ÁSTARSÖGUR - III hluti - eftir Jórunni Sigurðardóttur
Í viðtalinu við Dagnýju Kristjánsdóttir bókmenntafræðing (hlekkur í grein nr. II) benti Dagný á að þótt hlutverk kynjanna væru ævinlega samkvæmt hefðinni í ástarsögum þá fælu þær einnig í sér ákveðna uppreisn, þó ekki væri nema bara í þeirri staðreynd að á meðan kona sökkvir sér ofan í lestur þeirra þá er hún ekki til taks fyrir eiginmann og börn að láta þjóna sér. Auk þess sem lesendur, sem vissulega flestir eru konur samsami sig ekki endilega við, oftar en ekki bljúgar kvenhetjur þessara sagna heldur ekki síður við karlmennina og mætti þannig líta á sem fantasíur þótt umgjörð og athafnir séu iðulega raunræislegar.
Hér eru þrautreynd frásagnartækni á ferðinni sem má rekja langt aftur í aldir og sem gjarnan er beitt í hvers kyns afþreyingarbókmenntum sem slá sölumet um allan heim líkt og bækur Jenny Colgan um Litlu bókabúðina í Hálöndunum og Litla bakaríið við Strandgötuna og fleiri um, að því er virðist, ýmis vinkvennapör.
Jenny Colgan var tuttugu og átta ára árið 2000 þegar hún sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu Amanda´s Wedding og þá virðist ekki hafa verið aftur snúið því fram til ársins 2008 kom ein bók á ári frá henni. Árið 2009 kom engin bók en svo hélt flæðið áfram og stundum tvær bækur á ári oftar en ekki sem hluti af seríum.
Bókaútgáfan Angústúra sem var stofnuð árið 2016 var fljót að ná sér í réttin að Jenny Colgan bókunum og hefur nú gefið út íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal að minnsta kosti sjö bækur um margvíslegt bras og ástarævintýri á litlu eyjunni Murne eða í hálöndunum. Ég greip nýlega í hönd nýjustu bók Jennyar í íslenskri þýðingu, Á fjarlægri strönd. Þetta er stutt skáldsaga um kennslukonuna Lornu sem býr í hinu agnarsmáa bæjarsamfélagi eyjarinnar Murne. Bókin hefst þó ekki þar heldur í einhvers konar skráningarstöð fyrir flóttamenn þar sem læknirinn Saif frá Sýrlandi er frásagnarmiðjan. Saif er augljóslega búinn að ganga í gegnum miklar þrengingar á flótta sínum frá stríðsátökunum í Sýrlandi það er ekki nákvæmlega sagt frá það hvernig Saif veit hvað til síns friðar heyrir gefur til kynna að hann hefur oft staðið í skráningu, það hellist líka yfir hann sorg og einhvers staðar er Saif spurður um fjölskyldu og svarar: Við urðum ... viðskila ... og getur svo ekki sagt meira fyrr en hálfri blaðsíðu síður. „Á bátnum.“ Það þarf ekki að segja meira, hinn vestræni lesandi veit allt um hryllilegar bátsferðir flóttamanna yfir hafið úr sjónvarpinu og öðrum fjölmiðlum. Þannig virkar skáldskapurinn.
Hér má hlýða á viðtal við Þorgerði Öglu Magnúsdóttur og Maríu Rán Guðjónsdóttur sem reka bókaútgáfuna Angústúru.