SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn19. október 2017

KYNLEGIR KVISTIR: Saga, kyn og kynhneigð i skáldsögunni Orlandó

Orlandó eftir Virginíu Woolf í þýðingu Soffú Auðar Birgisdóttur

Grein eftir Kristínu Viðarsdóttur

 

Virginia Woolf (1882-1941) var einn af frumkvöðlum módernismans í bókmenntum á Bretlandi og meðal helstu meðlima hins fræga hóps listamanna sem kenndur var við Bloomsbury hverfíð í London. Eftir hana liggja bæði skáldsögur, smásögur, leikrit, dagbækur og fræðigreinar, auk þess sem hún starfaði sem bókmenntagagnrýnandi hjá Times Literary Supplement allt frá árinu 1905 nánast fram til dauðadags. Skáldsögur hennar Jacob's Room (1922) og Mrs. Dalloway (1925, á íslensku í þýðingu Atla Magnússonar 2017) eru taldar til brautryðjendaverka módernismans en árið 1922 komu einnig út skáldsaga James Joyce, Ulysses og ljóðabálkurinn The Waste Land eftir T.S. Eliot. Woolf er meðal annars þekkt fyrir svokallað vitundarstreymi í skáldskap sem sjá má í ofangreindum verkum og fleiri sem á eftir komu, svo sem skáldsögunum To the Lighthouse (1927, á íslensku í þýðingu Herdísar Hreiðarsdóttur 2014) og The Waves (1931). Woolf er ekki síður þekkt fyrir skrif sín um konur og bókmenntir, sérstaklega ritgerðina A Room of One's Own (1929, á íslensku í þýðingu Helgu Kress 1983) sem er byggð á fyrirlestrum sem Woolf hélt við kvennaháskólana Girton og Newnham í Cambridge árið 1928, sama ár og skáldsaga hennar Orlando, a Biography kom út (á íslensku í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttur 2017).

Í Sérherbergi fjallar Woolf um tengsl kvenna og bókmennta á sérstæðan og skemmtilegan hátt, meðal annars með því að beita fyrrnefndu vitundarflæði ásamt beittri íróníu, og hefur bókin haft gífurleg áhrif á umræðu um konur og bókmenntir allt fram á þennan dag. Sjá má vissar hliðstæður, bæði í stíl og umræðunni um stöðu kvenna, með Sérherbergi og Orlandó og mun ég fjalla um sumar þeirra hér á eftir. I báðum þessum verkum setur Virginia Woolf einnig fram hugmynd um það sem hún kallar „tvíkynja huga“, þótt hún gangi mun lengra með þá hugmynd í Orlandó þar sem persónan Orlandó er ýmist karl eða kona og upplifun hennar og kynhneigð ekki endilega í „samræmi“ við líffræðilegt kyn hennar hverju sinni. Þessi „kynlegi“ sveigjanleiki Orlandó minnir um sumt á nýrri kenningar póststrúktúralískra fræðimanna, sérstaklega það sem á íslensku hefur verið kallað „kyngervisusli“ en Virginia Woolf skilur sig líka að sumu leyti frá þeim. Það er til dæmis tæplega gengið eins langt í því að afbyggja hugtök á borð við kyn og kyngervi í Orlandó og í þeirri bók bandarísku fræðikonunnar Judith Butler sem uslinn sækir nafn sitt til, Gender Trouble. Kynin eru greinilega tvö í texta Virginiu Woolf og framsetning þeirra eða birtingarmynd og reynsla að sama skapi ólík þótt ein og sama manneskjan geti borið þau bæði í sér.

Annað mikilvægt umræðuefni í Orlandó er, eins og undirtitill verksins vísar til, form ævisögunnar og tekst Woolf að flétta þá umræðu afar skemmtilega saman við umræðuna um kyn og kyngervi Orlandós svo úr verður leikur að og með hina hefðbundnu ævisögu sem samkvæmt hefðinni snýst fyrst og fremst um karla.

 

Að skapa œvi

Orlandó er sjötta skáldsaga Virginiu Woolf og tileinkar hún bókina náinni vinkonu sinni og ástkonu, rithöfundinum Vitu Sackville-West. Það var ekkert launungarmál að Vita var fyrirmyndin að Orlandó og til marks um það prýddi ljósmynd af Vitu kápuna á fyrstu útgáfu bókarinnar. Bókin á þannig að vissu marki rætur að rekja til persónu og lífs Sackville-West en engu að síður er Orlandó fyrst og fremst nokkurs konar söguleg fantasía þar sem saga Orlandós er rakin í fjórar aldir, fyrst sem karlmanns og síðan sem konu. Þótt tengslin við Sackville-West geti vakið forvitni um ævi þessarar sérstöku konu og samband hennar við Woolf skipta þau ekki sköpum fyrir lesanda bókarinnar því textinn stendur fullkomlega fyrir sínu án vitneskju hans um þessi tengsl. Þau styrkja hins vegar pólitískar vísanir textans því vegna kynferðis síns stóð Vita frammi fyrir mörgum hindrunum sambærilegum þeim sem Orlandó tekst á við í sínu lífi og geta ef til vill virst vera „hreinn“ skáldskapur fyrir lesanda bókarinnar í dag.

Í upphafi bókar er Orlandó unglingspiltur á landareign föður síns. Hann fer síðan til hirðar Elísabetar drottningar sem tekur ástfóstri við hann og veitir honum góðar stöður og brautargengi, verður ástfanginn af rússneskri prinsessu sem síðar svíkur hann, og fer loks sem sendiherra til Konstantínópel þar sem hann verður fyrir þeirri stórkostlegu umbreytingu að vakna einn daginn sem kona eftir sjö daga svefn. Eftir þessa endurfæðingu segir Orlandó skilið við opinbera stöðu sína (í mörgum skilningi) og dvelur með sígaunum þar til hún snýr aftur til Englands og kemst þá að því að hún á sér varla nokkra lagalega tilveru. Dómsmál fer í gang til að skera úr um tilvist hennar, kyn og erfðarétt og á meðan heldur tíminn áfram að líða án þess að Orlandó eldist að nokkru marki. Hún klæðist ýmist sem kona eða karl og tekst þannig að halda nokkru frelsi og getur meðal annars ferðast ein og ótrufluð og notið ásta kvenna jafnt sem karla.

Orlandó er lengst framan af ein(n) og óbundin(n) ef frá eru taldar óljósar sögusagnir um hjónaband hans og sígaunakonu, en beygir sig loks undir kröfu Viktoríutímans og finnur sér eiginmann og eignast síðar með honum son. Woolf lýsir þessu tímabili í sögu Bretlands á mjög myndrænan hátt og verða aldaskilin í textanum skörpust við upphaf 19. aldar, skömmu áður en Viktoría tekur við völdum. Hjónaband Orlandós er þó fyrst og fremst nauðsyn, þar sem hún hefur mun meiri áhuga á að ná sér í elskhuga en eiginmann, og í samræmi við það er eiginmaðurinn að mestu fjarverandi við siglingar og síendurtekinn sjávarháska við Hornhöfða. Með hjónabandinu tekst Orlandó að vissu marki að leika á samfélagslegar kröfur tímans enda er hún sjálf ekki alveg viss um að hafa uppfyllt þær og veltir því fyrir sér hvort hjónaband hennar sé í raun gott og gilt:

 

Hún var gift, það var staðreynd, en ef eiginmaður manns var í stöðugum siglingum fyrir Hornhöfða, var þá hægt að tala um hjónaband? Ef manni líkaði við hann, var þá hægt að tala um hjónaband? Ef manni líkaði við annað fólk, var þá hægt að tala um hjónaband? Og síðast en ekki síst, ef maður óskaði sér meira en nokkurs annars í allri veröldinni að skrifa kvæði, var þá hægt að tala um hjónaband?4

 

Allt frá upphafi textans hefur Orlandó verið að reyna að skrifa og fylgir ljóðið „The Oak Tree“ honum/henni hvert sem hann/hún fer þar til hún fær það loks útgefið undir lok textans. Þegar þar er komið sögu er Orlandó kona um þrítugt sem hefur fengið dómsúrskurð um tilveru sína og kyn, en fær aðeins að halda landareign sinni í nafni sonarins sem hún hefur eignast.5 Sögumaður segir skilið við hana á miðnætti þann 11. október árið 1928 við eikartréð á landareign hennar þar sem hún tekur á móti elskhuga sínum og eiginmanni af himni eftir að hafa vísað „drottningunni sálugu“ (263) inn í hús föður síns. Þarna er vísað til upphafs sögunnar þar sem Elísabet drottning stígur inn í hús föður Orlandós og innsiglar eignarrétt hans á því eftir að hafa hrifist af hinum unga Orlandó (23). Sagan hefur farið í hring og Orlandó stendur að vissu leyti í sömu sporum og í upphafi, húsið er enn hús föður hennar, en jafnframt er það draugahús sem er byggt á blekkingu: „Veggi og burðarvirki var ekki að sjá. Allt var tálsýn“ (263). Orlandó virðist að einhverju leyti skilja sig frá þessari föðurarfleifð sinni en tekur þess í stað á móti ástmanni/eiginmanni sínum og kynin sameinast þannig í lokin á táknrænan en upphafinn hátt þar sem villtur fugl hefur sig til flugs yfir höfðum þeirra.

Orlandó er, eins og áður sagði, sögulegt verk þar sem rammi textans er Bretland eða breska heimsveldið allt frá tímum Elísabetar drottningar (16. öld) fram til ritunartíma verksins (1928). Verkið er einnig pólitískt þar sem fjallað er um tengsl sjálfsveru, kyngervis og tíma og sérstök áhersla lögð á stöðu kvenna og möguleika þeirra til að skrifa, ekki síst hvað þær megi skrifa um og hvernig. Sagan er sögð af ævisöguritara Orlandós sem gefur ekki upp kyn sitt, eða er öllu heldur, eins og hann segir sjálfur, kynlaus eins og allir ævisagnaritarar og sagnfræðingar (177). Woolf leikur sér mikið með stöðu þessa skrásetjara og hlutleysi hans sem hún sýnir fram á að er aðeins blekking og felst afbygging textans ekki síst í þessum leik. Sögumaður leggur áherslu á að hann taki ekki afstöðu heldur haldi sig aðeins við staðreyndir og segi frá hlutunum eins og þeir séu, en textinn gengur að verulegu leyti út á það að sýna að hlutirnir (og manneskjurnar) séu ekki endilega það sem þeir sýnast vera, allt sé breytingum undirorpið og veruleikinn sé háður sjónarhorni og túlkun þess sem horfir. Skrásetjarinn getur aldrei náð utan um allan veruleikann, hann velur því úr og skeytir saman í samræmi við sjónarhorn sitt og það form sem hann velur sér hverju sinni. Í þessu tilfelli er það form hinnar hefðbundnu ævisögu og reynir sögumaður að fella texta sinn að þessari hefð en mistekst það hins vegar gersamlega. Strax í upphafi verks lýsir hann hlutverki sínu bjartsýnn því líf Orlandós virðist stefna í að vera hið fullkomna viðfangsefni ævisagnaritarans:

 

Hamingjusöm var móðirin sem ól hann, enn hamingjusamari ævisagnaritarinn sem skráir lífsferils slíks manns! Aldrei þyrfti hún að hafa áhyggjur né hann að leita í smiðju skáldsagnahöfundar eða ljóðskálds. Frá afreki til afreks, frá vegsemd til vegsemdar, frá embætti til embættis myndi vegur hans liggja, með skrásetjarann á hælum sér, þar til þeim hátindi yrði náð sem hugur þeirra beggja stæði til. Ásýndar var Orlandó sem skapaður fyrir einmmitt slíka lífsbraut. (16)

 

Þarna er raunar gefið í skyn að ævisagnaritarinn sé karlkyns, sem er ef til vill það sama og kynleysi því karlkynið, hefð þess og sjónarhorn virðast í meðförum sögumanns vera nokkurs konar algildi í anda kenninga Simone de Beauvoir. Það samræmist einnig þessu algildi karlkynsins að samkvæmt þeirri ævisagnahefð sem gengið er útfrá í tilvitnuninni er viðfangsefni ævisögunnar karl og hlutverk ritarans að skrásetja opinbera sigra hans án allrar hjálpar ímyndunaraflsins. Ævisagan á sem sagt ekkert skylt við skáldskap en engu að síður neyðist sögumaður oft til að grípa til ímyndunaraflsins þegar heimildir um ævi Orlandós þrýtur. Skjölin sem hann hefur aðgang að eru bókstaflega full af eyðum (raunverulegum götum) og aðrar heimildir eru óljósar, sögur heimildarmanna stangast á og eru aukþess fullar af getgátum. Sögumaður missir því tökin á viðfangsefni sínu og tekst heldur ekki að gefa eina heildstæða mynd af Orlandó, enda varla um eitt heildstætt sjálf að ræða þar sem tvö kyn og margir ólíkir tímar búa í Orlandó. Sögumaður þykist samt alls ekki vera að fjalla um kyn eða kynferði í texta sínum, eins og sjá má af orðum hans: „En látum öðrum höfundum eftir að fjalla um kyn og kynferði og yfirgefum svo ógeðfellt viðfangsefni hið snarasta“ (115). Textinn er fullur af slíkum írónískum mótsögnum milli orða sögumanns og þess sem hann svo gerir en uppáþrengjandi nálægð hans og athugasemdir benda á hlut hans í að skapa þá ævi sem hann er að segja frá.

Á öðrum stað í frásögninni er þetta hlutverk skrásetjarans svo beinlínis gert að umræðuefni og látið í það skína að það sé kannski fyrst og fremst hann sem geri líf þess sem hann skrifar um merkilegt í augum þeirra sem koma á eftir: „Var þetta líf eins spennandi, eins merkilegt, eins dýrðlegt og það hljómar þegar ritari æviminninganna hefur sett sitt mark á það?“ (172). Um leið og textinn sýnir fram á útilokun kvenna frá hefðinni afbyggir hann tengsl texta og veruleika og hugmyndin um sannleika ævisögunnar er fyrir borð borin. Ævi Orlandós reynist heldur ekki vera þetta fullkomna viðfangsefni því innra líf hans/hennar er mun fyrirferðarmeira í frásögninni en ytri dáðir. Sérstaklega kemst sögumaður í hann krappan eftir að Orlandó hefur breyst í konu. Eins og nánar verður fjallað um hér á eftir telur þessi ævisagnahefð líf kvenna varla í frásögur færandi og uppfyllir það raunar ekki skilyrði um það hvað telja megi til „lífs“. „Lífið“ er þá aðeins talið fela í sér ytri athafnir, eitthvað sem er sýnilegt og mælanlegt og helst verður að vera hægt að sýna blóð líka (214). Þegar konur eiga í hlut má hins vegar notast við ástina sem söguefni, en óhugsandi er að tilfinningar og hugsanir geti verið efni í frásögn: „Ef svo er komið að aðalpersóna ævisögu fæst hvorki til að elska né drepa, en vill bara hugsa og láta sig dreyma, gætum við dregið þá ályktun að hún sé svo gott sem dauð og látið hana róa“ (218). Hér beinir Woolf spjótum sínum ekki aðeins að ævisögunni heldur einnig karllægri hefð realismans í bókmenntum og karlkyns rifhöfundum sem samkvæmt Orlandó skilgreina ekki aðeins hvað má skrifa um heldur einnig hvað viðfangsefnin fela í sér.

 

. . . kyn

Í upphafi er Orlandó, eins og áður sagði, ungur karlmaður og er athyglinni beint að kyni hans í fyrsta orði textans:

 

Hann – þar sem enginn vafi lék á kynferði hans þó að tíska þessa tíma gerði nokkuð í að leyna því – var að leika sér að því að sveifla sverði sínu í áttina að höfði Mára sem hékk niður úr rjáfrinu. Litarraft þess minnti á gamlan fótbolta og það sama gilti reyndar um lögunina að undanskildum innföllnum kinnunum og grófgerðum, þurrum hárlýjum á stangli sem líktust helst loðnunni á kókoshnetu. Faðir Orlandós, eða ef til vill afi hans, hafði sneitt það af öxlum heiðingja sem hafði gert honum bylt við í tunglsljósi á hinum frumstæðu sléttum Afríku og núna sveiflaðist það mjúklega, án afláts, í dragsúginum sem stöðugt blés um háaloftið í gríðarstóru húsi lávarðarins sem hafði ráðið honum bana. (15)

 

Þessi gróteska lýsing á aðförum Orlandós er í hróplegri mótsögn við flestar aðrar lýsingar á honum/henni í sögunni en uppfyllir hins vegar á írónískan hátt allar þær kröfur sem hin hefðbundna ævisaga gerir. Þarna er á ferðinni karl sem hikar ekki við að grípa til aðgerða og er hlekkur í keðju karla eða feðra, það er beinn arftaki karllægrar hefðar. Þetta er hinn breski hefðarmaður sem ferðast um heiminn, nær taki á honum og leggur hann undir sig. Orlandó hyggst feta í fótspor feðra sinna en þar sem hann er aðeins sextán ára er hann enn dæmdur til að hanga í pilsfaldi móður sinnar sem er bundin húsinu og garðinum þar sem páfuglar ráfa um. Woolf tekst að vefa saman í einni efnisgrein nokkra mikilvægustu þræði textans, samband kyns, tíma og ásýndar eða dulargervis og bendir einnig á landvinningastefnu breska heimsveldisins og yfirgang þess gagnvart framandi menningu. Orlandó virðist vera á góðri leið með að feta í fótspor feðra sinna framan af sögu. Hann er gerður að fulltrúa lands síns í Konstantínópel og gegnir einnig öðrum virðingarstöðum heimsveldisins, en ást hans á ljóðlist, hugsanir hans og tilfinningalíf trufla sífellt frásögnina af ytri atburðum og taka æ meira pláss í textanum þrátt fyrir góðan ásetning sögumanns.

Staða Orlandós tekur þó fyrst verulegum breytingum eftir að hann hefur umbreyst í konu. Hún yfirgefur opinbera stöðu sína í Konstantínópel án nokkurra málalenginga og segir í fyrstu skilið við eigin menningu þegar hún sest að hjá sígaunum. Þegar hún svo snýr aftur til Englands þarf að fara fram dómsmál til að skera úr um það að hún sé í raun til: „Helstu ákærurnar sneru að því að (1) hún væri látin og gæti þar af leiðandi ekki átt neinar eignir; (2) hún væri kona, sem hefur í aðalatriðum sömu afleiðingar” (139). Þessi íróníska framsetning á stöðu hennar verður enn beittari sé það haft í huga að dómsmálið tekur meira en hundrað ár og það er ekki fyrr en eftir að hún hefur fundið sér eiginmannsefni sem úrskurðurinn fæst:

 

„Kynferði mitt,“ las hún nokkuð hátíðlega, „er úrskurðað óvéfengjanlega og án nokkurra tvímæla (hvað var ég ekki að segja þér áðan, Shel?) kvenkyns. Þær eigur mínar sem settar voru í umsjá réttarins verða áfram á lagalegu forræði hans og erfðarétturinn lögbundinn og mun ganga til erfingja af karlkyni sem fæddur er af mínum líkama. (159)

 

Sem kona getur hún ekki tekið við föðurarfleifðinni því hún er, eins og orðið sjálft gefur til kynna á íslensku, einungis ætluð körlum. Erfðarétturinn gengur frá föður til sonar kynslóð fram af kynslóð líkt og konur væru ekki til (nema þá sem líkamar sem fæða af sér syni) og má auðveldlega heimfæra þessa lagalegu stöðu Orlandós og ósýnileika upp á stöðu kvenna í bók-menntahefðinni. Í Sérherbergi fjallar Woolf ítarlega um útilokun kvenna frá þeirri hefð, hvernig þeim var neitað um menntun, fjármuni og tækifæri til að skrifa og þær hafi því til skamms tíma ekki haft neina kvenlega bókmenntahefð að styðja sig við.7 Woolf telur bókmenntahefð karla vera ónothæfa fyrir konur því með henni geti þær ekki tjáð reynslu sína og því verði þær að skapa sér sína eigin kvenlegu hefð (Sérherbergi, 107-8). Í Orlandó segir að karlhöfundar reki konur á hol með penna sínum (173) og virðast þær samkvæmt því ekki eiga sér líf í skrifum karla. Þegar Orlandó tekur einu sinni sem oftar til við að skrifa ljóð sitt um eikartréð heima í stofu eftir heimkomuna frá Konstantínópel finnst henni sem einhver standi yfír henni og fylgist með því sem hún skrifar. Viðkomandi fettir fingur út í skrif hennar og finnst þau ekki konu sæmandi og má ætla að þar sé kominn karlkyns fulltrúi bókmenntastofnunarinnar og hefðarinnar sem getur ekki unnt konum þess að skrifa á eigin forsendum.

Woolf bendir einnig á að konur hafi verið ósýnilegar í sagnfræði og ævisögum og nánast ekkert sé vitað um líf þeirra íyrir 18. öld (Sérherbergi, 67). Þessum ósýnileika tengist svo líka krafan um skírlífi kvenna, en það var meðal annars hennar vegna sem þær máttu ekki eiga sér sjálfstæða tilveru. Því var illmögulegt fyrir þær að skrifa og ekki síður að koma skrifum sínum á framfæri. Konur skrifuðu oft undir dulnefni eða þá að verk þeirra voru eignuð körlum, líkt og gerist hjá Orlandó í lok átjándu aldar þegar athafnir hennar og skáldskapur eru eignuð frænda hennar vegna þess að hún getur ekki komið óheft fram og í eigin persónu sem kona (177).

Samkvæmt textanum eru konur á þessum tíma ekki til í samfélagslegum skilningi nema í sambandi sínu við karla, þær eru ekki álitnar hafa sjálfstæðar þrár, heldur aðeins geðhrif og fái þær ekki örvun frá körlum hafa þær ekkert að segja hver við aðra. Tal þeirra er að sama skapi ekki talið áhugavert fyrir „neinn“ sem þýðir þarna greinilega það sama og karlmenn og er þar enn og aftur bent á algildi karlkynsins í tungumálinu og menningunni (177). Þessi orð og fleiri í sama dúr eru lögð í munn nokkrum körlum þegar konan Orlandó drekkur og skemmtir sér konunglega með nokkrum vændiskonum. Þannig er teflt saman viðhorfum karla til kvenna og þeirri andstæðu reynslu sem konurnar sjálfar verða fyrir. Slíkar hugmyndir karla um konur eru því fyrst og fremst byggðar á goðsögn eða blekkingu en konurnar í Orlandó taka á vissan hátt þátt í að viðhalda þeirri blekkingu með því að laga sig að samfélagslegum hugmyndum um kvenleika, oft að því er virðist á meðvitaðan hátt. Þær haga sér öðruvísi í návist karla, líkt og ein vændiskonan þegar hún heldur að Orlandó sé karl, og leika þannig ákveðið hlutverk sem fyrst og fremst þjónar þeim tilgangi að staðfesta „karlmennsku“ karlsins:

 

Að finna hana halda létt en auðmjúkt um arm sinn magnaði upp í Orlandó allar þær tilfinningar sem hæfa karlmanni. Útlit hennar, tilfinningar og tal heyrði allt til því kyni. Eigi að síður, þar sem hún hafði sjálf verið kona undanfarið, grunaði hana að feimni stúlkunnar, hik hennar í tilsvörum og jafnvel klaufagangur hennar við að stinga lyklinum í læsinguna og hvernig hún lagði frá sér kápuna og lét únliðinn hanga, væri allt sett á svið til að örva karlmennsku hennar. (175)

 

Stúlkan birtist Orlandó sem eitthvað allt annað en hún í raun er og má sjá þetta sem hluta af fyrrnefndum ósýnileika kvenna og tengja þeirri blindu sem sögumaður talar um þegar hann segir: „Því verr sem við sjáum, þess heitar trúum við“ (165).

Í Orlandó og Sérherbergi fjallar Woolf um þetta viðfangsefni í sögulegu samhengi og bendir á að konur hafi smám saman orðið sýnilegri og meðal annars tekið að skapa sér eigin hefð sem byggi ekki á hugmyndum karlkyns rithöfunda og prófessora um það hvað konur geti og eigi að fjalla um og hvernig. Hagur kvenna vænkast þó ekki endilega því á tímum Viktoríu drottningar (19. öldinni) eru konur innilokaðar sem aldrei fyrr á heimilum sínum við endalausar barneignir, heftar af krínólínum sem samkvæmt Orlandó eiga að fela næstum sleitulausa þungun þeirra og þá skömm sem fylgir kvenlíkamanum. Hjónabandið verður band sem bindur konur bókstaflega við eiginmenn sína á þessu tímaskeiði þannig að þær geta ekki hreyft sig án þeirra og dregur Woolf upp stórkemmtilega mynd af þessu óaðskiljanlega pari, mynd sem verður um leið grótesk þar sem líkamar karls og konu virðast hafa vaxið saman (193). Þessi líkamlegi samvöxtur á þó ekkert skylt við það sem Woolf kallar „tvíkynja huga“ og telur vera forsendu skapandi hugsunar, bæði í Orlandó og Sérherbergi.

 

. . . kyngervi og kynhneigð

Í Sérherbergi setur Virginia Woolf fram þá kenningu að í huga mannsins búi tvö kyn, kvenkyn og karlkyn. Hún telur að þessi ólíku öfl þurfi að sameinast í hverjum og einum og takist það verði öll sköpun óheftari þegar hún losnar undan hamlandi kynvitund. Kona geti þá skrifað eins og hún hafi gleymt því að hún sé kona og karlar noti ekki aðeins karlhluta heilans við sín skrif. Hún talar um að það trufli einingu hugans að hugsa um annað kynið óháð hinu því þau bæti hvort annað upp og þeim sé eðlislægt að vinna saman (Sérherbergi, 135-6). Þetta getur virst stangast á við þá áherslu sem hún leggur á að konur skapi sér sína eigin hefð óháð körlum og reynslu þeirra en bendir um leið til þess að hún gangi út frá því að til sé eitthvað sem kalla mætti „kveneðli“ og „karleðli“ þótt þetta tvennt blandist saman í einni og sömu manneskjunni. Hún er þó kannski fremur að lýsa einhvers konar framtíðarsýn þar sem hið karllæga í menningunni er ekki yfirskipað hinu kvenlega heldur öðlist bæði þessi öfl jafnháan sess og hin skarpa aðgreining þeirra verði því óþörf.

Í Orlandó dregur sögumaður einnig upp mynd af þessum tvíkynja huga þar sem aðgreining kynjanna er í senn undirstrikuð og dregin í efa:

 

Þótt kynin séu ólík eiga þau samleið. Í öllum manneskjum má finna sveiflur frá öðru kyninu til hins og oft eru það bara fötin sem vísa til karlmanns eða kvenmanns þótt undir niðri búi annað kyn en það sem sýnist. Vandræðaganginn og ruglinginn sem af þessu leiðir þekkja allir. (155)

 

Einnig segir að munurinn á kynjunum sé: „Til allrar hamingju […] mjög djúpstæður“ (154). Þannig virðast vissir eiginleikar „kvenlegir“ í eðli sínu og aðrir „karllegir“ en þeir fara samkvæmt þessu ekki endilega saman við líffræðilegt kyn manneskjunnar heldur blandast saman og er mismunandi hvor þátturinn er ráðandi. Það er engu að síður menningarlega skilyrt hvernig þessir þættir koma fram og eru túlkaðir og klæðist einstaklingurinn búningi annars kynsins verður hann að hegða sér samkvæmt því.

Orlandó verður að skipta um búning vilji hún losna undan þeim höftum sem kvenkynið bindur hana í. Hún verður að sýnast vera karlmaður og við það breytist bæði túlkun annarra á persónu hennar og framkoma í hennar garð. Þarna er kyngervið sett fram sem leikbúningur eða jafnvel leikþáttur og konur, að minnsta kosti, eru samkvæmt því fyrst og fremst að leika fyrirframákveðið hlutverk sem menning þeirra úthlutar þeim á hverjum tíma.

Svipaða afstöðu til hlutverkaleika kynjanna má sjá í annarri breskri skáldsögu, Sexing the Cherry eftir Jeanette Winterson frá árinu 1989, en hún hefur komið út í íslenskri þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur.8 Þar reynir önnur aðalpersónanna einnig að losna undan oki síns venjubundna kyngervis með því að klæðast búningi hins kynsins, þótt því sé ekki gert skóna að með því einu að skipta um búning geti menn íklæðst nýju kyngervi. Jordan er ungur karlmaður sem um tíma „leikur“ konu með því að kJæðast kvenfötum og kemst hann þá að því að konur eiga sitt eigið tungumál sem karlar hafa ekki aðgang að. Honum finnst hann vera „ferðalangur í ókunnu landi“ (Winterson, 29) og verður fyrir menningarsjokki þegar hann uppgötvar að konur leika ákveðið en mjög meðvitað hlutverk í samskiptum sínum við karla. Kynni hans af konum „innan búðar“ fylla síður en svo upp í þá mynd sem hann hefur fram að þessu haft af þeim og upplifun hans er að þessu leyti svipuð reynslu Orlandós eftir kynskiptin. Líkt og hjá vændiskonunni í Orlandó miðar hlutverkið ekki síst að því að viðhalda blekkingu karlsins um eigin yfírburði og þar með karlmennsku en eitt af því sem Jordan lærir eru nokkrar grundvallarreglur um karla (nokkurs konar boðorð) og hvernig beri að umgangast þá.

Samkvæmt þessu lifa kynin í afmörkuðum og andstæðum menningarheimum (ekki þó á Mars og Venus eða neinu yfirskilvitlegu plani) sem meðlimir hins kynsins hafa ekki aðgang að nema þeir sigli undir „fölsku flaggi“.Viðhorf þeirra og væntingar hafa þó mikil áhrif á hvernig hitt kynið er tjáð eða birt, sérstaklega að því er virðist kvenkynið.

Orlandó veltir því fyrir sér hvernig þetta gerist þegar hún kemst að því eftir umbreytinguna, líkt og Jordan, að hegðun kvenna á lítið skylt við það hvernig þær eru undir gervinu. Hún uppgötvar að sem karlmaður hefur hún ekki haft hugmynd um hvernig konur séu í raun og veru og einnig að sem kona fari hún sjálf að hegða sér á einhvern annan hátt en henni sé eðlilegt. Hún fer til dæmis að hylja fótleggi sína sem fram að því hafa vakið aðdáun, en verða nú allt í einu ósæmilegir og beinlínis hættulegir öryggi sjómanna um borð í skipinu sem hún fer með til Englands (131). Sjónarhorn Orlandós og framtíð breytast eftir kynskiptinguna. Hún getur nú horft á bæði kynin, eða kyngervin, frá sjónarhóli beggja kynja, en með þessu tvöfalda sjónarhorni er staða kvenna að vissu marki framandgerð og sýnt fram á hve fáránleg og tilbúin hún í raun er. Þótt Orlandó sé orðin kona býr hún enn yfir reynslu karls og þekkir meðal annars viðhorf hans til kvenna, en getur um leið skoðað þessi viðhorf í ljósi kvenlegrar reynslu sinnar. Hún gengur í gegnum ákveðið ferli þar sem hún tekur að lúta leikreglum sem hún þó veit að eru tilbúningur og virðist þannig ýtt undir þá hugmynd að þótt líffræðin skapi mönnum kannski ekki örlög á þann hátt sem Freud gerði ráð fyrir geri menningin það að minnsta kosti.

Þetta má að vissu marki heimfæra upp á kenningar Judith Butler í bók hennar Gender Trouble þar sem hún heldur því fram að í vestrænni menningu sé sú krafa við lýði að kyn (sex), kyngervi (gender) og kynferði eða kynhneigð (sexuality) falli saman og því skipti í raun ekki meginmáli hvort talað sé um kyn eða kyngervi. Hún telur að hugtakið „kona“ geti ekki staðið fyrir eina sameiginlega sjálfsmynd (identity) eða reynslu. Engu að síður sé einstaklingnum gert skylt að falla inn í ákveðið kyngervismót sem miði að því að gera hann „skiljanlegan“ í menningunni. Samkvæmt þessu er sjálfsmyndin í raun tilbúningur sem byggir ekki á reynslu heldur kemur þvert á móti á undan henni. Butler heldur því fram að persónan sé því aðeins skiljanleg að kyngervi og kynhneigð „fylgi“ líffræðilegu kyni og því sé gagnkynhneigð ekki aðeins eina viðurkennda kynhneigðin heldur sé allt kyngervis- og sjálfsmyndarmótið reist á henni. Þær „kyngervuðu“ verur (gendered beings) sem víki frá þessu líkani, það er ef kyngervi og/eða kynhneigð eru ekki „í samræmi“ við kyn viðkomandi, séu ekki „skiljanlegar“ í menningunni og því sé litið á þær sem röklega ómögulegar:

 

Inasmuch as „identity“ is assured through the stabilizing concepts of sex, gender, and sexuality, the very notion of „the person“ is called into question by the cultural emergence of those „incoherent“ or „discontinuous" gendered beings who appear to be persons but who fail to conform to the gendered norms of cultural intelligibility by which persons are defined.

 

Í samræmi við þessa greiningu Butler verður Orlandó að taka upp nýtt kyngervi þegar líkami hans skiptir um kyn og sé það henni ekki eiginlegt verður hún að leika það. Butler talar raunar um kyngervi sem „performance“ eða gjörning en þó ekki þannig að um meðvitaðan leik sé að ræða eða búning sem hægt er að bregða sér í og úr eftir hentugleikum eins og Orlandó virðist geta gert. Öllu heldur er þetta gjörningur sem byggir á stöðugri endurtekningu og hann hefur það að markmiði að viðhalda andstæðutvennd tveggja kyngerva um leið og hann grundvallar sjálfsveruna og heldur henni saman (Butler, 140).

Eins og áður sagði virðist Woolf hins vegar gera ráð fyrir því að til séu eiginleikar sem í sjálfum sér eru kvenlegir eða karllegir þótt þeir séu óháðir líffræðilegu kyni einstaklingsins. Þannig er það fyrst og fremst breyting innra með Orlandó sjálfri sem fær hana til að tjá sig á þann hátt sem hún gerir hverju sinni:

Fötin eru aðeins tákn fyrir eitthvað sem leynist djúpt fyrir innan þau. Það var sjálf breytingin sem varð á Orlandó sem réð því að hún valdi sér kjóla og kynferði konu. Og með því var hún ef til vill einfaldlega að tjá á opnari hátt en venja er – hún var einstaklega opin að eðlisfari – eitthvað sem gerist hjá öllum manneskjum án þess að það sé svona hreinskilnislega tjáð. (154-155)

Þarna kemur kyn hugans greinilega á undan líkamlegri og menningarlegri framsetningu þess og virðist vera fullkomin samfella milli hugar, líkama og tjáningar. Þetta er í nokkurri mótsögn við annað í textanum því sífellt er bent á að hlutverkaleikir kynjanna eru oftar en ekki í ósamræmi við innri reynslu þeirra, eins og ég hef þegar fjallað um, og verða þeir oft mjög fyndnir í texta Woolf, sérstaklega þegar persónurnar verða ofurmeðvitaðar um kynhlutverk sín. Stíllinn verður þá á stundum afar leikrænn eins og þegar „erkihertogaynjan“ Harriet heimsækir Orlandó og játar fyrir henni að „hún“ sé í raun erkihertoginn Harry. Hann dulbjó sig áður sem konu vegna ástar sinnar á Orlandó fyrir kynbreytingu hennar en nú hafa þau skipt um hlutverk og hegða sér samkvæmt því og eykur þessi umsnúningur kynhlutverkanna enn á farsakennt háðið:

 

Vakin þannig aftur til vitundar um kyn sitt, sem hún hafði alveg gleymt, sem og hans, sem var nú nægilega framandlegt til að koma henni í uppnám, fannst Orlandó sem hún væri við það að hníga í ómegin.

„Je minn eini!“ hrópaði hún upp og dró að sér arminn, „hvað þú gerðir mér bilt við!“

„Dásamlega vera,“ hrópaði erkihertoginn og um leið og hann lét sig falla niður á annað knéð bar hann hjartastyrkjandi upp að vörum Orlandó, „fyrirgefðu mér blekkingarnar sem ég hef beitt þig!“

Orlandó dreypti á víninu en erkihertoginn kraup og kyssti hönd hennar.

Í stuttu máli, þá léku þau hlutverk karlmanns og kvenmanns af miklum móð í tíu mínútur en tóku að lokum upp eðlilegar samræður.“ (147-148)

 

Það mót gagnkynhneigðar sem Judith Butler segir samfélag okkar byggjast á kallar hún skyldugagnkynhneigð (compulsory heterosexuality) eða „hetero sexual matrix.“ Þessi hugtök eiga vel við um þann heim sem dreginn er upp í Orlandó, heim sem rúmar ekki þrá á borð við þá sem Orlandó og fleiri persónur verksins bera til einstaklinga af eigin kyni. Orlandó er tvíkynhneigð á sama hátt og hugur hennar er tvíkynja (sögumaður segir það raunar einungis vera vegna fylgni við venjur að hann noti „hún“ og „hennar“ í stað „hann“ og „hans“ eftir kynskiptin (115)), en hún getur ekki veitt samkynhneigðri þrá sinni útrás nema með því að dulbúast. Fyrir kynskiptin laðast Orlandó að rússnesku prinsessunni Söshu áður en hann veit hvort þar er á ferðinni karl eða kona og þráir hana enn eftir eigin kynskipti. Erkihertoginn þráir Orlandó hvers kyns sem hann/hún er og má því segja að það sé ekki hið líffræðilega kyn sem ákvarði þrá þeirra heldur standi það öllu heldur í veginum fyrir útrás hennar. Orlandó og erkihertoginn eru bæði „óskiljanlegar“ kynferðisverur svo notast sé við greiningu Butler, eða „kynlegir kvistir“, sérstaklega Orlandó sem dettur sífellt út úr „hlutverki“ gagnkynhneigðarinnar og brýtur upp þá samfellu kyns, kyngervis og kynhneigðar sem samfélagið gerir kröfu um. Um leið má þó segja að hún reyni á vissan hátt að viðhalda henni með því að klæðast þeim „búningi“ sem er viðeigandi hverju sinni og hegða sér samkvæmt því. Butler talar um að í uppbrotinu felist einmitt möguleikar til að umbreyta og losa um hið fastákvarðaða kyngervi:

 

If the ground of gender identity is the stylized repetition of acts through time and not a seemingly seamless identity, then the spatial metaphor of a „ground“ will be displaced and revealed as a stylized configuration, indeed, a gendered corporealization of time. The abiding gendered self will then be shown to be structured by repeated acts that seek to approximate the ideal of a substantial ground of identity, but which, in their occasional díscontinuity, reveal the temporal and contingent groundlessness of this „ground“. The possibilities of gender transformation are to be found precisely in thearbitrary relation between such acts, in the possibility of a failure to repeat, a de-formity, or a parodic repetition that exposes the phantasmatic effect of abiding identity as a politically tenuous construction. (Butler, 141)

 

Orlandó er persóna sem tekur ekki nema að hluta þátt í endurteknum gjöringi kyngervis síns en gengst um leið undir hann að verulegu leyti. Enda má segja að í Orlandó leiki Virginia Woolf sér fyrst og fremst með hugtökin kyn og kyngervi með því að sýna fram á hve ólík reynsla og möguleikar bíða sömu persónu eftir því hvors kyns hún er, eða er talin vera, hverju sinni. Orlandó er, eins og ég minntist á í upphafi, einum þræði pólitískt verk, nánar tiltekið kvennapólitískt þar sem farsakennd staða kvenna í menningarsögunni er í brennidepli og er þá gert ráð fyrir því að konur eigi sér, þrátt fyrir flöktandi kyngervi og mismunandi kynhneigð, vissa sameiginlega reynslu í nútíð og fortíð.

Orlandó getur varla talist meðal þekktustu skáldsagna Virginiu Woolf og kannast eflaust margir íslenskir lesendur við hana fyrst og fremst vegna samnefndrar kvikmyndar Sally Potter sem gerð var eftir sögunni. Sjálf segir Woolf í dagbók sinni að bókin hafi verið nokkurs konar stund milli stríða, að sköpun hennar hafi verið átakaminni en þeirra sem komu á undan og eftir, það er To the Lighthouse og The Waves. Hvað sem því líður á Orlandó fullt erindi við lesendur dagsins í dag, ekki síður en önnur verk Woolf, ekki síst vegna skarprar greiningar á stöðu kvenna sem að sumu leyti á enn við nú mörgum áratugum eftir útkomu bókarinnar. Hin fantastísku umskipti Orlandós og rótið sem fylgir þeim eru auk þess í skemmtilegum textatengslum við umræðu dagsins þar sem kynskipti, klæðskipti og kynusla ýmiss konar ber á góma svo að segja daglega hvort sem er í dægurmenningu, fagurmenningu eða fræðilegri umræðu.10

 

Aftanmálsgreinar

1 Ein smásagna Woolf hefur birst í íslenskri þýðingu Sigurðar Ingólfssonar, „Rökræður á Pentalikusarfjalli“, sjá Tímarit Máls og menningar 1989; 50 (3), bls. 376-382.

2 Geir Svansson hefur gert góða grein fyrir kenningum Butler í greininni „Ósegjanleg ást. Hinsegin sögur og hinsegin fræði í íslensku samhengi“ og eru hugtökin „kyngervi" og „kyngervisusli“ þýðingar hans á „gender trouble“ og „gender“. Með „kyngervi“ er átt við menningarbundið kyn andstætt líffræðilegu kyni. Sjá Skírni, haust 1998,bls. 476-527.

3 Um ævi Vitu Sackville-West má m.a. lesa í bók sonar hennar Nigel Nicholson, Portrait of a Marriage en eftir henni hafa einnig verið gerðir sjónvarpsþættir. Vita var lesbía og villti stundum á sér heimildir með því að klæðast sem karlmaður og þannig ferðaðist hún meðal annars með ástkonum sínum. Hún giftist Harold Nicholson og eignaðist með honum tvo syni, en bæði löðuðust að eigin kyni. Þrátt fyrir það tókst þeim að halda hjónabandi sínu gangandi. Woolf og Sackville-West áttu í nánu sambandi um árabil, sjá einnig Louise De-Salvo og Mitchell A. Leaska (ritstj.): The Letters ofVita Sackville-West to Virginia Woolf. New York: William Morrow and Company, 1985.

4 Virginia Woolf: Orlandó, ævisaga. Íslensk þýðing Soffía Auður Birgisdóttir. Reykjavík: Opna, 2017, bls. 212. Tilvitnunum í enska útgáfu bókarinnar hefur verið skipt út fyrir tilvitnunum í íslenska textann og eftirleiðist vísa blaðsíðutöl innan sviga í meginmáli til íslensku þýðingarinnar. Bókin var fyrst útgefin í London: The Hogarth Press, 1928.

5 Þess má geta að Sackville-West var í svipuðum sporum því samkvæmt fjölskylduhefð gat hún sem kona ekki erft ættaróðal sitt, Knole, sem Elísabet drottning ánafnaði Thomas Sackville árið 1566 (Sjá DeSalvo og Leaska, s. 17).

6 Hér verður vitnað í íslenska þýðingu Helgu Kress á verkinu, Reykjavík: Svart á hvítu,1983.

7 Kvennarannsóknir í bókmenntum eftir daga Virginiu Woolf hafa meðal annars beinst að því að grafa upp týnd bókmenntaverk kvenna, endurmeta þau og gera þau sýnileg og hafa margir femínistar bent á að það sé á misskilningi byggt að konur hafi ekki skrifað á árum áður. Sjá til dæmis formála Claire Buck að The Bloomsbury Guide to Womens Literature, þar sem hún segir: „Until quite recently, feminist criticism in the West, following a trend set by Virginia Woolf in A Room of One's Own (1929), was engaged in explaining the historical absence of women writers. However, their research has now shown that the project was it-self misconceived because women have been writing in considerable numbers for as long as men.“ The Bloomsbury Guide to Womens Literature. New York: Prentice Hall, 1992, s.viii.

8 Jeanette Winterson: Kynjaber. Reykjavík: Mál og menning, 1992.

9 Judith Butler: Gender Trouble: Feminism and the Subversion of ldentity. London: Routledge, 1990, s. 17.

10 Uppistaða þessarar greinar er ritgerð sem ég skrifaði í námskeiðinu „Kvennafræði og breskar bókmenntir“ í Háskóla Islands vorið 1998. Kennari námskeiðsins, Soffía Auður Birgisdóttur og fyrrverandi eiginmaður minn, Garðar Baldvinsson bókmenntafræðingur, lásu ritgerðina yfir og einnig las Wilhelm Emilsson bókmenntafræðingur greinina í lítið eitt breyttri mynd. Öll fá þau bestu þakkir fyrir gagnlegar ábendingar.

Greinin birtist áður í Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 1999