SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir29. júlí 2020

ÁSTARSÖGUR - I hluti - eftir Jórunni Sigurðardóttur

 

Jórunn Sigurðardóttir dagskrárgerðarmaður hjá rás 1 fjallaði um ástarsögur í þætti sínum Orð um bækur síðastliðið vor. Okkur þótti umræðan bæði fróðleg og skemmtileg og fengum leyfi hjá henni til að birta hlekk á umræðuna, ásamt kynningartexta. Í tveimur þáttum fjallaði Jórunn um efnið og tók viðtal við bókaútgefendur og bókmenntafræðing. Hér til að byrja með er fjallað um Ás útgáfuna sem birtir ótal ástarsögur á hverju ári, sem seljast eins og heitar lummur.

Í þættinum sagði Jórunn: "Ás útgáfuna á Akureyri má líklega setja í flokk stærstu bókaútgáfa í landinu þegar litið er til fjölda útgefinna titla á hverju ári og jafnvel einnig þegar litið er til sölutalna. Það voru hjónin Rósa Guðmundsdóttir og Kári Þórðarson sem árið 1985 hófu að gefa út þýddar ástarsögur frá fyrirtækinu Harlequin Enterprize sem var stofnað í Kanada skömmu eftir að heimsstyrjöldinni síðari lauk og náðu svo miklum vinsældum að þær fóru fljótlega að koma út í þýðingum víða um heim. Hér á landi var það þó ekki fyrr en árið 1985 að þessi tegund sagna fór að koma út í íslenskum þýðingum.

Þótt sögunum sé skipt í mismunandi flokka eins og Ást og undirferli, Ást og óvissa, Sjúkrahússögur, Ástarsögur og Örlagasögur þá eru þær afar áþekkar í byggingu, grundvallarinntaki og framvindu og þykir skilgreining bandaríska bókmenntafræðingsins Kristinar Ramsdell ná vel utan um þessa bókmenntagrein sem segir hina sönnu ástarsögu greina frá þróun og fullnægjandi niðurstöðu í ástarsambandi milli tveggja aðalpersóna og sé skrifuð þannig að lesandi taki tilfinningalegan þátt í tilhugalífinu sem lýst er.

Eins og áður sagði eru það hjónin Rósa Guðmundsdóttir og Kári Þórðarson sem upphaflega kynntu íslenskum lesendum það sem hjá þeim fékk fyriskriftina Rauðu ástarsögurnar fyrir íslenskum lesendum fyrir þrjátíu og fimm árum og hér má hlýða á viðtal við Rósu um útgáfuna og ástarsögurnar."