SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 9. ágúst 2020

HINSEGIN BÓKMENNTIR KVENNA

Í tilefni af Hinsegin dögum í Reykjavík er ástæða til að vekja athygli á hinsegin bókum eftir íslenskar konur. Þótt lesbíur séu fremur nýlegt fyrirbæri í íslenskum bókmenntum má draga ýmislegt fram í dagsljósið sem kannski er ekki á allra vitorði og þetta svið er í örum vexti á íslenskum ritvelli.

Af eldri textum mætti til dæmis nefna að Málfríður Einarsdóttir frá Munaðarnesi (1899-1983) er með afar fallega lýsingu á ástarsambandi tveggja kvenna í bókinni Rásir dægranna sem kom út eftir þremur árum eftir andlát höfundarins. Þar er birtur kaflinn „Frumástir Tötru“, en Tötra er önnur aðalpersónan í skáldsögum Málfríðar Auðnuleysingi og Tötrughypja (1979) og Tötra í Glettingi (1983). „Frumástir Tötru“ segja frá því þegar Tötra „komst nær tindum sálrænna fyrirbrigða svo sem ástalíf manna má teljast vera“, en það var þegar hún varð ástfangin af Einhildi Dómhildi, nágrannakonu sinni: „Þar sem áður var ágapi, var nú eros“ (sjá bls. 93-111).

Lýsing Málfríðar á þessum samkynja ástum er innileg, hreinskilin og fyndin; í frásögninni fléttast saman trú og ást, að ógleymdu háði sem beinist að þeim sem véla um synd og refsingu: „[...] og gerðust af þessu merkilegir hlutir og hefðu ekki mátt í letur færast á öldinni sem leið“, stendur þar (bls. 104). Í sömu bók er einnig að finna merkilega frásögn af Guðrúnu Sveinbjarnardóttur, dóttur Sveinbjörns Egilssonar, rektors Lærða skólans, og konu hans Helgu Benediktsdóttur Gröndal, sem sumir töldu að fæðst hafi í röngu kyni. Sjá meira um Guðrúnu í grein Soffíu Auður Birgisdóttur, "Hið "sanna kyn" eða veruleiki líkamans" sem birtist í 2. hefti Ritsins 2017.

 

Kristínu Ómarsdóttur má hiklaust krýna sem drottningu íslenskra hinsegin bókmennta og svo til allar hennar bækur tilheyra því sviði, á einn eða annan hátt. Skáldverk hennar eru oft ögrandi og á skjön við viðteknar reglur samfélagsins, Kristín virðir engin landamæri í verkum sínum, textar hennar hvetja til heilabrota - og ekki má gleyma hversu fyndin höfundur hún er á köflum.

 

Skáldsaga Vigdísar Grímsdóttur, Z. Ástarsaga (1996) markaði tímamót í íslenskum bókmenntum því bókin hverfist um ástarsamband tveggja kvenna og er fyrsta íslenska skáldverkið sem gerir það á opinskáan hátt. Eins og aðaltitillinn, Z, bendir á er þessi ást “bönnuð” eða “falin” í litrófi mannlífsins, líkt og stafurinn z er bannaður í íslensku máli þótt hann sé vissulega til staðar í stafrófinu.

 

 

Á undanförnum árum má tala um nokkra sókn hvað lesbískar bókmenntir varðar með verkum eftir höfunda á borð við Jónínu Leósdóttur, Lilju Sigurðardóttur og Fríðu Bonnie Andersen, svo nokkrar séu nefndar.

 

Jónína Leósdóttir braut blað með þríleiknum Kossar og ólífur (2007), Svart og hvítt (2008) og Ég og þú (2009) sem eru skrifaðar fyrir unglinga og lýsa lífi unglingsstúlkunni Önnu sem áttar sig smám saman á því að hún er samkynhneigð. Jónína hefur skrifað mörg fleiri verk sem fjalla um samkynhneigðar ástir og þar er líklega þekktust bók hennar um samband hennar og Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra og eiginkonu Jónínu, Við Jóhanna (2013)

 

 

Lilja Sigurðardóttir skrifar glæpa- og spennusögur og fléttar stundum lesbískum ástarsamböndum saman við söguþráðinn. Kærustunum Sonju og Öglu kynntust lesendur í bókum hennar Gildran (2015), Netið (2016) og Búrið ( 2017) og fleiri lesbíur dúkka upp í sögum hennar, í aðal- og aukahlutverkum.

 

Fríða Bonnie Andersen gaf út mjög áhugaverða skáldsögu, Að eilífu ástin, árið 2018, sem fjallar um forboðnar ástir tveggja kvenna á tímum síðari heimstyrjaldarinnar á Íslandi og fleiri hinsegin þemu koma við sögu.

Ýmsa fleiri kvenrithöfunda mætti nefna sem skrifa um lesbískar ástir og hinsegin þemu, svo sem Evu Rún Snorradóttur og Björgu Guðrúnu Gísladóttur, svo ljóst er að þetta svið mannlífsins er í sókn í íslenskum bókmenntum, eins og vera ber.

Að lokum er vert á benda á vefsíðu Ástu Kristínar Benediktsdóttir, bókmenntafræðings, Hinsegin land, er þar er að finna Kynvillta bókmenntahornið, þar sem hún fjallar um hinsegin bókmenntir af öllu tagi og þar má finna margt áhugvert lesefni til fróðleiks og skemmtunar.