að án samstarfs þeirra hefðu ljóð Höllu líklega ekki orðið þekkt og ef þau hefðu orðið þekkt er ekki ólíklegt að þau væru, því miður, að miklu leyti gleymd. Helga Kress bendir auk þess á að með þessum Inngangi sé Halla einnig að réttlæta útgáfu ljóða sinna með lögunum hans og hún afsaki ljóðin sín „með því að þau geti glatt þá sem eiga bágt,“ en það var ekki fátítt meðal skáldkvenna á þessum tíma að afsaka sig.19 Slíkt á líklega að miklu leyti enn við í dag en algengt er að konur af öllum stéttum og starfsgreinum afsaki sig fyrir að taka pláss í þessum heimi sem of oft tilheyrir einungis karlmönnum.
Á Kaldalóns-tónum sér lyfta mín ljóð –hans iljandi gullvængjasmíði –,og þess vegna má ske þau gildi sem góðog gleðji sem vorblærinn þýði.Og tilgangur ljóðanna uppfylltur er –þótt öðlist þau ritdóminn svarta –,ef mættu þau smjúga sem geisli um glerí gleðisnautt einstæðingshjarta.
Þó svo að Sigvaldi Kaldalóns hafi orðið þekkt nafn var hann ekki þekkt tónskáld á Íslandi fyrr en Sigurður, sonur Höllu, gaf út lögin hans en fyrir þann tíma hafði enginn útgefandi viljað gefa þau út þar sem hann var ekki frægt tónskáld.20 Ljóð eftir Höllu var að finna meðal þeirra sönglaga sem Sigurður gaf fyrst út og fjölmörg önnur að finna meðal síðari sönglaga. Sigvaldi varð eftir útgáfuna þjóðþekktur og Halla fékk auk þess einhverja athygli en nokkur ljóð hennar birtust í tímaritum á þessum tíma. Sigvaldi varð þó töluvert þekktari, en eftir hann eru til dæmis lögin Á Sprengisandi og Ísland ögrum skorið, en flestir Íslendingar þekkja þessi lög mætavel. Samstarf þeirra var afar farsælt og má það kannski helst sjá af því að þekktust er Halla fyrir þessi ljóð, sem Sigvaldi samdi lög við, og er lagið Ég lít í anda liðna tíð, sem heitir í ljóðabókinni Ljóðmælum, Endurminning, talið eitt af þekktustu lögum Sigvalda.
Almennt var það þannig í þeirra samstarfi að Sigvaldi samdi lög við ljóð Höllu en það var ekki undantekningarlaust.21 Í einni heimsókninni til Höllu spilaði Sigvaldi fyrir hana lag og bað hana um að yrkja við það ljóð. Lagið hafði hann samið áratug áður í minningu unnustu sinnar sem lést áðeins 19 ára gömul. Hann vildi þó ekki gefa upp, við Höllu, um hvað ljóðið ætti að vera nema að það væri um ljúfsárar minningar. Úr varð svo fallegi textinn við Ég lít í anda liðna tíð.22 Lagið var síðar flutt við jarðarför Höllu og hefur verið flutt við jarðarfarir afkomenda hennar alla tíð síðan.23
Endurminning/Ég lít í anda liðna tíðÉg lít í anda liðna tíð,er leynt í hjarta geymi.Sú ljúfa minning létt og hljótt,hún læðist til mín dag og nótt,svo aldrei, aldrei gleymi,svo aldrei, aldrei gleymi.24
Aðra sögu er að segja af Svanurinn minn syngur en haft er eftir Sigurði, syni Höllu, að tilefni þess að hún orti það ljóð hafi verið fuglaskotveiðar hans. Halla á þá að hafa sagt við hann: „Ef þið drepið svan, þá eruð þið morðingjar.“25 En svanina elskaði hún líklega mest af öllum dýrum.26
Svanurinn minn syngurSvanurinn minn syngur.Sólu ofar hljómaljóðin hans og heillahelgar englasveitirBlómin löngu liðinlíf sitt aftur kalla.Fram úr freðnum gljúfrumfossar braut sér ryðja.Svanurinn minn syngursól í undirheima.Kyrrast kaldir vindar.Kættist allt, sem lifir.Björgin þungu bifast,bergin undir taka.Alein aldan stynur,afl sitt finnur þverra.Svanurinn minn syngurSumarlangan daginn:Svífur sælli‘ en áðursól um himinboga.Ein er þó, sem unniof heitt til að kætast,svansins löngu leiðirlaugar hún í tá27
Það var langt því frá einfalt mál að ná fram frægð og frama sem skáldkona á þeim tíma þegar Halla stígur á sjónarsviðið. Augljóst er að það féll almennt í hlut kvenna að sjá um heimilisstörfin og uppeldi á börnum og því hafa þær ekki haft sama frelsið og karlkyns skáld. Það má einnig velta fyrir sér hvort að konur hafi ekki haft sömu tækifæri og karlar til að yrkja ljóð, hér áður fyrr, enda þótti ekki sjálfsagt að konur lærðu að skrifa fyrr en seint á nítjándu öld. Það hallaði því lengi vel á konur þegar kom að ritmenningu og var skáldskapur kvenna að mestu varðveittur í munnlegri geymd.28
Þegar fyrri ljóðabók Höllu kom út, árið 1919, höfðu aðeins verið gefnar út 7 ljóðabækur eftir íslenskar konur, samkvæmt skáldkvennatali sem er að finna í lok bókarinnar Stúlku sem Helga Kress tók saman.29 Júlíana Jónsdóttir var fyrst íslenskra kvenna til að gefa út ljóðabók þegar ljóðabókin hennar Stúlka kom út árið 1876 sem hún kostaði sjálf. Konur voru þó farnar að yrkja löngu fyrr og bendir Helga Kress á að heiti Snorra Eddu frá 13. öld gefi vísbendingu um að Snorri hafa vitað hvaðan skáldskaparhefðin kom en „Edda“ merkir einmitt gömul kona eða langamma. Sömuleiðis er Íslendingasagan Bárðar saga Snæfellsás saga um skáldkonu og hafa síðan á öllum öldum birst konur sem ort hafa vísur, rímur og sálma.30
Þrátt fyrir það voru engar konur að finna í Íslenskri lestrarbók 1400 – 1900 sem Sigurður Nordal gaf út árið 1924 en ljóst er að þá höfðu vissulega komið út ljóðabækur eftir konur meðal annars Ljóðmælin hennar Höllu. Verk þessara kvenna hafa því líklega ekki þótt spila stóra rullu í íslenskri bókmenntasögu á þessum tíma. Auk þess var, á þessum tíma, algengt að í þau örfáu skipti sem konur gáfu út ljóðabækur, væri efast um að þær hefðu sjálfar virkilega ort ljóðin. Svoleiðis var það einmitt í Sýnisbók íslenskra bókmennta á 19. öld sem kom út árið 1891, fyrir tíð Höllu, en það sem Bogi Th. Melsteð vildi hvað helst segja um ljóðagerð kvenna, í þeirri bók, voru efasemdir um höfundarétt ljóðanna.31 Glöggir lesendur taka samt mögulega eftir því að það virðist einungis hafa fallið í hlut karla að skrifa um bókmenntasöguna og svoleiðis er það víst um mannkynssöguna almennt. Þeir virðast þannig oft, annað hvort vísvitandi eða ekki, gleyma konunum.
Algengt var að yrkisefni í fornum skáldskap kvenna væri tregróf eða grátur sem sneri að hlutskipti þeirra sjálfra í lífinu en slíkt hefur einkennt skáldskap kvenna allar götur síðan. Auk þess má oft greina í ljóðum skáldkvenna að þær fjalli um þann vanda sem fylgir því að vera hvoru tveggja kona og skáld.32 Á þessu er Halla engin undantekning. Yrkisefni hennar voru ansi fjölbreytt en þó má bersýnilega sjá að í mörgum ljóðum sínum fjallar hún um hlutskipti sitt í lífinu, löngunina í frelsið og að það eigi kannski ekki alltaf saman að vera bæði kona í „konustörfum“ þess tíma og skáld. Með skáldskapnum tekst Höllu þannig að vera frjáls og finna leið undan sínu hlutskipti í lífinu.33
Í ljóðinu Nú er minn andi grafinn má ef til vill segja að Halla sé að segja að það sé sjaldan sem skáldskaparandinn hellist yfir hana þar sem hún sé ávallt upptekin við heimilisstörfin. Þó virðist sem svo að hún geti gert góðlátlegt grín að þessu hlutskipti sínu enda síðasta lína ljóðsins frekar skopleg. Í Ég veit ekki hvaðan hún kemur sjáum við að langanir sem má túlka sem svo að frelsisþráin, skáldskapurinn og ævintýragirnin dragi hana í burt frá hennar hlutskipti í lífinu sem var að vera móðir og húsfreyja. Enda, eins og hefur áður verið minnst á, átti skáldskapurinn hug hennar og hjarta allt. Það er þó annar tónn í Löngun en hér virðist Höllu ekki finnast neitt skoplegt að þetta hafi orðið hennar hlutskipti í lífinu. Það er myrkur yfir þessu ljóði og eins og Halla hafi gefist upp á öllum þessum ómögulegu draumum sínum.
Nú er minn andi grafinnNú er minn andi grafinnofan í djúpar kyrnur,aðeins sér upp í barma,yfir þá stöku sinnum,lifnar hann þá og læðistlengra en vera skyldi,heyrast því hróp og læti:„Halla! Það vantar sykur!“34Ég veit ekki hvaðan hún kemurMitt áform er ávallt að búaþó öfugt mér gangi það flest,því verkin þau vilja mér gleymast,ég veit ei hvað hentar mér best.Ég veit ekki hvaðan hún kemur,sú köllun, er dregur mig frá,en víst er hún æðri að eðlien allt, sem ég heyrði og sá.Hún kemur um koldimmar nætur.Hún kemur um hádegisbil,hún kemur á morgnana og kvöldin,já, hvort sem ég banna eða vil.35LöngunMig er fyrir löngu hætt að langa,löngun það er orð sem mætti týnast,hún er vön að lúta í lægra haldi,leppur, sem er troðinn undir fótum.36
Guðfinna M. Hreiðarsdóttir komst vel að orði þegar hún sagði að í ljóðum Höllu „urðu fuglar himinsins og himinhnettirnir táknmyndir hins frjálsa anda með lausn frá amstri hversdagslífisins.“37 Í ljóðunum Mig langar að fljúga og Hvað býr í stjörnunum má einnig sjá þá forvitni sem Halla hafði um heiminn og hafði hún óteljandi spurningar en eins og áður hefur komið fram fékk Halla ekki þá menntun sem hana sárlega langaði í. Þó er ljóst af Mig langar að fljúga að Halla áttar sig á því að hún getur aldrei horfið alveg í burtu frá sínu hlutskipti sama þó hana langi til þess, ekki einu sinni í huganum.
Mig langar að fljúga (1. – 3. erindi)Mig langar að fljúga og fljúga svo hátt,að fjöllin mér hverfi og allt sem er smærra,þá nyti ég lífsins og léki mér dáttim ljómandi sólkerfin hærra og hærra,en þrátt fyrir allt væri hugurinn heimatil hálfs – þó ég kannaði ókunna geima.Þá sæi ég kletta og fegurri fjöllmeð fjölbreyttum litum og gróðurinn stærriþá heyrði ég sterkari fossanna föll –og fuglana glaða og raddirnar skærri –en þrátt fyrir allt væri hugurinn heimatil hálfs – þó ég kannaði ókunna geima.Þá sæi ég fólkið við sélegri búog sálirnar glaðar, er kviðu ekki vetriþá heyrði ég aftur þá traustustu trú,að til sé einn guð, sem öllu er betri,og þrátt fyrir allt væri hugurinn heimatil hálfs – þó ég kannaði ókunna geima.38Hvað býr í stjörnunum?Ég stari svo hugsandi kvöld eftir kvöldá kvikandi grúa af stjarnanna fjöld,því enginn veit enn hvað þær geyma.Ó! Gæti ég lyft mér og litið þar innog leitað hvort framliðni hópurinn minná nú í einni þar heima.Og finndi ég vinina framliðnu þar,ég fengi við daglegri spurningu svarum stefnuna ljóssins að löndum,um vaxandi þroska og viskunnar afl,hvort væri allt lífið sem einskonar taflí eilífum almættis höndum.39
Annað algengt yrkisefni kvenna segir Helga Kress vera það að skáldið persónugeri huga sinn og sendi hann í ferðalag en sjálft situr skáldið hins vegar eftir heima. Þetta tákni þannig að hugurinn sé frjáls þó svo að hún, skáldkonan, sé það ekki.40 Þetta þema má einnig sjá í ljóðum Höllu. Helst má í því samhengi nefna ljóðið Undirvitund41 en þar er einmitt hugurinn eða öndin einhvers staðar allt annars staðar þó svo að Halla sjálf sinni heimilisstörfunum. Líklega hefur hún ekki haft neina sérstaka unun af þeim störfum.
Minni stýra má ég höndog matinn niður skera,þó mér finnist öll mín öndannars staðar vera.41
Ansi algengt er einnig að í ljóðum hennar bregði fyrir alls kyns dýrum og þá sérstaklega svönum. Til að mynda má sjá svani í Svanurinn minn syngur sem má finna hér framar í ritgerðinni en svönum má strax sjá bregða fyrir í ljóðunum Á hamrinum42 og Kastalinn minn43 sem hún orti einungis 11 ára gömul. Frá unga aldri voru svanirnir og svanasöngurinn greinilega í miklu uppáhaldi hjá Höllu en svani í þúsundatali voru að finna í Gilsfirðinum þar sem Halla fæddist og var uppalin. Svanirnir spiluðu stórt hlutverk í æsku Höllu en hún var einnig, sem barn, send á fjaðrafjöru á sumrin en í því fólst að hún tíndi saman fjaðrirnar sem svanirnir höfðu reytt af sér sem síðan voru burstaðar og seldar.44 Svanina og önnur dýr sem Halla orti um má bæði túlka sem ást hennar á náttúrunni, bókstaflegar náttúrulýsingar og minningar úr æsku, en einnig má þetta túlka sem löngunina í frelsið, sem hún orti svo oft um, enda eru svanirnir frjálsir, geta gert það sem þeir vilja; flogið í burtu og kannað heiminn en það gat hún sjálf aldrei gert.
Ef við berum Höllu saman við aðra skáldkonu sem var uppi á svipuðum tíma, hana Huldu, má sjá að yrkisefni þeirra er oft sambærilegt. Í ljóðinu Ljáðu mér vængi45 eftir Huldu yrkir hún um löngun sína í ferðalög og frelsi og vill hún að grágæsamóðirin gefi sér vængi svo hún geti svifið langt í burtu. Hér má sjá keim af eftirsjá um að æskudraumar hafi ef til vill ekki farið eins og var vonað, rétt eins og má oft sjá í ljóðum Höllu. En ljóst er að bóndinn og húsfreyjan Halla fékk ekki beint ævistarfið sem hana dreymdi um að gegna.46
ArfurinnGlaðværð og trygglyndi tók ég í arf,tefla svo átti við heiminn,óhentugt valdist mér ævinnar starf,önuglynd varð því og gleymin.Áður en varði mér arfurinn hvarfút í geiminn.Árin að baki mér fimmtíu finn,framkvæmdalítil í heimi,féllu þau lárétta farveginn sinn,fundu þó lífs öfugstreymi.Bíddu mín endalaust, arfurinn minn,úti‘ í geimi.47
Halla lét búa til skrúðgarð við Laugaból og eyddi mestum frítíma sínum þar yfir sumartímann, stundum á kostnað þess að fá góðan nætursvefn. Í garðinum voru að finna 150 tegundir íslenskra blóma, ef ekki fleiri, að ógleymdum erlendum skrautjurtum til viðbótar.48 Kallaði hún garðinn „Gleym mér ei“ og var hann í sérlegu uppáhaldi hjá henni en Halla hafði alla tíð haft yndi af blómum enda sérlegt náttúrubarn.49 Helga Kress bendir á að það hafi verið algengt fyrir skáldkonur að rækta garða og fá þannig „útrás fyrir sköpunarþrá sína“ og er þar Halla engin undantekning.50 Þangað fór hún bæði á gleði- og sorgarstundum og sótti innblástur til ljóðasmíða. Ætli garðurinn hafi ekki verið eins konar griðarstaður fyrir Höllu þar sem hömlur hversdagslífsins og tilbúnar reglur þjóðfélagsins um hlutverk kvenna voru gleymdar um stund og allir draumar gátu ræst. Yfir hliðinu að garðinum var síðan skilti og á því stóð: „Hér býr ánægjan.“51
Skáldið víðkunna Matthías Jochumsson var frændi Höllu og árið 1918 leitaði hún til hans til að fá álit á því hvort að ljóðin hennar væru nógu góð til að vera prentuð og gefin út. Honum fannst hún endilega eiga að fá einhvern til að aðstoða sig við að búa til handritið og kallar hana „eitthvert mesta kvenskáld á Íslandi.“ Hann segir einnig að hún sé ein af skáldsystrum sínum um djúpu samúðartilfinninguna sem er að finna í ljóðum hennar gagnvart ástvinum og fleirum, en þá sérstaklega dýrum. Auk þess skrifar hann henni síðar og segir: „Þú nærð betur andananum, þ.e. töfravaldi náttúrunnar en „stóru skáldin,“ sem ætla sér að ná ástum heilagrar náttúru með smjaðri orðmælgi sinnar.“52 Það er því ljóst að Matthíasi hefur þótt ansi mikið til skáldskapar hennar koma. Þá sérstaklega ljóðanna sem fjalla um dýrin og náttúruna sem voru svo algengt yrkisefni hjá Höllu.
Þegar Ljóðmæli kom síðan út, árið 1919, skrifaði Matthías ritdóm og þar segir hann að bókin kosti 8 krónur sem samsvari 8 fiskum en það sé samt vel þess virði að fjárfesta í eintaki. Hann lofar þau ljóð hennar sem fjalla um heimilislífið og börn Höllu og minnist aftur á djúpu samúðina og segir að hún „kenni eins í brjóst um krummann og músina eins og lambið og kálfinn.“ Þó gerir hann minna úr öðrum ljóðum og kallar þau „léttmeti,“ að þau sé „alþýðuþjóðmæli fyrir alþýðu“ og því séu þau ekki sérlega frumleg og hún taki sjaldan til „háu tónanna,“ en takist þó vel til þegar hún gerir það.53 Helga Kress bendir einnig á að með mörgum þessum ummælum grafi hann undan henni sem skáld þó svo hann vilji henni líklega vel og að af ritdóminum megi sjá að hún sé fyrir honum fyrst og fremst „móðir, kona og húsfreyja.“54 Hann endar þó á að segja að það sé nú enginn skaði skeður þó sumt sé „léttmeti“ enda segir hann að hún hafi viljað koma til dyranna eins og hún var klædd.55 Þó svo að ritdómurinn sé að miklu leyti jákvæður þá vantar sum loforðin sem voru að finna í bréfunum til Höllu, árið áður, en kannski þorði hann ekki að kalla hana „mesta kvenskáld á Íslandi“ svo allir gátu lesið.
Hvergi í ritdómi Matthíasar er að finna skilning á frelsisþránni sem var svo oft einkennandi fyrir ljóð Höllu og því vanmetur hann hana að einhverju leyti. Mestan áhuga hefur hann á kvenlegum ljóðum hennar þar sem lýst er heimilislífi, náttúrunni, og samúð til náungans. Líklega er það vegna þess að hér var um að ræða vandamál sem hann þekkti ekki og óraði líklega ekki fyrir um að gæti verið til.
Samúðin var þó verulega sterk í ljóðum Höllu eins og Matthías Jochumsson benti réttilega á, og virðist hún haft hjarta úr gulli sem ekkert aumt mátti sjá, hvort sem um væri að ræða menn eða dýr. Til dæmis tekst henni á einhvern undraverðan hátt að fá lesandann til að kenna í brjósti um greyið músina í ljóðinu Músin56 sem reyndi að gefa ungunum sínum að borða en varð á endanum fyrir barðinu á bæði ketti og mönnum og endaði á að deyja úr hungri. Ekki er víst að öllum skáldum tækist að framkalla slíka meðaumkun gagnvart músinni. Höllu þótti vænt um öll dýr, þá sérstaklega um svaninn eins og áður hefur komið fram, en hún yrkir einnig um kóngulóna, maðkafluguna, yrðling í poka, dúfu, kisu, hund og um hestinn. Um greyið kúna sagði hún svo í ljóðinu Kýrin:57
Veslings kúna veit ég eiga versta ævi;níu vikur tæpast tvennartelst mér sumarfríið hennar.Alla tíma aðra má hún inni gistaþröngan bás í fúlu fjósifjarri glöðu sólarljósi.
Auk þess fá förukonan gamla Manga sem missti son sinn, gamalmennið, kerlingar-hræ og öreiginn sín ljóð. Samúðin náði meira að segja til fangans og þeirra sem höfðu brotið lög landsins. Halli sjálf mælti: „það eru svo margir og smágerðir þræðir í mér, sem fólk skilur ekki, og getur því ekki varast, þó við þá sé komið.“58 Sigurður sonur hennar skrifaði einnig um samúð móður sinnar og sagði að „traustasti þátturinn í skapgerð hennar hafi verið óvenjulega sterk samúð með öllum smælingjum og öllum, sem áttu bágt, hvort sem í hlut áttu menn eða málleysingjar.“59 Máli sínu til stuðnings nefnir hann þetta fallega ljóð, Mér er sama um allt og alla,60 þar sem samúðin svo sannarlega skín í gegn í 3. erindi ljóðsins.
Að afstýra öllu, sem grætir,er einhver mín sterkasta þrá,því hjarta míns taugavef tætirhver tárvot einstæðings brá.
Frelsisþrána, sem má svo oft sjá í ljóðum Höllu, má þó ekki misskilja sem svo að hún hafi verið óánægð með allt í lífinu. Þó svo að hún hafi kannski ekki fengið allt sem hún óskaði sér og heimilisstörfin hafi líklega ekki verið í uppáhaldi að þá sést af ljóðum hennar að hún elskaði börnin sín afar heitt. Á blaðsíðum 165–174 í ljóðabókinni Ljóðmæli má finna fallegar vísur sem Halla orti til allra barnanna sinna. Þegar frumburður Höllu, Sigurður, veiktist nokkurra mánaða gamall samdi hún ljóð til hans og er enginn betri að dæma um móðurástina í því ljóði en hann sjálfur, en hann sagði: „Ef þetta er ekki umbúðalaus og einlæg tjáning heitrar trúar og ástar góðrar móður til barns síns, þá veit ég ekki, hvernig slíkar hugsanir verða festar í bundið mál.“61
Að missa þrjú barna sinna reyndist Höllu, eðlilega, verulega erfitt, og til að skyggnast fyrir um tilfinningar hennar er eins og oftast best að rýna í ljóðin hennar. Í Fánýt er gleðin, ef fylgir ei trú, sem finna má í fyrri ljóðabók Höllu, orti hún um barnamissinn.62 Þar segir hún: „Og allt fannst mér lífið sem eirðarlaust flökt/sem enginn gæti skýrt á neinni tungu.“63 En þó svo móðurástin væri svona sterk var trúin á Guð það líka og ef til vill sterkari.64 Augljóst er af ljóðum Höllu að Guð ræður ferðinni. Þegar Gunnar sonur hennar læknast eftir spítalalegu þakkar hún Guði fyrir að gefa sér hann aftur og þegar synir hennar, Sigurður og Ólafur, voru hættulega veikir er líkt og hún hafi sætt sig að Guð sé að taka við þeim, sem er ekki jafn algengt viðhorf í dag. En ætli það hafi ekki verið algeng leið til að takast á við missi, á þessum tíma þegar svo margir misstu börnin sín, að trúa því að hér væri um einhvern æðri tilgang að ræða og örlögin væru allsráðandi.
Vögguvísa til SigurðarAfkvæmið eina sem ég elska svo heitt,En áformum örlaga enginn fær breytt.Minn guð, þín var gjöfin, er glatt hefur mest.Ég veit: Hjá þér drengurinn dafnar þó best.Til ÓlafsLát þá, dauði! Lítil beinlynda kröfum þínum!Sálin verður aftur einafhent guði sínum.
Ljóst er þó að hún vildi börnunum sínum allt það besta og elskaði þau heitt. Þykir mér það skína í gegn í ljóði sem hún orti til yngsta sonar síns, Jóns Leópolds. En ljóðið orti Halla þegar Jón grét og hafði áhyggjur af því að hún myndi deyja á undan honum.65 Það fjallar ekki beinlínis um ást hennar á syninum en sú leið sem hún fer til að hugga hann skín af móðurástinni.
Æi! Kvíddu ekki neinu,elsku Nonni minn!Við skulum fljúga öll í einuupp í himininn.
Eftir að Þórður dó árið 1914 hélt Halla áfram búskap á jörðinni við Laugaból enda var hún ekki ókunnug því að sjá sjálf um búið. Hún kom upp stórum matjurtagarði og ræktaði þar ýmislegt, gerði ýmsar jarðabætur og gaf út ljóðabók. Auk þess lét hún byggja við húsið fjölskyldugrafreit og flutti þangað lík Þórðar fyrri eiginmanns síns, fyrri eiginkonu hans, tengdaföður síns og barnanna þriggja sem dóu. Árið 1937 heldur hún síðan með síðari eiginmanni sínum, Gunnari, til Reykjavíkur, í fyrsta og eina sinnið, til að heimsækja dóttur sína en fær heilablóðfall á leiðinni og lætur lífið í Reykjavík.66 Halla er síðan borin til grafar og hvílir í fjölskyldugrafreitnum, sem hún lét byggja, við Laugaból. Hér fá að fylgja þau orð sem Sigurður Þórðarson skrifaði um útfararathöfn móður sinnar.67
„Úti var blindhríð. Þegar prófasturinn gekk að líkbörunum til að framkvæma útfararathöfnina, brauzt sólargeisli gegn um hríðina, og skein á kistuna meðan athöfnin fór fram. Það var síðasti sýnilegur vottur þeirrar forsjónar, sem hún trúði á og sem ævinlega hafði reynzt henni svo góð í lífinu, um kærleika og handleiðslu út yfir gröf og dauða. Eða því trúði ég.“
Það er ekki öllum ætlað að lifa að eilífu í minnum fólks og það getur ekki talist nema eðlilegt. Flest okkar munum við gleymast nokkrum kynslóðum eftir að lífi okkar lýkur. Þó hlýtur það að vera í lagi að reyna að halda minningu fólks á lofti örlítið lengur ef maður getur. En eins og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir benti á er Halla líklegast gleymd ef við vitum ekkert um hana nema nafnið hennar.68 Nafnið á bak við textana við Svanurinn minn syngur og Ég lít í anda liðna tíð. Það er því von mín að með þessum ritgerðarskrifum fái skáldkonan Halla að lifa ef ekki nema aðeins lengur. Ef það tekst ekki, þá er ég að minnsta kosti ánægð að hafa fengið tækifæri til að „kynnast“ henni.
Það er við hæfi að enda þessa ritgerð, sem fjallaði um líf Höllu, á ljóði sem hún orti þegar hún var fimmtug. Þar segir hún sjálf að lífið hafi, þrátt fyrir allt, reynst henni vel.69
Hamingjunnar örmum áyfir rósabrautirflesta daga leið mín lálaus við allar þrautir.Ef ég segi alveg rétt,ýfast kunnu sárin,mig hafa stungið þyrnar þéttþessi síðustu árin.En ég tel það eins og lán,Ef ég lít á hina,Af því þar var engin smán,aðeins missir vina.Guð, sem lánið gefur mér,gleði og vægan aga.Hvernig fæ ég þakkað þérþessa liðnu daga?